Stuttmyndir.

Daginn í dag byrjaði ég á því að vera í biðröð í tæpan klukkutíma til að fá nagladekkin undir bílinn. Og ég sem hélt að ég væri sú eina sem væri svona taugaveikluð að láta setja nagladekkin undir áður en fyrsti snjórinn kemur. En tilfellið er að þegar maður þarf að fara yfir Hellisheiðina má alltaf búast við að þar sé hálka og á hana dugar ekkert nema naglar.  Ég verð nú að segja að ég er strax farin að hlakka til vorsins þegar ég get sett sumardekkin undir aftur. Það er jú alltaf gaman að hlakka til einhvers og þessi tilhlökkun er jú ekki verri en aðrar.


Þegar ég var komin á naglana lagði ég af stað í bæinn. Það var ýmislegt sem ég þurfti að erinda en tilefnið var samt að fara klukkan 18:00 á stuttmyndasýningu í Háskólabíói en þar átti  bróðursonur Hauks, Rúnar Rúnarsson mynd, sem okkur hafði langað til að sjá, virkilega fín mynd. Það var hinsvegar verið að sýna allar stuttmyndirnar sem hafa verið tilnefndar til Edduverðlaunanna svo við sátum í tvo tíma að horfa á stuttmyndir. Nokkuð sem við höfum aldrei gert áður.


ÞAÐ VANTAR LÝSINGU Á HELLISHEIÐINA


Enn einu sinni ætla ég að leyfa mér að röfla yfir því að það skuli ekki vera hljómgrunnur fyrir því að setja upp lýsingu á Hellisheiðina. Mér er sama hvort akreinarnar eru tvær, þrjár eða fjórar bara ef það yrði sett upp lýsing. Það hlýtur að vera slysagildra þegar maður sér ekkert fram fyrir sig. Það væri jú allt í lagi ef maður væri einn á ferð og enginn kæmi á móti manni, því þá gæti maður bara sett upp háu ljósin og látið vaða.  En þegar talsverð umferð er á móti þá er maður alltaf að skipta úr háu ljósunum í þau lágu. Mér finnst ég ekki sjá nógu langt fram á veginn á lágu ljósunum og þegar maður er á litlum bíl þá koma ljósin á móti beint í augun á manni, að ég nú tali ekki um þessi nýju halogenljós sem eru ótrúlega skær.  Ég trúi ekki öðru en einhver sé mér sammála um að við þurfum lýsingu á leiðina – helst af öllu alveg –  milli Reykjavíkur og Selfoss. Er ég alveg hræðilega mikil frekja???

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Stuttmyndir.

  1. Sigrún says:

    Þú ert nú engin frekja og oft var þessi umræða tekin upp á leiðinni austur í Hlíð.

Skildu eftir svar