Kennarar – hugsjón.

Ég ætlaði mér að skrifa ýmislegt sem á daga mína hefur drifið undanfarið en mér er svo ofarlega í huga yfirvofandi kennaraverkfall að ég kem bara engu á blað.


Mig langar til að benda á blogg Sigurrósar og skólasystur hennar Helgu sem vert er að lesa.  Sjálf verð ég svo reið, þegar ég heyri fólk tala um að kennarar hafi nú fengið svo mikla launahækkun síðast og geti ekki gert endalausar kröfur fyrir ekki meiri vinnu og almenningur hafi nú ekki allt þetta frí sem kennarar hafi.


Já, ég verð svo reið af því ég veit að kennarar vinna hvílíkt sjálfboðastarf heima hjá sér. Já sjálfboðastarf, því það er ekki greidd króna fyrir umframvinnu. Ég hef verið að segja við dætur mínar að þær gætu fengið helmingi hærri laun í öðrum störfum, störfum þar sem ekki þarf að taka vinnuna með sér heim á kvöldin og um helgar til að vinna hana kauplaust.


Þær eru hinsvegar sammála um að kennarastarfið hafi þær valið því þær hefðu vitað að þar myndu kraftar þeirra nýtast best og fá störf gætu verið meira gefandi. Er til merkilegra starf en það sem felst í því að vera að leggja grunninn að þeirri menntun sem á eftir að móta líf barna í framtíðinni?
Nei, mamma á ekki svör við því. Spurningin er bara hversvegna er þessi vinna alltaf vanmetin þegar kemur að því að greiða laun fyrir hana? Af hverju á að níðast á hugsjónakennurum af því að vitað er að þeir eru svo samviskusamir að þeir vinna vinnuna sína hversu langur sem vinnudagurinn er og hvort sem vinnan er greidd eða ekki bara til þess að skjólstæðingum þeirra líði betur í skólanum  og fái sem besta menntun???


 


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar