Skólaskemmtunin.

Karlotta bauð ömmu að koma á skólaskemmtunina hjá tveimur 6 ára bekkjum úr Vallaskóla í gær. Það var alveg himneskt að fylgjast með krökkunum. Þau voru ótrúlega kotroskin þegar hljóðneminn gekk á milli og þau kynntu sig. Síðan buðu þau gesti velkomna og var Karlotta í því hlutverki með annarri dömu. Síðan var svona smá söngleikur við lagið „Ef þú giftist, ef þú bara giftist…..“ og allir úr Karlottu bekk tóku þátt. Síðan var leikrit úr Mjallhvít og dvergunum sjö sem hinn bekkurinn sá um.  Á meðan hópurinn söng saman var svoldið broslegt að horfa á þau, því sumir voru með puttana í munninum, sumir í nefinu. Einn var búinn að rúlla upp bolnum sínum nærri því upp að höku. Allt í einu var kjóllinn á einni kominn ótrúlega langt upp á lærið því hún þurfti aðeins að klóra sér á lærinu, svona svo nokkuð sé nefnt. Allt var þetta þeim svo eðlilegt og truflaði ekkert það sem þau voru að gera. Þau voru svo einlæg og áhyggjulaus og skiluðu sínu af mikilli trúmennsku, sungu, léku og dönsuðu. Mér finnst það frábært framtak hjá Vallaskóla að hafa svona skemmtun þar sem mömmum, pöbbum, ömmum og öfum er boðið að koma og sjá hvað börnin hafa fram að færa. það er líka ómetanlegt fyrir börnin seinna meir að hafa fengið að venjast því að koma fram fyrir áhorfendur og þurfa að segja eitthvað eða lesa ein og óstudd.  Þetta var mjög skemmtileg stund.  (Verst að ég var ekki búin að fullhlaða nýju myndavélina annars hefðu myndir getað fylgt hér). Þetta var ekki búið fyrr en um sjöleytið svo við enduðum þetta með því að fara saman á Kentucky og fá okkur kjúkling svona í tilefni dagsins.


Í dag hef ég svo verið á fullu að þrífa og undirbúa saumaklúbb sem verður hjá mér í hádeginu á morgun. Ég hlakka til að fá „stelpurnar“ í heimsókn.


Nú er hinsvegar best að koma sér til hvílu svo ég verði ekki sofandi þegar þær berja að dyrum á morgun. 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Skólaskemmtunin.

  1. Já, börnin eru yndislega einlæg!
    Sæl Ragna mín!
    Lýsingar þínar eru svo lifandi að ég sá þetta alveg fyrir mér. En mikið ósköp er gaman að fylgjast með börnunum í svona uppákomum.
    Farðu vel með þig!
    Kveðja Anna Sigga

Skildu eftir svar