Önnur vikan liðin.

Séð út um gluggann minn niður að Hlein, þar sem Oddur var síðustu árin.

reykjalundur1.jpg

Þá er ég komin í helgarfrí eftir aðra vikuna á Reykjalundi.  Það er nú svolítið tómlegt að koma heim í mannlausa íbúðina eftir að hafa verið í góðum félagsskap þarna uppfrá, en næsta helgi lofar góðu og hver veit nema við Haukur skreppum þá í haustlitaferð ef veður leyfir.

Annars er svo fallegt umhverfið þarna á Reykjalundi og skógurinn mikill í kring, að ég fæ að upplifa breytinguna á sumri í haust á hverjum degi í göngutúrunum okkar. Ég greip með mér myndavélina í göngutúrinn í dag og set hérna inn nokkrar myndir.

 reykjalundur2.jpg

Svo birtust þessir litlu sætu álfar með fóstrunni sinni í einu dimma rjóðrinu .

reykjalundur3.jpg

Það er nú varla hægt að hugsa sér fallegra umhverfi
til gönguferða á höfuðborgarsvæðinu.

reykjalundur4.jpg

þegar ég lít yfir þessa viku tvö þá er hún jafn ánægjuleg og sú fyrri. Það er talsverð vinna að takast á við bæði líkama og sál, að ég nú tali ekki um að koma svefninum í það form að ég hætti að vaka miðbikið af nóttinni. Læknirinn segir það bara ekki ganga upp og það sé ávísun á endalaust heilsuleysi. þar hef ég það. Ég sagði honum samt að svefnlyf tæki ég ekki og hann yrði að virða það. Ég féllst á að prufa mig áfram á gigtarlyfjum sem eiga jafnframt að laga svefninn. Blessuðum lækninum finnst ég of neikvæð í sambandi við þetta, en ég hef talið mér trú um að það geri ekkert til þó ég vaki miðbikið af nóttunni því ég fari orðið fram, gangi um gólf, ráði kannski eins og eina krossgátu eða geri eitthvað annað skemmtilegt þangað til syfjan kemur yfir mig aftur. Hann sagði að sín barátta þarna uppfrá snerist mestmegnis um tvö atriði. – Annars vegar að taka lyf af þeim sem taka allt of mikið af slíku og hins vegar að fá þá til að taka lyf, sem þurfa þess virkilega með, en engin vilja taka. – Blessaður læknirinn að standa frammi fyrir slíku 🙂

Þessa vikuna hef ég fengið fingraæfingar á dagskrána – Nei, það hefur ekkert með tónlist að gera, bara leikfimi fyrir stirða putta.  Svo er ég komin í föndur og er að búa til lampa með glermosaik. Mér fannst ég bara aftur orðinn unglingur þar sem ég sat með límið á puttunum og litlar mosaikflísar sem biðu þess að fá sinn sess á lampanum.

Ég er á frábæru námskeiði þessa viku og þá næstu, um streitulosun og hvað hugtakið streita er. Þetta er margvíslegt hugtak og mér finnst að allir þyrftu að fá svona námskeið þó ekki sé nema til þess að læra að koma sér undan streitu, áhyggjum  og kvíða með því að þekkja bjargráðin.

Já svona rúllar þetta áfram þarna uppfrá ásamt göngutúrunum góðu, daglegri vatnsleikfimi, sjúkraþjálfun, tækjasal, heitum bökstrum, hjálp við tiltekt í gömlum skúffum sálarinnar, og að ekki sé talað um allt lipra og góða starfsfólkið sem þjónar okkur og heldur bókstaflega utan um okkur eins vel og nokkur kostur er.

Með lokaorðum á vinnuplaggi sem við fengum um hamingjuna ætla ég að kveðja ykkur kæru vinir og leyfa ykkur að hugsa um þetta textabrot um helgina:

"…. Hættu að bíða þar til þú hefur lokið námi eða þar til þú hefur hafið nám, þar til þú hefur misst 5 kíló eða bætt á þig 5 kílóum, þar til þú hefur eignast börn eða þar til þau flytjast að heiman, þar til þú byrjar að vinna eða þar til þú sest í helgan stein, þar til þú giftist eða þar til þú skilur, þar til á föstudagskvöld, þar til á sunnudagsmorgun, þar til þú færð þér nýjan bíl, þar til þú hefur borgað bílinn, þar til í vor, þar til í sumar, þar til í haust eða þar til í vetur.

Það er enginn tími betri til að vera hamingjusamur en einmitt núna.

Hamingjan er ferðalag en ekki áfangastaður.

GÓÐA HELGI.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Önnur vikan liðin.

  1. þórunn says:

    Heillaráð
    Það var fróðlegt að lesa þennan pistil þinn, á meðan ég var að lesa hugsaði ég „það væri nú gott ef hún Ragna miðlaði einhverju af ráðleggingunum sem hún fær á Reykjalundi“ og svo komu þessi góðu ráð í lokin. Sannarlega þarfar ráðleggingar þarna, lóð lesning yfir helgina. hafðu það sem best og njóttu daganna sem þú átt eftir þarna, og „gerðu nú eins og læknirinn segir þér“. Bestu kveðjur úr kotinu í suðri,
    Þórunn

  2. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Þórunn mín. Já mann langar alltaf til að miðla með vinum sínum, en stundum er maður ekki viss um hve mikið af efni er verndað og ekki vinsælt að birta.
    Kær kveðja til ykkar í fallega dalnum í suðrinu.

  3. Enn og aftur, ef hægt er að ná bata einhversstaðar er það á Reykjalundi. Mundu svo Ragna mín að til að halda heilsu og orku þarf svefninn að vera í lagi. Kærust í kotið þitt og gangi þér vel.

Skildu eftir svar