Sérstakur afmælisdagur

Ég vaknaði snemma í morgun því ég ætlað að vera í borginni í dag með stelpunum mínum. Kíkti samt fyrst á póstinn minn í tölvunni og auðvitað var góð afmæliskveðja frá Eddu Garðars, sem aldrei gleymir vinkonunni sinni.
Guðbjörg og Magnús Már sóttu mig uppúr níu, en þeir feðgar Magnús og Bjarki voru að skreppa með flugi til Akureyrar til að vera yfir helgina, barnabörnin ætluðu að vera hjá pabba sínum og við Guðbjörg ætluðum að hitta Sigurrós í verkfallsmiðstöðinni og vera svo allar saman fyrripartinn í dag, eða þangað til Sigurrós færi í sjúkraþjálfun um kaffileytið. Þetta gekk allt saman eftir.


En þetta var í alla staði mjög óvenjulegur afmælisdagur. Haukur var í vinnu síðustu nótt og svo aftur í dag og þangað til á miðnætti í kvöld svo hann var fjarri.  En þegar ég kom heim þá biðu mín skilaboð um hvar ég finndi afmælisgjöf og svo kom stúlka frá blómabúð með stærðar blómvönd. Já hann Haukur minn hefur aldrei gleymt afmælisdeginum mínum þó hann sé í miðri vinnusyrpu.


Við Guðbjörg fórum og hittum Sigurrós í verkfallsmiðstöðinni. Þegar við komum þangað var Eiríkur rétt ókominn með boðskap dagsins og við fengum okkur kaffi og meðlæti af sameiginlegu hlaðborði kennaranna sem voru á staðnum og ákváðum að bíða eftir því hvað Eiríkur hefði að segja. Það var gaman að hitta skólasystur Sigurrósar úr Kennaraháskólanum og Stefu, gömlu góðu vinkonu Sigurrósar síðan í barnaskóla, en hún er líka kennari í dag. Já þetta var allt mjög ljúft og skemmtilegt þangað til …..


Það fyrsta sem Eiríkur sagði var: „Þetta er svartur dagur.“  og svipur fólks, sem hafði verið að spjalla brosandi saman varð grafalvarlegur og eftir að Eiríkur lauk máli sínu kom fyrst grafarþögn og síðan andköf og loks töluðu hverjir í kapp við aðra. Ég heyrði marga segja „nú segi ég upp“. Ef það gengur eftir að Gerðardómur eigi ekki að skila dómi sínum fyrr en í mars/apríl og þá verði ákvörðuð launahækkun frá 15. desember 2004, til jafns við launahækkanir á hinum almenna vinnumarkaði,  þá skil ég vel að kennarar ætli að segja upp.  Þá er nefnilega komið ár frá því að kennarar urðu samningslausir eftir síðustu samninga sem kennarar voru þá þröngvaðir til að samþykkja.
Það læðist að manni sá grunur að sveitarfélögin og ríkið hafi alltaf ætlað þessu að fara svona. Ég veit að nú tala ég eins og hann vinur okkar úr Spaugstofunni sem sér samsæri í hverju horni. En mér finnst liggja beint við að svona sé þessu háttað í dag. Sveitarstjórnir töldu sig ekki hafa bolmagn til að greiða hærri laun nema ríkið kæmi inn í með fjármagn. Auðvitað var því besta lausnin fyrir bæði sveitarfélögin og ríkið að ekkert yrði samið. Þannig að með því að setja lög sem engar launahækkanir fælu í sér þá björguðust sveitarfélögin og ríkið slapp við að auka fjármagn til sveitarfélaganna.  Svona er nú samsæriskenningin mín.


Ég var orðin svo uppfull af eldmóði fyrir hönd kennaranna að ég ætlaði sko að fara beint niður á Austurvöll, þegar það kom til tals að fólk ætlaði þangað. Stelpurnar mínar minntu mig hins vegar á að við hefðum ætlað að gera eitthvað skemmtilegt saman í dag og þær væru þrátt fyrir allt ekki tilbúnar að láta skemma það fyrir okkur. Svo mamma var róuð niður.


Við fórum í Kringluna og fengum okkur sjávarréttasúpu og brauð og kíktum svo í búðir, en þær elskur höfðu gefið mér gjafakort sem ég notfærði mér og keypti æðislegan bleikan (nema hvað) slopp sem ég sit nú í eftir freyðibaðið fyrr í kvöld. Sigurrós, Guðbjörg og ykkar menn ÞÚSUND ÞAKKIR.


Við komum hérna austur aftur upp úr fjögur. Edda systir mín var búin að leita að mér því hún vissi ekkert að ég fór í bæinn. Svo mér datt í hug á heimleiðinni að koma við í Hverabakaríinu og keypti hitt og þetta með kaffinu og Edda og Jón komu svo og fengu sér kaffisopa með okkur. Þetta er í fyrsta og vonandi síðasta skipti sem ég er ekki með heimabakaðar tertur á afmælinu mínu.  Mér finnst það í raun alveg skandall að vera með bakaríisbrauð á afmælisdaginn.


Svo hef ég verið meira og minna í símanum í kvöld. Ingunn mágkona hringdi frá Ameríkunni og við töluðum ábyggilega saman í nærri klukkutíma, Dana María hringdi og Einar mágur talaði við mig áðan. Svo fékk ég SMS frá Ingunni Ragnars sem er í London. Og ekki má gleyma þeim sem hafa skrifað hérna í Gestabókina mína. Já það mætti halda að maður ætti stórafmæli.


Nú ætla ég upp í rúm með nýju Noru Roberts bókina sem fylgdi gjafakortinu frá dætrunum og síðan fer ég til fundar við Óla Lokbrá.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Sérstakur afmælisdagur

  1. Sigurrós says:

    Til hamingju með daginn 🙂
    Já, þetta var að mörgu leyti öðruvísi afmælisdagur og ég er móðgðuð út í ríkisstjórnina fyrir að velja endilega þessa dagsetningu til að bendla við þennan ófögnuð sinn. En við áttum nú góðan dag saman þrátt fyrir allt 🙂
    Enn og aftur, til hamingju með afmælið!

  2. afi says:

    Hvað sem gerðardómum og vinnudeilum líður óskar afi þér til hamingju með afmælið.

Skildu eftir svar