Fyrsti ferðapistillinn 2010

Nú er ég bara lögst í útilegur eins og í gamla daga á fyrstu árum okkar Odds.  Þegar við komum heim úr vinnu á föstudögum þá hentum við tjaldi og tilheyrandi í bílinn og brunuðum eitthvert í útilegur um hverja helgi. Nú er öldin reyndar önnur og margt breytt.  Nú dugar ekki að henda tjaldi í bíl og bruna af stað því spræka stelpan er að komast á þann aldur að kallast heldri borgari og langt frá því að vera svo spræk lengur og Oddur hefur löngu kvatt þennan heim.

Tíminn líður hinsvegar og honum fylgja alltaf nýjir hlutir í stað þeirra gömlu. Eins og ég sagði í síðasta smá pistli, þá býðst þeirri gömlu nú að rúnta um í húsbíl og situr þar glöð og hnarrreist í framsætinu, nýtur útsýnisins og þess að geta stoppað á fallegum stað og hitað kaffi eða eldað mat og haldið svo áfram þar til annar fallegur staður er fundinn til að gista á. 

Ég fór með Hauki í jómfrúrferðina um Snæfellsnesið um daginn  og við vorum afskaplega heppin með veður, vorum í blíðskaparveðri allan tímann.
Við lögðum af stað um miðjan dag og vorum fyrstu nóttina á tjaldstæðinu á Akranesi. Við vorum í miðri viku og héldum að við myndum verða ein á tjaldstæðinu þar, en hálf brá þegar tjaldstæðið var nærri fullt af húsbílum. Skýringin kom svo seinna, það var breskur húsbílaklúbbur þarna á ferð og yfir 30 húsbílar í þeim hópi auk annarra sem voru þarna líka. Við fundum þó pláss og vorum þarna fyrstu nóttina. Síðan héldum við áfram næsta daga til Grundarfjarðar þar sem við gistum á tjaldstæði rétt við sundlaugina, í sól og blíðu, veðri sem fylgdi okkur alla ferðina.

Við þræddum svo alla bæina á nesinu nema Stykkishólm því þar vorum við í nokkra daga í fyrra.  Við skoðuðum öll þau söfn sem við fundum og höfðum gaman af.  Við fórum m.a. í Bjarnarhöfn og skoðuðum safnið þar og hákarlahjallinn en gátum ekki fengið að skoða kirkjuna sem mig hefur lengi langað til að skoða, en af því við vorum bara tvö á ferð þá var það ekki hægt. 
það var gaman að koma út á Rif og þegar við ókum niður á bryggjuna var bátur nýkominn að landi og var verið að koma aflanum í ker. Haukur fór til þeirra til þess að athuga hvort við gætum keypt af þeim fisk í soðningu. Jú það var sko meira en sjálfsagt að fá hjá þeim fisk, en að fá að borga fyrir hann kom ekki til mála. þeir sögðust ekki láta gesti borga fyrir matinn.

Svo komum við auðvitað við hjá honum systursyni mínum á Gufuskálum. Næstu nótt gistum við svo niðri við sjó á Malarrifi. Það var stórkostlegt að horfa út um annan stóra gluggan út á sjóinn, út um gluggan á móti blasti Snæfellsjökull við og út um framgluggan sáum við svo Lóndranga.  Hvílík náttúrufegurð á einu bílastæði. Næsta morgun ókum við síðan smá spöl niður í átt að vitanum, lögðum bílnum þar og gengum út að Lóndröngum, en þangað hafði hvorugt okkar nokkru sinni komið. Ég var svo þakklát fyrir að Haukur var með göngustafi í bílnum því án þeirra hefði ég ekki gengið þetta.

Þegar þarna var komið sögu var kominn laugardagur og við vorum búin að ákveða að hitta Guðbjörgu og Magnús Má á tjaldstæði í Skorradal eftir hádegið. Við dóluðum  í rólegheitunum í áttina að Borgarnesi með smá viðkomu að Búðum. Á þeim tímapunkti komu fyrstu regndroparnir í ferðinni, en þeir urðu nú ekki margir.
Það kom hins vegar í ljós þegar Guðbjörg og Magnús Már voru komin í Skorradal, að tjaldstæðið þar var alveg fullt, svo við fórum bara öll á tjaldstæðið í Borgarnesi og gistum þar og fórum svo heim á sunnudag. 

Við vorum svo ánægð með þessa ferð og það liðu ekki margir dagar þar til við fórum aftur af stað . Núna þegar ég pára þessa færslu þá sit ég hérna við borðið í bílnum á tjaldstæði í Brekkuskógi, en okkur datt allt í einu í hug í gær að skreppa eitthvað í góða veðrinu og lentum hér á tjaldstæði sem STIS, starfsmannafélag Hauks á og er opið fyrir starfsmenn.

Í dag komu svo Guðbjörg og Magnús Már úr útilegu sinni við Apavatn, og buðu okkur í bíltúr að Geysi og niður í Reykholt þar sem við fengum okkur kaffi.

Nú er mál að fara að búa sig undir svefninn og vonandi verður veðrið eins gott á morgun og það hefur verið undanfarið – reyndar smá rigning í kvöld, en rigning er nú líka nauðsynleg.

Nú tek ég fínu nettenginguna mína (uppáhalds punginn minn) úr sambandi og segi bara góða nótt.

(Því miður er enn svo erfitt að koma myndum í bloggið mitt að þetta verður að vera án mynda.  Ég set svo við tækifæri inn myndir úr ferðinni í myndaalbúmið á heimasíðunni. )

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Fyrsti ferðapistillinn 2010

  1. afi says:

    Á ferð og flugi.
    Góða ferð hvert sem þú ferð.

Skildu eftir svar