Daglegt líf og gamlir vinir.

Nú er það svart maður, allt ennþá hvítt 🙂 Það hefur aldrei verið mín sterka hlið að segja brandara en þessi gamli góði var svona smá tilraun. En það breytir því ekki að það er bara heilmikill snjór hérna.  Haukur kom austur í dag og var bara alveg hissa hvað það var mikill snjórinn. Hann sagði að þetta hefði mikið til verið horfið í bænum.  Við drifum okkur í göngutúr seinni partinn og gengum um nýju hverfin. Það er gaman að fylgjast með því hvað byggðin er alltaf að teygja sig bæði til suðurs og vesturs. Húsin þjóta upp á mettíma, það virðist ekki taka mikið lengri tíma að koma upp sumum húsunum hér en það hefur tekið túlipanana mína frá því þeir fóru í mold í haust og þar til þeir verða útsprungnir í næsta mánuði. Þannig að segja má að húsin rísi hér á túlipanahraða.


Ég er búin að vera að dunda mér svoldið við bútasauminn. Ég sá að Guðbjörg hafði alveg pláss fyrir dúk á skenknum sínum og svo gerði ég eina veggmynd. Alltaf gaman að dunda sér við þetta þegar ekkert annað er að gerast. Ég þarf líka að gera eitthvað fallegt fyrir Sælukot til að punta með þegar framkvæmdum lýkur í sumar. 


Gamlir vinir:


Það hringdi í mig gömul – nei, ekki þannig gömul heldur ung eins og ég – nágrannakona og vinkona sem bjó, ásamt sínum manni og dóttur á aldur við Guðbjörgu, í húsinu við hliðina á okkur í Skaftahlíðinni fyrir 30 árum. Stelpurnar voru vinkonur og með okkur tókst góð vinátta en þegar við Oddur heitinn fluttum burtu árið 1979 og þau líka um svipað leyti þá einhvernveginn slitnaði alveg sambandið. 


Nú höfum við báðar gengið í gegnum svipaða reynslu því hún missti manninn sinn í fyrra úr heilablóðfalli. Hún segist oft hafa ætlað að hringja til mín en ekki komið sér að því fyrr en nú.  Mér þótti mjög vænt um að hún skyldi hafa samband, því það er alveg synd að tapa sambandinu við góða vini.  Ekki hefði okkur órað fyrir því á þessum árum þegar allt lék í lyndi að þeir ættu báðir eftir að verða sama sjúkdómi að bráð, annar 50 ára og hinn 60 ára. Já, svona er lífið – og dauðinn. 


Til umhugsunar:


En vekur þetta okkur ekki til umhugsunar um að við eigum að vera duglegri að rækta sambandið við ættingja og vini og reyna að sjá til þess að gott samband slitni ekki fyrir, ja ég vil segja trassaskap.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Daglegt líf og gamlir vinir.

  1. afi says:

    Maðurinn með ljáinn fer ekki í manngreinarálit, hann spyr ekki um aldur, menntun og fyrri störf. Það veit enginn hver er næstur.
    Konan hans afa hefur misst báða foreldra sína og tvo bræður sem báðir fóru úr krabba 60 ára gamlir.
    Fyrirgefðu Ragna mín að afi skuli vera að kommantera um þetta efni.
    afi óskar ykkur gæfu og góðs gengis með bústaðinn ykkar og fyrhugaða læknisaðgerð.
    Sæl að sinni.

  2. Ragna says:

    Þakka þér afi fyrir góð „komment“ á síðunni minni. Ég óska þér líka alls góðs.

  3. Það er gott að rækta samböndin…
    …við ættingja og vini. Stundum er það bara frekar erfitt þegar frændgarðurinn er orðinn stór og maður á fullt í fangi með að njóta augnabliksins í lífinu, reyna að bremsa tímann svolítið. En ég er samt þannig gerð að ég vil rækta sambandið og geri mitt besta í þeim efnum. (Stundum finnst mér það þó ekki nóg, það sem ég er að gera) Hljómar eitthvað skringilega en læt það samt flakka. Farðu vel með þig!

  4. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Anna Sigga. Það verður nú ekki hægt að segja um þig að þú ræktir ekki vini og vandamenn.
    Kveðja frá Selfossi.

Skildu eftir svar