Hvað er ég eiginlega að hugsa að vera ekki búin að færa dagbókina í heila viku eins og þetta hafa nú verið góðir dagar. Ég hef samt smá afsökun því ég hef verið slæm í bakinu og að sitja hefur verið verst. Þess vegna tók ég mig til á sunnudagsmorgninum og fór að baka alls konar góðgæti til að hafa svona gamaldags sunnudagskaffi. Ég hringdi svo í Sigurrós og Jóa og jú, þau voru til í að skreppa austur. Síðan var ég svo heppin að tengdamamma og Ingibjörn litu inn fyrir tilviljun svo þá var bara að kalla á Guðbjörgu og Magnús Má og þau komu ásamt Oddi ömmuknúsara en Karlotta hafði farið til vinkonu sinnar. Þetta var aldeilis skemmtilegt.  Þetta, að baka og fá gesti í kaffi á sunnudögum, voru fastir liðir í tilverunni hérna áður fyrr en því miður þá er fólk bara hætt að „droppa“ inn í kaffi nema um boð sé að ræða. Ég var alla vega mjög ánægð með að hafa látið mér detta þetta í hug – og framkvæma það. Það þarf ekki alltaf að vera tilefni til, annað en bara það að hittast og fá sér eitthvað gott í gogginn.


Sem betur fer er nú komið bjartviðri í dag, ekki síst vegna þess að ég þarf að skreppa í borgarferð. Ég á að hitta spekinginn sem skar á mér fæturna og er orðin verulega spennt að vita hvað hann segir um undraverðan bata minn. Hvort ég er á réttri leið eða hvort ég hef farið offari. Það hefði nú verið freistandi að mæta hjá honum í háhæluðu öklaskónum mínum (það var búið að segja mér að það tæki ár að komast í háhælaða skó) og ég kemst svo vel í þá. Hinsvegar þori ég ekki að fara út í neitt slíkt fyrr en ég fæ leyfi til. Maður er nú svo samviskusamur að gera ekkert nema með leyfi.


Best að hætta þessu núna svo ég verði ekki of sein til sjúkraþjálfarans til að láta teygja sig aðeins til áður en ég sest í bílinn og bruna til Reykjavíkur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar