Gifsið burt og heimsókn til höfuðstaðarins.

Best að byrja á syndajátningunni.  Ég kem beint að efninu. Gifsið er farið af. Þegar ég segi farið af þá verð ég að játa að ég tók það af s.l. miðvikudag. Það má kannski segja að það hafi verið óhemjugangur hjá mér að bíða ekki fram á helgi en Trausti sjúkraþjálfarinn minn hérna fyrir austan studdi mig í þessari ákvörðun því ég var að versna og versna í bakinu. Ég fann mér sem sagt einhvern til þess að vera mér samsekur. Ég gat orðið varla stigið í vinstri fótinn, ekki vegna aðgerðarinnar heldur vegna baksins.  Fæturnir komu mjög vel undan gifsinu og það sem meira er, stóra táin sem átti að vera svo erfitt að liðka er bara ekki eins stirð og reiknað var með. Það kom mér sem sagt til góða að ég var alltaf að smá hreyfa hana í gifsinu þannig að ég er búin að halda henni í æfingu án þess að hafa gert mér grein fyrir því að ég var að vinna mér í haginn.


Á föstudaginn, þegar ég var búin að komast að því að ég gat farið í sandala og að hann Jakob „gamli“ sjúkraþjálfarinn minn var tilbúinn að gefa mér tíma hjá sér þá ákvað ég  drífa mig til höfuðstaðarins. Fyrsti viðkomustaðurinn var hjá Jakobi, en hann er sá eini sem veit nákvæmlega hvernig á að meðhöndla bakið á mér þegar ég fer í svona klemmu. Ég haltraði sem sé inn til hans og hann stakk í mig nálunum sínum og ýtti á alla aumu punktana sem enginn annar virðist finna og viti menn ég gekk svo til óhölt út frá honum. 
Nú voru mér allir vegir færir svo ég dreif mig til hárgreiðslukonunnar minnar og fór þar í klippingu og fékk uppfærslu á því helsta sem talað er um í borginni, en það fylgir alltaf svona hárgreiðslustofuheimsóknum.


Fyrst ég var loksins komin í bæinn þá mátti ég til með að heimsækja gömlu konurnar mínar, Tótu og tengdamömmu. Ég byrjaði hjá Tótu á Ásveginum sem fagnaði mér innilega eins og hún er vön og hjá henni drakk ég kaffi og borðaði kleinur á meðan við rifjuðum upp gamla tíma þegar ég og krakkarnir hennar vorum að alast upp í Kleppsholtinu. Það var nú farið að líða það mikið á daginn og ég vissi að Haukur myndi bíða með mat handa mér í Hafnarfirðinum svo ég ákvað að geyma til næsta dags að heimsækja tengdamömmu. Ég gisti svo í Hafnarfirðinum en Haukur var á næturvakt.


Á laugardagsmorgninum dreif ég mig svo til tengdamömmu og Ingabjörns. Ég beið nú til klukkan ellefu til þess að þau væru örugglega komin á kreik en ég var ekkert búin að hringja á undan mér. Eins og venjulega var svo gott að hitta þau. Gamla fólkið er svo þakklátt fyrir það þegar maður lítur inn, en það gerir sér ekki grein fyrir því hvað það gefur manni sjálfum mikið að koma í heimsókn. Þessar tvær gömlu konur Tóta og tengdamamma eiga svo stóran sess í mínum minningum.  Tóta, sem fylgdist með mér vaxa úr grasi á bernskuslóðum mínum og hefur alltaf fylgst með mér og verið í sambandi við mig og tengdamamma, sem hefur verið mér sem önnur móðir síðan ég var 16 ára gömul. Þessar tvær konur þykir mér mjög vænt um og á þeim mikið að þakka.


Ég fór svo frá tengdamömmu og beint í saumaklúbb til Sonju í hádeginu á laugardag. Þetta er fyrsti saumaklúbbur vetrarins og jafnframt eigum við 40 ára saumaklúbbsafmæli en við byrjuðum að hausti 1964. Sonja bauð upp á þennan líka fína þríréttaða hádegisverð  – ekki amalegt það.


Um fjögurleytið lagði ég svo af stað austur aftur og Karlotta með mér en hún hafði verið hjá pabba sínum og ætlaði að vera samferða ömmu heim.  það var svo ekki að því að spyrja að ég lenti í annarri veislu þegar heim var komið því Guðbjörg og Magnús buðu mér í svakalega gott lambalæri (af nýslátruðu) nammi, nammi, namm.


Í dag hef ég svo verið letin uppmáluð, hugsa bara um það sem ég ætti að vera að gera en bara nenni ekki að koma mér að neinu verki.  Vonandi verð ég duglegri á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Gifsið burt og heimsókn til höfuðstaðarins.

  1. afi says:

    Þú kannt þér bara ekki læti og æðir um á sokkaleistunum, eftir að gifsið fór veg allrar veraldrar.
    Hið besta mál.

  2. Þórunn says:

    Til hamingju með frelsið,
    gott að heyra hvað fæturnir koma vel undan gifsinu. Gangi þér vel með æfingarnar á stórutánni, ég gæti alveg þegið svona nálastungur en hef ekki frétt af neinum svona snillingi hér í nágrenninu.

Skildu eftir svar