Smá yfirlit frá því á sumardaginn fyrsta.

Því verður ekki neitað að það líður alltaf lengra og lengra á milli skriftanna hér því ég er í svo góðu sambandi á Fésbókinni þó það sé nú ekki það sama og eigin dagbók. En ég verð að standa mig líka á þessum vattvangi svo ég geti áfram gert eins og ég geri stundum, að fara í gamlar færslur og sjá hvað hefur verið á döfinni á hinum ýmsu tímum.

Nú hefur Haukur verið í Danmörku í tæpan hálfan mánuð og hefur heyrist mér alveg nóg að gera í sveitastörfunum með fjölskyldunni sinnii úti. Hann átti von á að fara í hlýtt og gott vor en byrjaði á því að þurfa að kaupa sér hlýrri peysu því honum fannst svo kalt. Ég vona að það fari nú að hlýna þarna því það er svo fallegt að vera erlendis þegar gróðurinn tekur við sér og öll ávaxtatrén eru í blóma, að ég nú tali ekki um þegar hvorki þarf að vera í peysu né úlpu.

 Ég hef haft það mjög gott hérna heima og finnst bara vera að verða talsvert vorlegt. Tré að springa út og orðið bjart svo lengi á kvöldin.

Ég hef í tvígang hitt vinkonur sem ég hef ekki hitt lengi – aðra hef ég ekki hitt í 21 ár þegar hún Lóa fann mig á Facebook og síðan kom hún í heimsókn í vikunni. Við vorum í sama millihóp á Dale Carnegie námskeiði á sínum tíma og það var svo gaman hjá okkur að hittast aftur.

 Svo bauð hún Hildur í Völuskrín mér heim um daginn, en í fyrra endurnýjuðum við vinskap sem hafði legið niðri í yfir 20 ár þegar við hættum að vinna saman.  Vonandi látum við það ekki koma fyrir aftur að týna hvor annarri.

Svo hitti ég frænku Hauks einn morguninn, en hún er snyrtifræðingur og skerpir öðru hvoru aðeins línurnar í andlitinu á mér og svo leit ég aðeins inn hjá bróður hans og mágkonu sem búa í sömu götu.

Svo er nú það besta, ég er farin að rölta hérna niður í sundlaug og synda smávegis og fara í nuddpottana. Mér fannst ég voða dugleg fyrsta daginn, þegar ég loks náði að haltra niður brekkuna og ég synti heila 75 metra.  Næsta dag bætti ég svo við 50 metrum og svo áfram og áfram og vonandi næ ég fljótlega svona 4 – 5 hundruð metrum. Það er alla vega takmarkið, en ég lofaði sjálfri mér að byrja smátt svo ég lendi ekki alltaf í að verða alveg að hætta af því ég byrji með svo miklum látum og geti svo ekki meir.  Ég er að vona að þetta nýjasta brjósklos fari að gefa sig og ég hætti að finna svona til þegar ég stíg í fótinn. Mér finnst hálf fáránlegt að fara að keyra niður að sundlaug því það er stór krókur en miklu styttra að ganga.  Þetta kemur allt smám saman og ég er mjög bjartsýn.

Í dag fór ég austur á Eyrarbakka og Guðbjörg, Karlotta og Oddur með mér.  Mágur minn Jón Ingi,  maður systur minnar var að opna málverkasýningu og mér finnst alltaf svo gaman að vera við opnunina hjá honum því maður hittir svo margt fólk sem maður þekkir en hittir sjaldan. Svo fórum við í kaffi upp á Selfoss til systur minnar á eftir og áttum þar skemmtilega stund með henni og stelpunum hennar, mökum og börnum.

Þetta var alveg stórgóður dagur og langt síðan ég hef hitt svona margt skemmtilegt fólk á einum degi.

Nú er komið fram yfir miðnætti og kannski best að fara að koma sér í rúmið svo ég vakni nú til að fara í sundið í fyrramálið.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar