Spánn kvaddi okkur í sól og blíðu

og Ísland heilsaði okkur með hvílíku roki og rigningu að við ætluðum varla að komast út á bílastæðið með farangurinn, en mikið var nú hressandi og gott að koma heim þrátt fyrir það.

Spánarferðin var alveg stórkostleg og vel heppnuð. Veðrið lék við okkur, hótelið gat ekki verið betra og starfsfólkið var svo vingjarnlegt og vildi allt fyrir mann gera.

Haukur fékk mikið surprize í tilefni af 70 ára afmælinu sínu, þegar Hulla dóttir hans, Eiki tengdasonur og þrír synir þeirra komu akandi í einum rykk alla leið frá Danmörku og voru í 30 klukkutíma á leiðinni.  Haukur vissi ekkert af þessu, en við Hulla vorum í stöðugu SMS sambandi. Ég var mest hissa á því að Hauk væri ekki hreinlega farið að gruna að ég ætti mér viðhald einhversstaðar, því ég hreyfði mig ekki án símans, hvorki út í sólbað, í matsalinn eða annað og svo komu pípin og síðan ég að pikka eins og óð manneskja án þess að segja orð um það við hvern ég var í sambandi eins og ég er nú vön að gera.  Loksins kom svo rétta pípið, þau voru komin til Benedorm og í íbúðina sem þau fengu leigða. Mikið var ég fegin að heyra þegar þau voru komin, því þetta var rosalega mikil keyrsla, dag og nótt. Nú tók við góð hvíld hjá þeim eftir erfiða ferð og næsta kvöld skyldi  áætluninni um óvænta hittinginn eiga sér stað. 

Nú var komið að mér að sannfæra Hauk um að við skyldum fara eftir kvöldmat og ganga meðfram ströndinni.  Auðvitað var ég með símann á mér því nú átti eftir að fínstilla aðgerðir. Ég fékk SMS um hvar þau væru staðsett og svo áttum við bara að koma gangandi og rekast óvænt á þau. Til þess að stytta söguna aðeins,  þá kom að því að allt í einu stóð Hulla fyrir framan pabba sinn á gangstéttinni og síðan spruttu þeir fram hver af öðrum Eiki, Atli Haukur, Júlli og Jói.  Við Hulla þökkuðum bara forsjóninni fyrir að hann fékk ekki hjartaáfall þarna, en hann er nú sterkari en það sá "gamli" og sá varð glaður. 

  Á þessari mynd eru Haukur, Hulla og strákarnir stórir og smáir eftir að
hafa hitt okkur á ströndinni og til vinstri mynd af Hauki við flottan gamlan 
vatnshana  fjallaferðinni sem þau Hulla og eiki buðu okkur í einn daginn. 

benidorm1.jpg 

Þau stoppuðu í viku og við áttum með þeim góðar stundir og á afmæli Hauks þann 12. maí borðuðum við öll saman og áttum gott kvöld á hótelinu hjá okkur.  

 benedorm2.jpg

Já, einn daginn buðu þau okkur með sér í óvissuferð upp í fjöll og við vorum nánast komin upp í óbyggðir því það virtust flest hús í eyði og allt í einu náði vegurinn, ef veg skyldi kalla, bara ekki lengra og við urðum að fara til baka þó nokkra leið eftir sama veginum. Við komum svo í lítið þorp þar sem við fengum rosa fínan og fjölbreyttan mat á lítilli spænskri krá þar sem allt var "orginal", meira að segja vertinn sjálfur – enginn túrismi þar.  

Þessi mynd hérna fyrir ofan, er af okkur að skoða kortið til að finna út hvar við vorum stödd og af matnum sem við fengum á Spænsku kránni – við vorum nú búin að borða talsvert af matnum þegar myndin var tekin, en gamli vertinn ætlaði aldrei að hætta að bera í okkur krásirnar. 

Eftir vikudvöl héldu svo ferðalangarnir aftur akandi í einum rykk heim á Jótland og sem betur fer gekk líka allt vel á heimleiðinni og þau voru heldur fljótari heim aftur.

Ætli ég láti þetta ekki duga sem fyrsta kaflann í Spánarferðinni.

Ég er svo ánægð með að það virðist búið að laga vefinn, sem hefur aðeins verið í óllagi. Það gekk alla vega vel í þetta sinn að setja bloggið inn og ég gat meira að segja sett inn myndir líka. Takk vefstjóri fyrir skjót og góð viðbrögð við vælinu mínu í gær þegar allt datt út.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Spánn kvaddi okkur í sól og blíðu

  1. Þetta hefur greinilega verið yndislegt. Að fara út fyrir túrismann er það besta við Spán. Þar lifir fólkið og þar er sko hægt að fá tapas á heimsmælikvarða. Bestu kveðju sendum við bestimann.

  2. Katla says:

    En yndislegt að koma Hauki svona á óvart! Mikið sem hann hlýtur að hafa orðið glaður : )

Skildu eftir svar