Sólardagur að hausti.

Mikið var yndislegt veðrið í gær.
Um daginn þegar vonda veðrið var þá gerðum við allt vetrarklárt á pallinum okkar góða og sáum ekki fyrir okkur að það ætti eftir að koma a.m.k. einn sólardagur í viðbót. Hver veit nema þeir eigi eftir að verða fleiri.


Við reistum borðin á pallinum aftur á fjóra fætur, fundum dúka og sessur og settumst svo út í blessaða sólina.  Samkvæmt venju reif Haukur sig úr öllu þ.e.a.s. öllu sem hann fékk leyfi til að rífa sig úr, maður verður nú að gæta velsæmisins 🙂  Það var ekki um annað að ræða en að drekka kaffið úti enda yfir 20° í logninu á móti sólinni. Við fengum líka skemmtilegan félagsskap því Guðbjörg og Magnús voru í göngutúr og komu hérna við og drukku með okkur.
Þegar þau voru farin og meðan ennþá var hlýtt af sólinni þá lét ég verða af því að þvo hjá mér gluggana á meðan Haukur dreif sig í að þvo og bóna bílana. Annars er ég hvílíkur Lasarus í bakinu núna og niður í vinstri fótinn að ég er nú svo sem ekki til stórræðna.  – Fjári fúlt þegar allt gengur svona vel með fæturna að vera þá að drepast í bakinu.  Ég hef samt grun um að talsvert samhengi sé þarna á milli, því staðan á fótunum á mér er nú ekki allskostar rétt á meðan þessar umbúðir eru. Það batnar vonandi þegar gifsið verður tekið.  Nei, nú misskiljið þið mig, ég er ekki að segja þetta bara svo ég geti látið taka af mér gifsið 6 dögum áður en það á að gerast, þó vitaskuld hefði ég ekkert á móti því.  En, ætli það væri samt ekki til bóta, ég bara spyr?

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Sólardagur að hausti.

  1. afi says:

    Allt hefur sinn tíma.
    Sú held´eg verði spræk þegar hún losnar við umbúðirnar.

  2. Ragna says:

    Takk, „afi“ minn kær fyrir uppörvun og hughreystingar. Það koma nú fljótlega fréttir af óþægu konunni á Selfossi.

Skildu eftir svar