Afmæli og borgarferð.

Þeir halda áfram góðu dagarnir og enn er ekkert lát á.  Það er kannski ljótt að segja frá því en það liggur bara við að það væri ágætt að fá smá vætu fljótlega. Ég er ekki að biðja um neitt mikið bara svona smá fyrir gróðurinn, svo endilega ekki skamma mig ef það leggst í rigningar eftir þessa bón mína.


Það var haldið upp á afmæli Odds Vilbergs í gær þó afmælið sé ekki fyrr en í dag 22. ágúst. Það var frekar fámennt en góðmennt í veislunni í gær og kom þar margt til. Fólk var í sumarbústöðum og svo var Menningarnótt í Reykjavík.  Amma Bagga og Ingi létu sig þó ekki vanta og Sigurrós og Jói komu líka úr bænum þrátt fyrir hátíðarhöldin þar. Selma, Jói og Sigþór voru líka mætt og Anna Linda. Svo voru auðvitað helstu vinir afmælisbarnsins.
Veðrið spillti nú ekki fyrir og léku krakkarnir sér mest úti í garði enda nóg pláss þar.


Oddur Vilberg og Karlotta voru svo samferða Sigurrós og Jóa í bæinn því pabbi þeirra var búinn að panta að hafa þau í dag til þess að fara með þau á hátíð í Fjölskyldugarðinum. það verður nú gaman hjá þeim.


MENNINGARNÓTT.


Um áttaleytið í gærkvöldi hringdi Guðbjörg svo til mín og sagði að þau Magnús væru að spá í að skreppa á Menningarnóttina, hvort ég væri til í að koma með.  Ég hélt það nú. Ég elska allar svona uppákomur.


Við lögðum bílnum í Borgartúninu og röltum þaðan niður í bæ. Það var mjög skemmtilegt að rölta niður Laugaveginn og þó mikill mannfjöldi væri á ferðinni þá var þetta ósköp notalegt, hvorki troðningur né pústrar.


Ég hitti nú fáa sem ég þekkti en hún Erla frænka mín og Bergur voru þó á vísum stað þar sem gömlu dansarnir voru í Lækjargötunni. Þar erum við Haukur líka vön að fá okkur snúning á svona tillidögum í borginni Já, mig vantaði nú sárlega að hann Haukur minn, sem er úti á Jótlandi, væri kominn til að taka mig í fangið og snúast með mér í ótal hringi.


Við kíktum svo aðeins í Ráðhúsið þar sem Vestmannaeyingar réðu ríkjum. Það var hvergi hægt að komast nálægt til að sjá hvað þar var um að vera en greinilegt að þarna hafa Vestmannaeyingar verið að hittast því mikið virtist um fagnaðarfundi.


Við héldum svo áfram röltinu og komum á tilfinningatorgið þar sem manngarmur stóð og lýsti því þegar systir hans missti niður berin sem hún hafði verið að tína. Ég er nú ekki frá því að sá sem lýsti þarna tilfinningum sínum hafi verið búinn að fá sér eitthvað í a.m.k. aðra tána. Við héldum því áfram röltinu og kíktum í Listasafnið í Tryggvagötunni. Það var nú ekkert okkar mjög hrifið af því sem þar bar fyrir augu en látum það liggj milli hluta. Þegar þarna var komið sögu var klukkan orðin hálf ellefu svo við tókum stefnuna á Arnarhólinn því ekki fannst okkur mjög vænlegt að troða okkur í mannfjöldan á hafnargarðinum enda hávaðinn þar hvílíkur að það lá við að jörðin titraði.


Klukkan ellefu þegar Bubbi var búinn að syngja sitt síðasta lag (í bili)  þá tók við hin stórfenglega flugeldasýning sem lýsti upp allan himininn. Það var sko enginn svikinn sem þarna var.


Síðan var ekkert annað eftir en að rölta aftur upp í Borgartún og viti menn – ég hitti á leiðinni hann Viðar Má og Guðrúnu með Orra með sér. Þetta var einstaklega góður endir á góðum degi.  Heimferðin gekk svo eins og í sögu. Við komumst strax út á Sæbrautina og þaðan var greið leið heim á Selfoss. 


Magnús og Guðbjörg, kærar þakkir fyrir að hafa tekið þá gömlu með ykkur.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar