Hugsa fyrst og framkvæma síðan.

Það var ótrúlega kalt í morgun eftir hlýindin í gær. Ég fór út um 10 leytið í morgun til þess að sækja Karlottu á skólavistina og fara með henni til þess að sækja sínar fyrstu einkunnir í lífinu. Það verður að notast við ömmu þegar mamma er líka að kenna 6 ára við sama skóla því þá er hún upptekin með sínum bekk á sama tíma og Karlotta þarf á henni að halda hjá sér. Þetta breytist nú eitthvað næsta vetur því þá fer Karlotta í nýja skólann í Suðurbyggðinni en mamma verður áfram við Vallaskóla.


Eftir hádegið skruppum við systur til að sækja okkur mold því við erum algjörar moldvörpur (Edda þó verri því hún ræktar mikið meira) og okkur vantar alltaf mold.  Við keyptum moldina í Bónus að þessu sinni, en hún kostar mun minna þar og það dugði vitanlega ekki minna en 40 lítra poki á mann.  Á einhvern yfirnáttúrulegan hátt gátum við lyft sitt hvorum pokanum upp í innkaupakörfuna. Að því loknu litum við hvor á aðra því báðar eru bakveikar. En þetta virtist hafa sloppið áfallalaust.  Eddu leist hins vegar ekkert of vel á að við færum eins að við að lyfta þessu úr innkaupakerrunni og í skottið á bílnum mínum og stakk upp á því snjallræði að við lyftum pokunum einum í einu SAMAN og viti menn auðvitað var það miklu léttara og viðráðanlegra. Við erum víst líkar systurnar göngum bara beint í hlutina án þess að hugsa okkur um og hvort sem við ráðum við þá eða ekki, í stað þess að byrja á því að athuga hvort við getum fengið hjálp eða hjálpast að. Sem betur fer held ég að við höfum þó báðar sloppið við meiriháttar bakverki eftir tiltækið. Vonandi munum við þetta næst þegar við ætlum að vippa einhverju upp sem er mun þyngra en við þolum að lyfta.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar