Set punktinn hér. – Svo er vorið framundan enda vorveður úti.

Jæja kæra dagbókin mín, ætli það sé ekki best að koma með smá framhald.

Yfirlæknir Bráðamóttöku, sem ég sendi kvörtun til vegna læknisins sem braut mig niður þarna á Bráðamóttökunni 12. jan., hringdi í gær.
Hún lét mig lýsa aftur samskiptumi okkar. Ég spurði svo hvort ekki hefði verið tlað við þennan lækni. Jú það var gert, en upplifun læknisins af samtali hans við mig var bara önnur en mín. – Þótti engum mikið því það var hann sem var árásarmaðurinn en ég fórnarlambið. Ég sagði að hún skyldi endilega reyna að finna þá sem örugglega urðu vitni að þessu því það var starfsfólk þarna fyrir framan sem ég er viss um að heyrðu samskipti okkar. Ekki hafði heldur verið talað við stúlkuna sem kom mér til bjargar að þessu loknu. 
Yfirlæknirinn spurði mig þá hvort ég hafi kannski upplifað samtalið öðruvísi af því þessi tiltekni læknir væri búinn að búa lengi erlendis og talaði með svolitlum hreim. Ég sagði það ekki hafa verið meira vandamál en svo, að ég mundi það ekki fyrr en hún fór að tala um það núna. 
Svo spurði hún hvort ég vildi að hann hringdi til mín.  Nei, ég sagðist eiga þá ósk heitasta að þessi maður verði aldrei á vegi mínum eða að ég þurfi nokkurn tíman að hafa samskipti við hann.  Ég hefði því engan áhuga á því að tala við hann í síma, enda vissi ég að ef hann hringdi þá væri það af því að hann hefði verið skikkaður til þes.
Ástæða þess að ég kvartaði yfir honum hefði eingöngu verið til þess að hann fengi tiltal fyrir að koma svona fram við sjúklinga og það myndi vekja hann til umhugsunar svo að hann eigi ekki eftir að gera lítið úr og græta fleiri veika einstaklinga sem á vegi hans verða. 
Yfirlæknirinn bað mig svo afsökunar á þessu fyrir hönd Bráðamóttokunnar og þar með var samtali okkar lokið.

Ég ætla að bæta því hér við, að ég komst loksins í klippingu til hárgreiðslukonunnar minnar í gær. Hún lenti í þessum sama lækni, sem þá var að vinna á Bráðavaktinni á Hringbraut. Hún var þar með manninum sínum sem hafði fengið svo miklar hjartsláttartruflanir. Hún sagði lækninn hafa verið með svo mikinn dónaskap og gert lítið úr þeim, að hún hafi sagt við hann eftir eina svívirðinguna – Hvernig vogarðu þér að tala svona við okkur – og svo bað hún um að annar læknir sinnti þeim og fékk það eftir nokkuð langa bið. Þar sem þessi læknir, sem um ræðir í bæði hennar tilfelli og mínu, heitir sama nafni og maðurinn hennar og lýsingin á honum sú sama, þá fór ekki á milli mála að við áttum samskipti við sama mann.
Nú er þetta að baki og ég vona svo sannarlega að þessi læknir, sem er tiltölulega ungur maður,  fái það tiltal sem hann þarf til þess að hann láti af hrokanum og helst að hann verði sendur á námskeið í mannlegum samskiptum.

Ég fór í ristilspeglunina til Sjafnar í morgun og allt gekk vel. Ég fæ fljótlega niðurstöðu úr sýni sem hún tók, en hún hefur ekki áhyggjur af því að neitt komi út úr því, og ég ekki heldur. 
Hún segir að það sé greinilegt að ristillinn hafi lamast svona út af brjósklosinu sem blokkeraði taugarnar niður i kviðinn. Nú eru rúmar tvær vikur síðan viðgerð á bakinu fór fram og ristillinn ætti að vera búinn að jafna sig alveg, en það getur tekið smá tíma í viðbót að hann verði búinn að ná fullu fjöri. Besta lyfið er því þolinmæði í stórum skömmtum ásamt ráðleggingum læknisins og réttu mataræði.

Ég verð komin í dúndurstuð fyrir vorið – Ekki spurning.  Vel að merkja hafið þið tekið eftir því hvað daginn er að lengja. Bara orðið sæmilega bjart frá 10 á morgnanna til hálf sex á kvöldin. Ekki amalegt það.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Set punktinn hér. – Svo er vorið framundan enda vorveður úti.

  1. Svanfríður says:

    Mér sýnist að bjartsýnin sé að taka yfirhöndina á nýjan leik hjá þér elsku Ragna og er gott að lesa pistilinn því það er bjartara yfir honum en undanfarið og skal mig ekki undra. Svona menn eins og þú lýsir,eiga heima inná rannsóknarstofu en ekki inná sjúkrastofum. Gangi þér vel elskulegust.

  2. þórunn says:

    Afsökunarbeiðni
    Ragna mín, mikið er ég fegin að heyra að það skuli hafa verið hringt í þig með afsökunarbeiðni, stofnunin er fyrir vikið dálítið mannleg. En ekki er ég hissa þó þig hafi ekki langað að fá hringingu frá þessum manni, það hefðu bara verið leiðindi, sérstaklega þar sem hann fann enga sök hjá sér. Ég segi eins og Svanfríður, svona menn eiga ekki að koma nálægt sjúklingum, það er sennilega ómögulegt að kenna þeim mannleg samskipti.
    Göngum saman á bjartsýnisbraut, já vorið er ekki svo langt undan.

  3. Það er gott að þú ert á uppleið, en þessi læknir á margt ólært, og dugir varla í þessu starfi með sama áframhaldi. Farðu nú vel með þig, því daginn er farið að lengja. Kærust í bæinn.

  4. Anna Bj. says:

    Gleður mig að heyra að þú ert komin á gott ról og megi verða framhald á því. Svei mér þá ef veðurfarið er ótrúlega gott… Heyrumst.

  5. Ragna M says:

    Sæl nafna mín, mikið er ég ánægð með að þú skulir vera á góðum batavegi og fengið aðstoð út úr þessum hremmingum sem litu hreinlega ekki vel út á tímabili. En allt er gott sem endar vel og vonandi hefur blessaður doktorinn lært sína lexiu. Megið þið eiga gott sumar í vændum. Sjáumst hress í vor kær kveðja frá okkur í Huldugilinu RM

  6. Katla says:

    Ég er nokrum sinnum búin að lesa yfir sjúkrafærslurnar þínar og ég verð alltaf jafn orðlaus. Þær nánast hljóma eins og lygasögur, en það versta við þær er að þær eru allar sannar. Skömm að þessu.
    En það hlaut að koma að bjartsýninni, þeirri bjartsýni og gleði sem fyrst dró mig að blogginu þínu. Kærar kveðjur á þinni batabraut.

Skildu eftir svar