Að missa sig

Í göngutúrnum áðan var ég að hugsa um alla spennuna við handboltann og þá rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað líklega 1967 eða 68. Oddur minn var þá að horfa á enska fótboltann í sjónvarpinu – ekki voru nú beinar útsendingar í þá daga, en leikirnir voru samt sýndir. Ég tek það fram að Manchester United var uppáhaldsliðið sem þarna var að spila við Arsenal.

Ég var nýbúin að hella upp á könnuna og setti kaffið ekkert í hitakönnu, fór bara með könnuna inn til þess að hella í bollan hjá bóndanum.  Hann vildi hinsvegar fá að hafa bara könnuna hjá sér – enda mikill kaffimaður.  Ég fór því aftur fram í eldhús því ég hef aldrei verið spennt að horfa á fótbolta.

Ég heyrði úr stofunni að mikið gekk á í boltanum og svo heyri ég að bóndinn hrópar já skot og síðan fagnandi – og MARK.  Svo kom augnabliks þögn og síðan var hrópað – "Ragna viltu koma með tuskur – ekki litlar".

Ég velti því fyrir mér hvað væri eiginlega í gangi?  Það skýrðist hinsvegar fljótlega þegar ég kom í dyrnar á stofunni því það flóði beinlínis allt í kaffi og kaffikorg.  Minn hafði þá sett kaffikönnuna á gólfið undir sófaborðið en æsingurinn yfir þessu marki og innlifunin voru svo mikill að hann sparkaði sjálfur og vitaskuld beint í kaffikönnuna sem valt á hliðina og innihaldið  flóði allt yfir gólfteppið. Það hefði verið fínt, ef parkettískan hefði verið komin á þessum tíma, því það tók langan tíma að hreinsa þetta úr gólfteppinu og tókst aldrei alveg almennilega.

—————————————-

Jæja nú er leikurinn við Norðmenn að byrja og ég ætla að gera tilraun til þess að horfa. Oftar en ekki verð ég að fara frá sjónvarpinu því ég verð svo svakalega stressuð að horfa á þessa handboltaleiki.  

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Að missa sig

  1. Í dag áttum við að fara með tónlistaratriði á elliheimilið sem við gerum einu sinni í mánuði, við mikinn fögnuð. Í dag vorum við hinsvegar rekin til baka. Gamla fólkið vildi horfa á leikinn! Bara dásamlegt. Ég hélt mínu striki við kennsluna en heyrði ópin af kennarastofunni. Kærust í bæinn.

  2. Ragna says:

    Það er gaman að þessu Guðlaug. Já gamla fólkið er ekkert dautt úr öllum æðum. Móðir mín var orðin 89 ára gömul þegr hún fylgdist enn með öllum landsleikjum hvort sem var í hand eða fótbolta. Þó var enginn íþróttamaður í fjölskyldunni.

Skildu eftir svar