Sóltún og Sælukot.

Eftir þokuna í gærkvöldi þá var notalegt að vakna upp í sólarblíðu í morgun. Ég var búin að ákveða að slá garðinn en þar sem ég var komin á fætur fyrir klukkan níu þá taldi ég nú réttast að bíða svona til klukkan 10 með að ræsa sláttuvélina. Ég byrjaði þessvegna á því að vökva því ekki var vanþörf á því. Ég veit ekki hvort ég hef nefnt þann hrylling sem yfir mig hefur gengið undanfarna daga. Ég held samt að ég hljóti að hafa gert það.  Það hafa sem sagt verið framkvæmdir hérna á miðjum göngustígnum við bakgarðinn hjá mér í nánast allt sumar og þar er nú loksins búið að steypa heilmikið mannvirki niður í jörðina og síðustu dagar hafa farið í að saga stór steinrör sem eiga að passa þarna niður. Í gærdag var sagað og sagað og mökkurinn lá beint að húsinu hjá mér og þó að allir gluggr væru lokaðir þá smaug þetta fína ryk inn. Gróðurinn í garðinum var orðinn hvítur af þessu ryki og Sírenan er held ég að drepast. Það var því ekki vanþörf á að fara út með slönguna og þvo aðeins mesta rykið af plöntunum. Ég passaði mig hinsvegar að sprauta ekki á grasið því síðan sló ég garðinn. Bíllinn var líka hjúpaður í þessu ryki svo hann fékk smá gusu yfir sig líka.  Já, nú er að standa sig í slætti, vökvun og bílaþvotti því Haukur er í fríi úti í Danmörku, en venjulega er hann búinn að gera alla þessa hluti áður en ég er farin að veita því athygli að það þurfi að gera þá.


Ég var nú orðin svolítið lúin þegar ég var búin að þessu en samt var aðalverkefni dagsins eftir. Ég var búin að lofa að bera á „Oddastaði“, geymsluskúr sem verið var að byggja í Sælukoti.
Næst á dagskrá var því að fara í Húsasmiðjuna og kaupa það sem þurfti, síðan lá leiðin austur á Rangárvelli þar sem ég skilaði því verki sem ég hafði boðist til að framkvæma. Það kom reyndar í ljós að það þyrfti að grunna fyrst og það síðan að bíða í einn til tvo sólarhringa áður en aðalumferðin væri sett yfir svo verkið er sem sagt bara hálfnað.



Það var enginn í Sælukoti svo ég var svona eins og Palli sem var einn í heiminum. Tengdamamma hringdi síðan og sagði að hún og Ingi ætluðu að koma seinni partinn. Ég ákvað þess vegna að bíða eftir þeim þó ég væri búin með það sem ég var að gera.
Mér fannst mjög sérstakt að vera þarna ein og ekkert lífsmark nokkurs staðar nema fuglarnir sem aldrei láta sig vanta við Sælukot. Þar sem ég sat þarna og horfði á fallega Heiðalækinn bugðast í kringum hólmann og á grónar brekkurnar og horfði á fjallahringinn, (Þríhyrning, Eyjafjallajökul, Tindfjallajökul, Heklu, Bjólfell, Búrfell, Langjökul og fjöll þar vestan við sem ég kann ekki deili á og yfir í Landsveitina hinu megin Rangár) þá reikaði hugurinn til þess tíma þegar við byrjuðum að byggja bústaðinn fyrir meira en þrjátíu árum. Það er margt breytt bæði í umhverfinu og í lífinu. Þá var myndarlegur búskapur á Heiði og tún slegin og gaman að fá að hjálpa í heyskapnum. Það var líka alltaf jafn vinalegt að sjá beljurnar rölta niður brekkurnar að loknum mjöltum. 
Nú er mun grösugra í kringum Sælukot með öllum trjánum sem búið er að planta, en túnin sem áður voru slegin af bændum eru nú nöguð af hestum og engar eru beljurnar. Bændurnir (foreldrar og bræður tengdamömmu) sem áður bjuggu svo myndarlegu búi eru horfnir til annarra starfa og gömlu hjónin reka nú eflaust blómlegt bú í Paradís, Nú eru hinsvegar komnir hrossabændur sem ég kann ekki einu sinni nöfnin á. En eitt er það sem aldrei hverfur, en það er fjallahringurinn sem er alltaf jafn fallegur, friðsældin og fuglasöngurinn, Heiðalækurinn, og allar góðu minningarnar um þennan tíma sem var svo skemmtilegur og allt fólkið sem tók þátt í lífinu á þessum tíma.  


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Sóltún og Sælukot.

  1. afi says:

    Þú hefur aldeilis í mörgu að snúast þessa dagana. Og það á mörgum vígstöðvum. Vona svo sannarlega að þið farið að losna við rykið, það er óþverri. Lýsingin á fjallahringnum minnir afa á sveitardvöl í Hvolhreppnum.

Skildu eftir svar