Selfossferð – „Sumar á Selfossi“

Við ákváðum eftir hádegi í gær að það gæti verið gaman að skreppa á húsbílnum austur á Selfoss og fara svo í morgunmat í stóra partýtjaldið þeirra í Árborg ásamt bæjarbúum og ferðafólki. Við drifum okkur því í að tína það til sem þurfti til ferðarinnar, skutluðum því út í húsbílinn og brunuðum svo af stað í yndælis veðri.  Það fór hinsvegar að þyngjast veðrið upp við Sandskeið og var orðin alveg þétt þoka á Hellisheiði. Við bjuggumst við að þokunni létti þegar við kæmum niður í Hveragerði, en sú von varð að engu því það var líka þoka og suddi alla leiðina á Selfoss og hélt áfram allt kvöldið.
Við ókum inn á tjaldstæðin við Gesthús á Selfossi og hrósuðum happi yfir því að ná, að okkur sýndist, síðasta stæðinu sem var við rafmagnstengi. Það var komið ótrúlega mikið þarna af tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og hvað þetta heitir nú allt saman. Skýringin á þessum miklu vinsældum tjaldstæðanna reyndist vera sú, að það var íþróttamót á Selfossi um helgina í viðbót við aðra viðburði.
Við létum veðrið ekkert á okkur fá á þessum tímapunkti og Haukur „skrapp“ út í rigninguna til þess að tengja okkur við rafmagnið. Eitthvað fannst mér skrýtið hvað hann var lengi úti og ég heyrði hann róta lengi og mikið í geymsluhólfinu. Skýringin reyndist síðan sú, að rafmagnstengið í bílinn var bara alls ekki meðferðis. Haukur notaði það um síðustu helgi og þetta var mjög undarlegt.  Við fréttum síðan að tengið hefði fundist þennan sama dag, í grasinu aftan við þar sem bílinn hafði verið á Rangárvöllunum um síðustu helgi og finnandinn hefði verið að koma með það til borgarinnar á sama tíma og við vorum að koma okkur fyrir þarna á Selfossi.  Við færðum bílinn því yfir á rafmagnslaust svæði svo einhver annar gæti notið rafmagnsins.

Það er af sú tíð að finnast gott að kúrast í litlu tjaldi með vindsæng og svefnpoka eins og maður elskaði að gera í „den“. Þá var svo gaman að hlusta á regndropana falla á tjaldið – það var ekki einu sinni búið að finna upp aukahiminn á tjöldin í þá daga, svo ekki mátti koma við tjaldið því þá blotnaði allt í gegn. Eldað var á einum prímus og síðan vaskað upp í næsta kalda læk og vasaljós haft meðferðis  til að nota þegar farið var að dimma. Klósett voru líka alveg óþekkt nokkurs staðar í útilegum, varla einu sinni kamrar.  Já, þetta var á þeim tíma sem allt var svo auðvelt og skemmtilegt – Ekkert vesen við neitt.

Nú er maður orðinn svo ofdekraður að það skal allra þæginda notið í útilegunni. Reyndar er nú varla hægt að tala um útilegu lengur, því nú er ferðast með eldhús og bað meðferðis, sofið í rúmi með dúnsæng, lesið við rafmagnsljós og jafnvel kveikt á mörgum ljósum, lagað kaffi með rafmagni, miðstöðin látin blása  heitu lofti út í hvert horn með hjálp rafmagns, heitt vatn í krönum og eflaust gleymi ég einhverju. Svo þegar allt í einu er ekkert rafmagn nema lítilsháttar á aukageymi, þá er bara allt ómögulegt. Bara kalt vatn i krönunum og verður passa að hafa ekkert aukaljós, hitinn úr gasofninum fer allur á einn stað, því blásturinn þarf rafmagn og svo allt hitt. Já það er ótrúlegt hvað það er alltaf erfitt að snúa til baka þegar búið er að venja sig á eitthvað betra. 

Við skoðuðum í gærkveldi aðstöðuna hjá þeim þarna á tjaldstæðunum á Selfossi og hún er virkilega fín. Auðvitað lifðum við svo ágætlega af nóttina, þó svefninn væri reyndar köflóttur og það fylgdi þokusuddanum ótrúlega köld nótt. Í morgun var ekkert farið að létta til svo við færðum bílinn nær stóra partýtjaldinu til þess að verða ekki hundblaut á leið í morgunverðinn. Við komum aðeins fyrir klukkan níu og þurftum ekki að standa lengi í röð til að komast inn, en síðan fóru raðirnar að lengjast enda var sagt í fréttum í kvöld, að um fjögurþúsund manns hefðu þegið þarna morgunverð milli klukkan 9 og 11. Það er svo myndarlega að þessu staðið og morgunverðurinn svo flottur að það er mikill sómi að. Guðni bakari býður uppá fleiri þúsund rúnnstykki og svo er í boði alls kyns álegg, mjólkurdrykkir, jógúrt, kleinur og snúðar, ásamt kaffi svo eitthvað sé nefnt. Allt í boði fyrirtækjanna í bænum og enginn þarf að borga eyri fyrir. Ég segi bara TAKK KÆRLEGA FYRIR MIG.

Það var mjög gaman að vera þarna með Eddu systur og Jóni Inga og hitta svo gamla nágranna úr Sóltúninu, aðra fjölskyldumeðlimi og vini. Það voru skemmtiatriði á sviðinu og síðan harmonikuleikur sem kitlaði mjög tærnar og í huganum fór ég á flug í völsum og polkum.  – Enn var veðrið þungbúið þegar við komum úr morgunmatnum svo við ákváðum að fara í bíltúr um bæinn. Upphafleg áætlun var hins vegar sú að það yrði gott veður og dagurinn notaður til að rölta um bæinn. Það var gaman að skoða skreytingarnar í hinum ýmsu hverfum, en þær voru margar og margvíslegar, gular, bláar, bleikar appelsínugular og grænar. Systir mín var búin  að segja okkur að koma í kvöldmat áður en við færum á sléttusönginn sem er klukkan hálf tíu í kvöld, en eftir að við höfðum skoðað bæinn þarna um hádegið þá ákváðum við bara að aka í rólegheitum Suðurstrandaveginn og vona að á næsta ári verði veðrið skemmtilegra þegar hátíðin „Sumar á Selfossi“ fer fram. Það er nefnilega svo gaman að vera þarna í góðu veðri, fara á varðeldinn, syngja og horfa svo á flugeldasýninguna. Kannski hefur létt til seinni partinn, en við afþökkuðum sem sagt gott boð um kvöldmat og sléttusöng og ókum heim á leið. Við stoppuðum í Hendur í Höfn í Þorlákshöfn, en það er eiginlega skyldumæting að koma við á því notalegt veitingahúsi. Þarna fengum við okkur súpu klukkan að ganga tvö  og ókum svo þaðan til Grindavíkur og heim. Við drukkum síðan kaffi hérna úti á svölum í glampandi sólskyni og erum sæl og ánægð með þessa helgarferð, sem varla getur þó kallast helgarferð, því hún endar á miðjum laugardeegi 🙂

 

 

This entry was posted in Helstu fréttir., Ýmislegt. Bookmark the permalink.

One Response to Selfossferð – „Sumar á Selfossi“

  1. Gott að lesa pistil frá þér. Nú skulum við hefja bloggið aftur til vegs og virðingar mín kæra. Ætla sjálf að skrifa fyrir helgi. Njóttu daganna og við heyrumst.

Skildu eftir svar