Vandamál nútímans skilgreint af Dalai Lama.

Ég var að fletta í gegnum Facebook áðan og las þá enn eina greinina sem Hjartalíf birtir. en greinin heitir  „Nútíminn er trunta“ og er eftir Geir Gunnar. Greinin er góð og ber saman gamla og nýja tíma í lifnaðarháttum þjóðarinnar. En niðurlag greinarinnar  ætla ég að fá að birta hér og vona að ég sé ekki að gera rangt með því að klippa það út og birta.

Í þessum texta er vitnað i Dalai Lama sem  orðar vandamál nútímamannsins svo frábærlega með þessum orðum:

“Það sem kemur mér mest á óvart í mannlegri tilveru er að maðurinn fórnar heilsu sinni til að eignast peninga. Svo fórnar hann peningunum til að ná aftur heilsu sinni. Á sama tíma er hann svo spenntur fyrir framtíð sinni að hann nýtur ekki augnabliksins. Afleiðingin er sú að hann lifir hvorki í nútíð né framtíð. Og hann lifir eins og hann muni aldrei deyja og svo deyr hann án þess að hafa lifað.” 

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Í tiltekt áðan

fann ég  smá bréfsnifsi sem á var párað ljóð, sem hafði komið upp í huga mér þegar ég var í Hveragerði s.l. vetur. Þetta var daginn eftir bóndadag og alveg ömurlega leiðinlegt veðrið.  Ég er svo langt frá því að geta samið ljóð, svo í ljósi þess fannst mér merkilegt þegar þetta kom í hausinn á mér.  En þrátt fyrir það að kveðskapurinn er engan veginn gallalaus, sérstaklega ein vísan, sem er með gallan seinnipart, þá ætla ég samt að halda uppá þetta fyrst ég fann það aftur. Ég var bara alveg búin að gleyma þessu.

Þorrinn kom hér þeysandi
þykist góður með sig
Úti er slyddan ausandi
alveg að fara með mig.

Í dag er úti veður vott
og verður næstu daga
Veðurguð minn gerðu oss gott
og reyndu þetta að laga.

Þá munum vér þóknast þér
og Þorrann þreyja
alla okkar daga hér
og enginn deyja.

Myndin minnir mig að sé tekin daginn áður.

Mynd0057

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Að fóðra leiðindapúkann.

Sem betur fer tel ég mig frekar jákvæða manneskju, en svo náði leiðindapúki tökum á mér í síðustu viku og hefur alveg verið að fara með mig.  Ég áttaði mig síðan á því síðdegis í gær að ég yrði að taka sjálfa mig í gegn og hætta að hugsa um óraunhæfar væntingar í stað þess að magna þær upp. Ég yrði að grípa til ráðstafana, losa mig við leiðindapúkann og sætta mig við  lífið og tilveruna eins og hún er.
Það kemur í raun á óvart hvað það er auðvelt að magna upp í sér svona ólund  án þess að taka beint eftir því hvað er að gerast. Maður er bara vansæll og leiður yfir einhverju eða væntingar sem maður hefur haft ganga ekki eftir. Það sem gerist síðan er að maður heldur áfram að fóðra leiðindapúkann með fleiri neikvæðum hugsunum og eflir hann til muna. Það endar svo með því að maður leyfir leiðindapúkanum að leika lausum hala og hann úðar neikvæðninni yfir þá sem í kringum hann eru. Þá loksins opnast augu manns fyrir því að nú er komið meira en nóg og púkann þarf að losa sig við – strax.
Enn einu sinni þarf að minna sig á að það leysir engan vanda að vera neikvæður og ekkert – alls ekkert breytist til hins betra á meðan neikvæðni ríkir í huganum.

Eftir að átta sig á því hvað maður er að gera sjálfum sér er mál að grípa í taumana, gera hreint fyrir sínum dyrum og taka síðan aftur gleði sína.  Það er ótrúlegt hvað það eru oft til þess að gera litlir hlutir sem geta opnað leiðindapúkum greiða leið að hugarfylgsnum manns. Svo koma stóráföll og þau eru tekin á jákvæðu nótunum og maður stappar í sig stálinu, eins og stóra krabbameinsaðgerðin í fyrra sem ég tók af mikilli jákvæðni og lét engan bilbug á mér finna og mörg áföll sem hefðu átt að leggja mann í rúst hefur maður staðist með jákvæðni.  Já það er merkilegur þessi hugur og hvernig maður fer með hann.

Ekki þurfti ég nú merkilegra tilefni að þessu sinni, en það að detta niður í fýlu út af sumri sem mér finnst  hafa glatast. Ég var búin að gera mér þær væntingar að vinna upp orku í sumar til þess að  koma mér í betra form eftir veikindin í fyrra, ferðast mikið og gera eitthvað skemmtilegt. Sumarið í fyrra fór svona fyrir ofan garð og neðan vegna veikindanna, en strax í vor var ég farin að hlakka til að fá að ferðast innanlands og sérstaklega að komast í fyrirhugaða ferð um norðurlandið og skoða staði sem ég hef ekki skoðað.  Já mér fannst ég bara eiga það svo mikið skilið að gera eitthvað skemmtilegt.

Í vikunni hef ég verið að magna upp í mér leiða yfir því að sumarið kom og sumarið fór, en sumarleyfisferðin var aldrei farin og aðeins þrisvar var tækifæri til að skreppa í nærsveitir og gista yfir nótt.  Já það er nú ekki merkilegra en þetta sem hefur alveg verið að fara með mig. Þetta þykir sjálfsagt ekki tilefni til þess að fara í fýlu yfir, væntingar mínar hafa bara verið of miklar,  meiri en aðstæður leyfðu.

Í gær sá ég að ég gæti ekki verið að dekra meira við vorkunnsemina við sjálfa mig og syrgja drauma sem ekki rætast að sinni. Liðnum tíma getur maður ekki breytt, hvað sem maður fer í mikla fýlu og fyllir sig af neikvæðni.  Til þess að þola samvistir með sjálfum sér verður jákvæðni að ríkja. Það var því tími til kominn að losa sig við fýlu og neikvæðni og gleðjast yfir því að fá að vera þátttakandi í lífinu, því það fá ekki allir tækifæri til þess. Nú snýr maður sér bara brosandi að haustinu  🙂

Ég finn til með þeim sem falla djúpt og lengi í neikvæðni, því þessir fáu dagar voru mér mikið meira en nóg.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Veðurguðinn sjálfur á mynd.

IMG_1531

 

Mér hálf brá þegar ég var að renna yfir sólarlagsmyndirnar mínar og þetta andlit birtist allt í einu á skjánum. Spurning hvort þetta er sjálfur veðurguðinn og hvort fleiri sjá hann en ég.

Posted in Ýmislegt | 5 Comments

Menningardagur – Menningarnótt

Enn einu sinni ákváðum við að fara í bæinn á Menningarnótt/degi og enn einu sinni töldum, við  okkur svo trú um að veðrið væri svo leiðinlegt að við skyldum bara sjá til seinni partinn, en þetta var upp úr hádegi. Svo fengum við gott boð um menningarhitting með veislukaffi í Ásakórnum svo við vorum ekki lengi að ákveða að geyma bæjarferðina og fara í kaffiboðið, það yrði llíka örugglega stytt upp seinni partinn. Þegar við komum heim aftur þá tók því ekki að fara í bæinn fyrir kvöldmat, svo það var ákveðið að fara heldur eftir fréttirnar.
Hér sit ég svo klukkan að verða eitt um nótt.  Við horfðum á viðburði kvöldsins í sjónvarpinu og þökkuðum fyrir að vera bara heima þegar við sáum hvað það var mikil rigning. Eftir þetta fór ég svo að dunda mér við að setja gamlar myndir hérna inn í nýju myndaalbúmin. Ég gjörsamlega gleymdi mér við að skoða bæði gamlar fjölskyldumyndir og ekki síst myndir frá saumaklúbbsferðum og hitting. Nú eru tvær úr saumónum látnar og það er dásamlegt að eiga minningar um gleðifundi okkar hérna í albúminu.  Ég á örugglega oft eftir a gleyma mér við að setja inn myndir af hinu og þessu.
Nú er hinsvegar best að koma sér í rúmið áður en fer að birta aftur af degi. Flokkast þetta annars nokkuð undir það að vera orðin gömul, að nenna ekki í bæinn á svona degi 🙁

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Nýtt útlit á bloggið mitt.

Ég hef verið hálf óánægð með uppsetninguna á blogginu mínu svo ég hef verið sjálf að fikta í því að breyta henni. Þetta er útkoman eftir fyrstu yfirfærslu. Ég á alveg eftir að koma í lag myndaalbúmunum, sem aldrei hafa virkað almennilega hjá mér og fleira á ég eftir að athuga – kannski þarf ég sérfræðing til að redda restinni, en kannski tekst mér sjálfri að komast í gegnum þetta.  Það er gaman ef þetta hefur tekist hjá mér einmitt á þessum degi 22. ágúst, á afmælinu hans Odds Vilbergs.
Svo vona ég bara að þetta haldist inni en verði ekki dottið út í fyrramálið 😉

oddur_og_amma

Posted in Helstu fréttir. | 4 Comments

Hann Oddur Vilberg á afmæli í dag

og ég óska honum innilega til hamingju með afmælið.  Mér fannst gaman að skoða gamla færslu frá því hann var 6 ára og amma kallaði hann ömmustubb og hann var ekki á því þá að amma hætti að kalla hann það. Nú er hann sko enginn stubbur lengur, myndarunglingur, fermdur og orðinn mikið hærri en amma og hefur mörg áhugamál sem hann sinnir vel.
http://ragna.betra.is/?p=302

(Ég er búin að koma kveðjunni hérna inn, en það er alveg dottið út valið um að setja inn myndir – Þetta verður því langt frá því sem ég ætlaði mér því það áttu að koma  inn myndir frá því 6 ára og önnur ný.  Ég verð að fara að tala við sérfræðing sem ætlar að hjálpa mér að uppfæra síðuna mína. Hef bara ekki komist í það ennþá.  Ég var eitthvað að fikta sjálf í þessu um daginn og allt komið í rugl 🙁

 

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Svo lánsöm sem búum á Íslandi.

Þetta  hljómar kannski ekki vel hjá mér þegar margir landsmenn okkar eiga virkilega erfitt með að láta enda ná saman, eru jafnvel að missa híbýli sín vegna þess hve erfitt er að standa í skilum og launin hjá mörgum lág, að ekki sé nú talað um það lítilræði sem fólk fær úr almannatryggingum. –  Nei, svo sannarlega geri ég ekki lítið úr þessum atriðum. Ég veit af einstaklingum sem hafa svo lítið handa á milli, að þegar búið er að borga mánaðarlegar skuldir, er svo lítið eftir að það getur ekki leyft sér að kaupa eldsneyti á bílinn sinn, (þeir sem slíkan munað eiga) og hefur varla efni á  öðru en haframjöli í graut til þess að nærast á seinni hluta mánaðarins. Nú tala ég um fólk sem er of stolt til þess að þiggja matargjafir. Ég skil því vel að fyrirsögnin mín þyki ekki hljóma vel.

Hins vegar kom það upp í hugann þegar ég horfði á fréttatímann í sjónvarpinu í kvöld, hvað við værum lánsöm á Íslandi að búa ekki við stríðsátök, hvað sem um annað má segja.  Það er skelfilegt að sjá myndirnar sem nú koma frá Egyptalandi þar sem bæði saklaus börn og fullorðnir liggja  í blóði sínu á götum úti. Það virðist  ekkert útlit fyrir að þessu linni neitt á næstunni því hatrið er svo mikið á milli þessara stríðandi fylkinga.

Ég held bara að það sé ekkert hræðilegra og óhugnarlegra en svona styrjaldir og kannski ekki síst fyrir það, að manni finnst að það eigi að vera hægt að útkljá ágreiningsmál á annan hátt, en að drepa hvern þann sem hefur aðra skoðun og er þér ósammála.

Ég bara varð að koma þessum vangaveltum frá mér þó þetta sé nú ekki jákvæður pistill, en það er því miður fleira til í lífinu en það sem jákvætt er. –  Það jákvæða er þó hvað við erum lánsöm að við höfum ekki þurft að ala börnin okkar upp við að hér sé stríð.

 

Posted in Hugleiðingar mínar | 3 Comments

Selfossferð – „Sumar á Selfossi“

Við ákváðum eftir hádegi í gær að það gæti verið gaman að skreppa á húsbílnum austur á Selfoss og fara svo í morgunmat í stóra partýtjaldið þeirra í Árborg ásamt bæjarbúum og ferðafólki. Við drifum okkur því í að tína það til sem þurfti til ferðarinnar, skutluðum því út í húsbílinn og brunuðum svo af stað í yndælis veðri.  Það fór hinsvegar að þyngjast veðrið upp við Sandskeið og var orðin alveg þétt þoka á Hellisheiði. Við bjuggumst við að þokunni létti þegar við kæmum niður í Hveragerði, en sú von varð að engu því það var líka þoka og suddi alla leiðina á Selfoss og hélt áfram allt kvöldið.
Við ókum inn á tjaldstæðin við Gesthús á Selfossi og hrósuðum happi yfir því að ná, að okkur sýndist, síðasta stæðinu sem var við rafmagnstengi. Það var komið ótrúlega mikið þarna af tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og hvað þetta heitir nú allt saman. Skýringin á þessum miklu vinsældum tjaldstæðanna reyndist vera sú, að það var íþróttamót á Selfossi um helgina í viðbót við aðra viðburði.
Við létum veðrið ekkert á okkur fá á þessum tímapunkti og Haukur „skrapp“ út í rigninguna til þess að tengja okkur við rafmagnið. Eitthvað fannst mér skrýtið hvað hann var lengi úti og ég heyrði hann róta lengi og mikið í geymsluhólfinu. Skýringin reyndist síðan sú, að rafmagnstengið í bílinn var bara alls ekki meðferðis. Haukur notaði það um síðustu helgi og þetta var mjög undarlegt.  Við fréttum síðan að tengið hefði fundist þennan sama dag, í grasinu aftan við þar sem bílinn hafði verið á Rangárvöllunum um síðustu helgi og finnandinn hefði verið að koma með það til borgarinnar á sama tíma og við vorum að koma okkur fyrir þarna á Selfossi.  Við færðum bílinn því yfir á rafmagnslaust svæði svo einhver annar gæti notið rafmagnsins.

Það er af sú tíð að finnast gott að kúrast í litlu tjaldi með vindsæng og svefnpoka eins og maður elskaði að gera í „den“. Þá var svo gaman að hlusta á regndropana falla á tjaldið – það var ekki einu sinni búið að finna upp aukahiminn á tjöldin í þá daga, svo ekki mátti koma við tjaldið því þá blotnaði allt í gegn. Eldað var á einum prímus og síðan vaskað upp í næsta kalda læk og vasaljós haft meðferðis  til að nota þegar farið var að dimma. Klósett voru líka alveg óþekkt nokkurs staðar í útilegum, varla einu sinni kamrar.  Já, þetta var á þeim tíma sem allt var svo auðvelt og skemmtilegt – Ekkert vesen við neitt.

Nú er maður orðinn svo ofdekraður að það skal allra þæginda notið í útilegunni. Reyndar er nú varla hægt að tala um útilegu lengur, því nú er ferðast með eldhús og bað meðferðis, sofið í rúmi með dúnsæng, lesið við rafmagnsljós og jafnvel kveikt á mörgum ljósum, lagað kaffi með rafmagni, miðstöðin látin blása  heitu lofti út í hvert horn með hjálp rafmagns, heitt vatn í krönum og eflaust gleymi ég einhverju. Svo þegar allt í einu er ekkert rafmagn nema lítilsháttar á aukageymi, þá er bara allt ómögulegt. Bara kalt vatn i krönunum og verður passa að hafa ekkert aukaljós, hitinn úr gasofninum fer allur á einn stað, því blásturinn þarf rafmagn og svo allt hitt. Já það er ótrúlegt hvað það er alltaf erfitt að snúa til baka þegar búið er að venja sig á eitthvað betra. 

Við skoðuðum í gærkveldi aðstöðuna hjá þeim þarna á tjaldstæðunum á Selfossi og hún er virkilega fín. Auðvitað lifðum við svo ágætlega af nóttina, þó svefninn væri reyndar köflóttur og það fylgdi þokusuddanum ótrúlega köld nótt. Í morgun var ekkert farið að létta til svo við færðum bílinn nær stóra partýtjaldinu til þess að verða ekki hundblaut á leið í morgunverðinn. Við komum aðeins fyrir klukkan níu og þurftum ekki að standa lengi í röð til að komast inn, en síðan fóru raðirnar að lengjast enda var sagt í fréttum í kvöld, að um fjögurþúsund manns hefðu þegið þarna morgunverð milli klukkan 9 og 11. Það er svo myndarlega að þessu staðið og morgunverðurinn svo flottur að það er mikill sómi að. Guðni bakari býður uppá fleiri þúsund rúnnstykki og svo er í boði alls kyns álegg, mjólkurdrykkir, jógúrt, kleinur og snúðar, ásamt kaffi svo eitthvað sé nefnt. Allt í boði fyrirtækjanna í bænum og enginn þarf að borga eyri fyrir. Ég segi bara TAKK KÆRLEGA FYRIR MIG.

Það var mjög gaman að vera þarna með Eddu systur og Jóni Inga og hitta svo gamla nágranna úr Sóltúninu, aðra fjölskyldumeðlimi og vini. Það voru skemmtiatriði á sviðinu og síðan harmonikuleikur sem kitlaði mjög tærnar og í huganum fór ég á flug í völsum og polkum.  – Enn var veðrið þungbúið þegar við komum úr morgunmatnum svo við ákváðum að fara í bíltúr um bæinn. Upphafleg áætlun var hins vegar sú að það yrði gott veður og dagurinn notaður til að rölta um bæinn. Það var gaman að skoða skreytingarnar í hinum ýmsu hverfum, en þær voru margar og margvíslegar, gular, bláar, bleikar appelsínugular og grænar. Systir mín var búin  að segja okkur að koma í kvöldmat áður en við færum á sléttusönginn sem er klukkan hálf tíu í kvöld, en eftir að við höfðum skoðað bæinn þarna um hádegið þá ákváðum við bara að aka í rólegheitum Suðurstrandaveginn og vona að á næsta ári verði veðrið skemmtilegra þegar hátíðin „Sumar á Selfossi“ fer fram. Það er nefnilega svo gaman að vera þarna í góðu veðri, fara á varðeldinn, syngja og horfa svo á flugeldasýninguna. Kannski hefur létt til seinni partinn, en við afþökkuðum sem sagt gott boð um kvöldmat og sléttusöng og ókum heim á leið. Við stoppuðum í Hendur í Höfn í Þorlákshöfn, en það er eiginlega skyldumæting að koma við á því notalegt veitingahúsi. Þarna fengum við okkur súpu klukkan að ganga tvö  og ókum svo þaðan til Grindavíkur og heim. Við drukkum síðan kaffi hérna úti á svölum í glampandi sólskyni og erum sæl og ánægð með þessa helgarferð, sem varla getur þó kallast helgarferð, því hún endar á miðjum laugardeegi 🙂

 

 

Posted in Helstu fréttir., Ýmislegt | 1 Comment

Ekki búin að gleyma.

Ég er ekki búin að gleyma þér kæra dagbók og ég vil líka láta þig vita að það eru eingöngu góðar fréttir af mér. Það er bara einhver sumarleti hangandi yfir mér svo ég kemst ekki með nokkru móti í rétta gírinn til þess að setja inn færslur. Ég hef aldrei verið slappari að skrifa heldur en eftir að ég ætlaði að fara að snúa mér að skapandi skrifum eftir að hafa tendrast upp á fyrirlestri um slíkt.  Ha,ha.  Þá fór ég nefnilega að velta því fyrir mér hvernig skrifin ættu að vera eða ekki að vera og endaði með því að ég hef ekkert skrifað.  Meiri vitleysan.  Besta bloggið er auðvitað bara það sem kemur frá hjartanu en ekki eftir einhverri formúlu.  Ég vona að ég fari nú að komast í svona smá stuð þegar líður meira á sumarið og þá ætla ég ekki að reyna að vera eitthvað sem ég er ekki heldur segja þér dagbók mín kær bara það sem mér liggur á hjarta hverju sinni.  Fyrst og fremst vil ég halda utan um ýmislegt í mínu lífi og leyfa mínum nánustu að fylgjast með því hvað mér liggur á hjarta og hvað ég finn gamalt í ýmsum pokahornum.

Ég kveð í bili og hlakka til að njóta fallega sumardagsins sem spáð er á morgun.   Bless þar til næst.

Posted in Helstu fréttir., Ýmislegt | 2 Comments