Úr einu í annað í byrjun haustsins.

Nú er blessað haustið komið. – Allt hefur sinn tíma og sinn sjarma- Nú er gaman að kveikja á lömpum og jafnvel kertaljósum á kvöldin. Svo eiga örugglega eftir að koma fallegir dagar, sem gaman verður að nýta til þess að skoða haustlitina sem náttúran á eftir að skreyta sig með innan tíðar. Það gekk eftir gamla sögnin um að veður breyttist um höfuðdaginn. Mig hefur reyndar grunað eftir því sem sólardagarnir urðu fleiri og fleiri og komið langt fram í ágúst, að gamla sögnin um að veður breytist um höfuðdag myndi ganga eftir og það hefur einmitt gerst. Nú bara rignir og rignir – en það er bara notalegt – alla vega svona fyrstu dagana.  Þá er auðveldara að taka sig til og gera eitthvað af inniverkunum, sem hafa setið á hakanum vegna allra sólardaganna í sumar . Ég man nú bara ekki eftir því áður, að sól hafi skinið nánast hvern einasta dag síðan snemma að vori.

Nú er ég að taka saman í huganum hvað ég ætti helst að gera á komandi haustdögum. Mest langar mig nú til þess að fara að dúlla eitthvað við jólakortin, en ég ætla þó aðeins að reyna að hemja þá hugsun því það er ýmislegt meira aðkallandi sem ætti að hafa forgang.

Haukur er kominn austur á Borgarfjörð í vinnuferð – þeir bræður hann og Bjarni biðu eftir því að veður breyttist og nú virðist sólin loksins komin fyrir austan. Þar hefur lítil sól verið í allt sumar og  vorum við því einstaklega heppin þegar við vorum þar í nokkra daga í rjómaveðri og hita, sem fór upp í 24° í lok júlí.

Guðbjörg og Magnús Már buðu mér með sér í bíltúr í gær laugardag, líklega síðasta sólardaginn í bili. Við fórum fyrst á markaðinn í Mosfellsdal þar sem margt var um manninn og mikið á boðstólum af grænmeti, fiski og hvers kyns afurðum. Þar féll ég fyrir sjóbirting sem við borðuðum svo saman í kvöldmatinn.   Eftir Mosfellsdalinn fórum við í Álafosskvosina þar sem líka var hátíð og mikið um að vera. Mjög góður dagur. Í dag hef ég hins vegar ekki farið út fyrir dyr, bara notið þess að vera heimavið og dútla hitt og þetta. Ég var t.d. að klára að ganga frá bókhaldinu fyrir húsfélagið og prenta út ýmis yfirlit til þess að leggja fyrir húsfund, sem er eftir helgina. Gott að vera ekki á síðustu stundu með það.

Ég nenni ekki að snúa mér aftur að sjónvarpinu í kvöld, lét bara duga að horfa á norska sálfræðinginn. Nú hlakka ég bara til að koma mér í rúmið og hlusta á hljóðbókina sem ég er með í Ipodinum mínum – spennusaga eftir Elisabeth George.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Úr einu í annað í byrjun haustsins.

  1. þórunn says:

    Ég er búin að bíða lengi eftir nýjum pistli frá þér, og varð auðvitað ekki fyrir vonbrigðum frekar en endranær. Ég verð að segja að ég kann svo mikið betur við bloggheima en Facebókina sem svo margir nota nú meira, ég er sjálf engin undantekning þar frá.
    Kanski við verðum duglegri að skrifa þegar dagarnir fara að styttast.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla, nú eru bara tvær vikur þar til við komum.

Skildu eftir svar