Sigurrós í heimsókn o.fl.

Vikan sem nú er á enda hefur verið sérstaklega ánægjuleg. Hún byrjaði á því að Guðbjörg og Magnús Már fengu afhent draumahúsið sitt sem nú er nýmálað, allt komið á sinn stað, gardínur fyrir gluggum og myndir á veggjum. Já það er ekki að sjá annað en þarna hafi þau alltaf búið. Það hefur verið gaman að fá að fylgjast með þessum framkvæmdum sem hafa tekist einstaklega vel. Nú eru báðar dæturnar sem sagt komnar á nýjan stað með mánaðar millibili. Það ætti að vera gott að muna það.


Sigurrós kom einmitt austur núna um helgina. Jói var upptekinn í vinnu svo hún var bara ein á ferð.


Guðbjörg og Magnús Már buðu okkur öllum í kaffi og vöfflur með rjóma og jarðaberjum  í gær.  Karlotta hefur verið á ferðalagi með pabba sínum svo ég hef ekki séð hana í viku, vonandi hitti ég hana nú á morgun því hún er komin heim núna.


Í gærkvöldi horfðum við á myndband sem Sigurrós kom með og síðan skruppum við í Sléttusönginn og varðeldinn í Gestsskógi og horfðum svo á flugeldasýninguna. Við létum okkur nú hverfa eftir flugeldana því það var að byrja að rigna en þeir sem voru í innsta hring hjá harmonikku og gítarleikurunum hafa örugglega sungið langt fram á nótt því stuðið var mikið.


Í morgun drifum við okkur svo í göngutúr og nokkru síðar hjóluðu Oddur og Guðbjörg til okkar en Magnús Már og Bjarki fóru í sund. Þau stoppuðu nú stutt því það var von á Karlottu heim úr ferðalaginu.


Seinna í dag skruppum við svo austur að Sólheimum. Það er alltaf gaman að koma þangað og Sigurrós hafði ekki komið áður. Haukur bauð okkur þar í kaffi og tertur og ég kom heim með gulrótarmauk – lífrænt ræktað. Ég hlakka til að setja það á brauðið mitt í fyrramálið.


Sigurrós lagði svo af stað heim til Jóa síns þegar við komum aftur á Selfoss.  – Takk Sigurrós mín fyrir komuna, alltaf gaman þegar þú kemur í heimsókn –


Við Haukur erum svo meira og minna búin að dorma yfir imbakassanum í kvöld en ég kláraði samt að fylla út spurningalista sem ég fékk sendan um FÓTAÓEIRÐ. Ég er búin að vera að veltast með þetta allt of lengi og smá setja inn svör við spurningum.  Ég veit nú ekki hvort ég segi já við því að taka aftur þátt í rannsóknarverkefni eftir þessa útfyllingu. Það er heill doðrantur sem þurfti að fylla út og hvílíkar pælingar við hverja spurningu. Nú er bara að fara með öll glösin sem fylgdu á sjúkrahúsið á morgun og láta tappa af sér blóði í þau, senda þetta síðan í bæinn og þá er dæmið loksins búið. Eða ég ætla rétt að vona það.


Síðasta vika var góð og ég efast ekki um að vikan sem nú tekur við verður líka góð. Með það í huga ætla ég að leggjast á koddann minn núna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Sigurrós í heimsókn o.fl.

  1. Sigurrós says:

    Takk sömuleiðis 🙂
    Takk fyrir mig sömuleiðis 🙂 Þetta var virkilega skemmtileg helgi, það er nú ekki á hverjum degi sem ég kemst í útisöng og flugeldasýningu 🙂

    Varðandi fótaóeirðarrannsóknina, þá skil ég nú ekkert í þér að nenna ef þessu ef þú ætlar ekki að láta taka blóðprufurnar í Reykjavík og fá bol í staðinn, það er nú lágmark að þeir gefi þér bol eftir alla fyrirhöfnina. Nú eða kannski bara sokka, þar sem þetta er nú rannsókn á fótaóeirð… 😉 hehe

Skildu eftir svar