Svo lánsöm sem búum á Íslandi.

Þetta  hljómar kannski ekki vel hjá mér þegar margir landsmenn okkar eiga virkilega erfitt með að láta enda ná saman, eru jafnvel að missa híbýli sín vegna þess hve erfitt er að standa í skilum og launin hjá mörgum lág, að ekki sé nú talað um það lítilræði sem fólk fær úr almannatryggingum. –  Nei, svo sannarlega geri ég ekki lítið úr þessum atriðum. Ég veit af einstaklingum sem hafa svo lítið handa á milli, að þegar búið er að borga mánaðarlegar skuldir, er svo lítið eftir að það getur ekki leyft sér að kaupa eldsneyti á bílinn sinn, (þeir sem slíkan munað eiga) og hefur varla efni á  öðru en haframjöli í graut til þess að nærast á seinni hluta mánaðarins. Nú tala ég um fólk sem er of stolt til þess að þiggja matargjafir. Ég skil því vel að fyrirsögnin mín þyki ekki hljóma vel.

Hins vegar kom það upp í hugann þegar ég horfði á fréttatímann í sjónvarpinu í kvöld, hvað við værum lánsöm á Íslandi að búa ekki við stríðsátök, hvað sem um annað má segja.  Það er skelfilegt að sjá myndirnar sem nú koma frá Egyptalandi þar sem bæði saklaus börn og fullorðnir liggja  í blóði sínu á götum úti. Það virðist  ekkert útlit fyrir að þessu linni neitt á næstunni því hatrið er svo mikið á milli þessara stríðandi fylkinga.

Ég held bara að það sé ekkert hræðilegra og óhugnarlegra en svona styrjaldir og kannski ekki síst fyrir það, að manni finnst að það eigi að vera hægt að útkljá ágreiningsmál á annan hátt, en að drepa hvern þann sem hefur aðra skoðun og er þér ósammála.

Ég bara varð að koma þessum vangaveltum frá mér þó þetta sé nú ekki jákvæður pistill, en það er því miður fleira til í lífinu en það sem jákvætt er. –  Það jákvæða er þó hvað við erum lánsöm að við höfum ekki þurft að ala börnin okkar upp við að hér sé stríð.

 


Comments

3 responses to “Svo lánsöm sem búum á Íslandi.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *