Smá pistill án fyrirsagnar.

Við fórum í hvílíkan göngutúr í dag. Haukur vildi sýna mér leið sem hann fór um daginn nema hvað núna fórum við öfugan hring við það sem hann fór þá. Það gekk nú ekki í fyrstu tilraun að finna nákvæmlega leiðina en við gengum niður að nýja skólanum í Suðurbyggð og gegnum Suðurbyggðina og vestur með henni  eftir gamalli götu niður á Eyrarveg og þaðan heim. Við vorum í meira en klukkutíma í þessum göngutúr sem væri bara fínn að sumri til en yfir þúfur og í snjó og krapi í þungu Goretex fjallgönguskónum fannst mér þetta bara nokkuð erfið ganga. Það skyldi þó ekki vera af því að ég er of löt að ganga þegar Haukur er ekki hérna og þess vegna ekki í nógu góðri þjálfun 🙁  Ég hef verið að finna mér ýmiskonar afsakanir þegar ég er ein, veðrið slæmt, gigtin slæm, og hitt og þetta sem er of slæmt, Ótrúlegt hvað maður getur fundið upp af afsökunum til þess eins að plata sjálfan sig með.

Um næstu helgi er heilmikið harmonikkuball í Básum og þá verða sko engar afsakanir. Þá bítur maður á jaxlinn og brosir sínu blíðasta og lætur vaða í polka og ræla og valsa og allt hitt. Mikið hlakka ég til.

Það verður fróðlegt að sjá á morgun hvaða aprílgöbb voru í gangi. Það kom varla sú frétt í blöðum eða sjónvarpi að við segðum ekki að þetta væri nú aprílgabbið í ár. Frábær var þó fréttin hjá Sjónvarpinu um að færa ætti í kvöld styttuna af Kristjáni tíunda af stjórnarráðstúninu, því við hefðum lítið við það að gera að vera með styttu af dönskum kóngi fyrir framan Stjórnarráðið. Síðan kom rúsínan í pylsuendanum að það ætti að færa hana yfir að skrifstofu forseta Íslands við Sóleyjargötuna.

Já svona er nú Ísland í dag.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar