Hvítasunnuhelgin.

Alltaf er nú gott að vera heima og ekki síst á stórhátíðum.


Malvan mín var sótt á laugardagsmorguninn og ég gat meira að segja kríað aðra út úr danskinum í Borg í Hveragerði þó ég hafi aðeins átt eina í pöntun. Nú bara vona ég að þær verði eins fallegar og í fyrra.


Við Guðbjörg gerðum síðan innkaupin í nýju Bónusbúðinni í Hveragerði. Hún er mjög rúmgóð og fín, en manni minn hvað það var kalt í kuldaklefanum. Já ég veit að þetta kallast kuldaklefi en á hann að vera svo kaldur að það standi kuldagufan út úr mann?  Það voru allir að krókna þarna inni. Ég vorkenndi sérstaklega manni sem var bara á skyrtunni. Hann varð að taka það í áföngum að koma inn í klefann og sækja það sem hann þurfti.  Þegar maður kom út var stúlka að gefa ost og ostatertur að smakka. Ég sagði henni að það mætti gjarnan gefa fólki kaffisopa sem kæmi út úr kuldanum og helst koníak líka. Hún sagði að það væri búið að vera eitthvert ólag á stillingunni á kuldanum þarna inni og margir kvartað.


Þegar ég kom heim úr verslunarferðinni ákvað ég að baka pönnukökur og Guðbjörg, Magnús og Bjarki hans Magnúsar komu í kaffisopa og pönnsur. Ég var svo að kveðja þau þegar María, Biggi og börnin komu við til að sækja lykil að Eddu húsi svo ég dreif þau inn í kaffisopa. Haukur kom svo um kvöldmatarleytið en hann var að klára þessa fyrstu vinnusyrpu eftir fríið á Mallorca. Haukur kom færandi hendi með nýtt svaka flott gasgrill en þetta gamla var orðið svo lélegt að það hefði beinlínis verið stórhættulegt að reyna að kveikja á því, brennarinn ryðgaður í sundur og snúran sprungin. Það var líka komið til ára sinna en ég keypti það þegar Sigurrós var bara smástelpa. 


Hvítasunnudagur.


Haukur fór að dunda sér við að setja saman grillið eftir hádegið svo ég dreif mig í að setja köku í ofninn.


Ég var svona að ganga frá eftir baksturinn þegar Jens tengdapabbi Sigurrósar leit við á leið sinni austan úr Rangárvallasýslu og drakk með okkur kaffi. Alltaf gaman þegar Jens lítur við hjá okkur. Hann stoppaði nú ekki lengi því hann átti eftir að visitera á fleiri stöðum.


Við vorum búin að bjóða til grillveislu og Sigurrós og Jói komu nokkru eftir að Jens fór og síðan Guðbjörg og Magnús. Haukur tók að sér að vera „grillmaster“ og tókst það bara vel. Við áttum svo góða og skemmtilega stund hérna saman í gærkvöldi . Síðan fór hver til síns heima og við gömlu brýnin urðum eftir í kotinu.


Annar í Hvítasunnu.


Í dag drifum við okkur í göngutúr fyrir hádegið og ætluðum að ganga upp með ánni en það var svo hvasst á móti að við breyttum áætlun og fórum af þeirri leið og þvert í gegnum bæinn og niður í suðurbyggð og þaðan eftir skógarstíg til baka niður á Eyrarveg. þetta var svona klukkutíma göngutúr. 


Haukur ætlaði að slá aftur blettinn því það er hvílík spretta á grasinu að það þarf að slá í hverri viku. Það var hinsvegar komin smá rigning þegar við vorum búin að fá okkur hressingu eftir gönguna og síðan gekk á með skúrum í dag svo það var ekkert hægt að slá.


Seinnipartinn komu Linda og Jói við með rafgeymi úr Sælukoti sem þarf að hlaða því við eigum næstu helgi í bústaðnum. Þau máttu ekkert vera að því að stoppa því þau áttu eftir að koma við hjá tengdamömmu og Ingabirni í Hveragerði.


Nú er þessi Hvítasunnuhelgi á enda. Þetta hefur verið mjög góð helgi í alla staði þó ekki hafi verið lagt upp í langferð á okkar heimili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Hvítasunnuhelgin.

  1. afi says:

    Mikill er nú myndarskapurinn hjá þér Ragna. afi og amma komust hvorki lönd né strönd um helgina. Við vorum með litlu angalokkana alla 4 svo var þó nokkur gestagangur í gær. Undirbúningur brúðkaups o.fl.

Skildu eftir svar