Útskrift Jóa o.fl.

Ég byrja nú á því að óska honum Jóa til hamingju með útskriftina á laugardaginn, en nú er hann orðinn tölvunarfræðingur með BS gráðu. Það var gaman að fá að fagna þessum áfanga með honum, Sigurrós og fjölskyldu Jóa. Það hittist þannig á að margir voru fjarverandi sem annars hefðu komið. T.d.voru Guðbjörg og Magnús Már úti í Hollandi í kennaraferð.  ´
Eftir veisluna ætluðum við Haukur að skella okkur á Harry Potter og vorum mætt upp úr klukkan hálf átta í Álfabakkann til að kaupa miða. Þegar við komum að anddyrinu var hvílík stappa af fólki, aðallega börnum og unglingum, bæði að bíða eftir að komast inn í salinn og margfaldar raðir að kaupa miða. Okkur féllust algerlega hendur og snautuðum í burtu. Líklega er laugardagskvöld klukkan átta ekki sá tími sem fólk á okkar aldri drífur sig í bíó. Við ákváðum bara að reyna aftur seinna. En, það er bara svo oft sem við missum af myndum í stórum sal af því að við „ætlum bara seinna“. 


Við fórum svo bara í bíltúr að skoða nýja hverfið við Ástjörnina í Hafnarfirðinum og síðan í A.Hansen þar sem við fengum okkur humarsúpu.
Daginn eftir á sunnudeginum fór ég svo austur ásamt Sigurrós sem ætlaði að heimsækja mömmu en Haukur varð eftir til þess að fara að vinna um kvöldið.


Sigurrós segir frá okkar ferðum á vefnum sínum  svo ég vísa bara til þess.
Í dag fórum við svo aftur til borgarinnar. Við áttum báðar erindi á Hárgreiðslustofuna okkar, en stofan heitir reyndar Hárgreiðslustofan mín, síðan fórum við í Betraból og fengum okkur að snæða og svo sótti ég Odd og Karlottu til pabba síns í Kópavoginn. Þau voru mjög ánægð með ferðina til Egilsstaða en þar hittu þau föðurfólkið sitt og fóru m.a. á Borgarfjörð eystri til að hitta langömmu og langafa.


Oddur og Karlotta komu hérna heim í Sóltúnið með mér og biðu síðan spennt eftir að mamma og Magnús Már kæmu heim frá útlöndum. Þau sátu úti á bekknum til að sjá þegar þau kæmu. Þau komu svo rétt fyrir kvöldmat bæði með gullhring á baugfingri. Húrra, til hamingju með það !!! ( nú vildi ég geta sett fallegt rautt hjarta í textann). Við borðuðum svo hérna saman og síðan fóru þau heim í Urðartjörn en ég dreif mig í að setja í þvottavél, nokkuð sem ég var búin að trassa að gera.


Nú er best að koma sér í rúmið til að vakna snemma til að fara í göngutúr það er nefnilega spáð fínu veðri á morgun. 
Já, svo má ég ekki gleyma því að hún Ingunn mágkona í Ameríkunni á afmæli á morgun. Til hamingju með það Ingunn mín. Hjá mér er nú reyndar kominn 16. júní því klukkan er orðin svo margt.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Útskrift Jóa o.fl.

  1. afi says:

    Betra seint en aldrei.
    Það gengur betur næst.
    Viðburðaríkir dagar hjá ykkur.

Skildu eftir svar