Frænkur og jólahlaðborð.

Ég hef nú átt góðar stundir undanfarið þó að nokkur erill hafi verið eins og gengur á þessum árstíma. Dana María dótturdóttir Hauks kom hérna á fimmtudagskvöldið og borðaði með okkur og við sátum og spjölluðum fram eftir kvöldi við notaleg jólaljósin. Alltaf svo gaman þegar unga fólkið nennir að sitja og spjalla við okkur gamlingjana.  Haukur fór svo í bæinn á föstudaginn til þess að byrja enn eina vinnusyrpuna en ég sneri mér að því að baka epla-jólakransana og skinkuhornin. Ég er búin að vera svo afslöppuð á þessari aðventu að ég er óvenju sein að klára allan bakstur. Annars er það nú bara rugl að vera að baka allt of mikið því það eru svo breyttir tímar frá því sem var þegar allir röðuðu í sig sætu smákökunum og öllu hinu. Nú eru allir að reyna að halda í við sig með sætindin og svona rétt fá sér að smakka. Ég bætti samt Sörunum við á laugardagsmorgninum áður en ég fór í bæinn.


Laugardagur.
Já við fórum hérna þrjár saman í bæinn, við Guðbjörg, Edda og Sigþór. Við ókum í yndislega fallegu veðri yfir Hellisheiðina. Það eru oft svo fallegir skuggar og sólstafir þegar sólin er svona lágt á lofti. Fyrsti viðkomustaðurinn okkar var kirkjugarðurinn í Fossvoginum en þangað fórum við með ljós á leiði foreldra okkar Eddu og settum grein í vasann.
Síðan var ferðinni heitið í Hafnarfjörðinn þar sem við skildum Sigþór eftir í pössun hjá Birgi en tókum í staðinn Maríu og Eddu Karen. Nú lá leiðin í Kópavoginn til Sigurrósar því þar var frænkuhittingur.
Þegar við komum þar þá var Dóra komin og Hulda með litlu krúttin sín, en Hulda kemur alla leið frá Oxford til að hitta okkur. Nei annars hún er nú ekki bara að koma til þess heldur ætlar hún að vera með fjölskyldunni sinni hjá mömmu og pabba á Íslandi þessi jól.
Það var ágæt mæting hjá okkur og þær fjórar sem ekki voru með voru allar erlendis, Erna og Sandra búa á Bornhólm og of langt að skreppa, Kolla var í heimsókn í Englandi og Selma var í Kína og það var líka of langt að skreppa þaðan. Hún var þar ásamt Jóa og fleiri íslendingum í sömu erindagjörðum, að sækja litla yndislega dóttur Sólrúnu Maríu sem við hlökkum öll ósegjanlega mikið til að sjá og hitta þegar þau koma heim í lok næstu viku.


Í kvöld held ég að ég hafi átt möguleika á að komast í Heimsmeta-bókina, en það hringdi kona til mín rétt um níuleytið og talaði við mig til klukkan hálf eitt í nótt. Ég held ég hafi aldrei komist svo langt að tala í klukkutíma í einu í síma svo þetta er allavega algjört met fyrir mig.


Sunnudagur.
Í morgun dreif ég mig í að setja súkkulaðihjúpinn á Sörurnar og var í miðju kafi að klára það þegar ég fékk gesti. Ingunn Ragnars og Símon litu við, en þau voru að koma úr jólahlaðborði í Hótel Rangá og voru þar í nótt. Mikið finnst mér gaman þegar fólk droppar svona inn hjá manni. Það gerir ekkert til þó maður sé að gera eitthvað því það er ekkert mikilvægara en að fá vini sína í heimsókn.
Guðbjörg og Magnús sóttu mig svo um þrjúleytið þegar gestirnir voru að kveðja og nú lá leiðin að Hótel Geysi en þangað vorum við að fara í fjölskyldu-jólahlaðborð. Auk Odds og Karlottu þá kom Bjarki hans Magnúsar með og við tókum líka Sigþór með okkur.
Við komumst nú á leiðarenda þrátt fyrir fljúgandi glerhálku alla leiðina en við vorum hátt í tvo tíma frá Selfossi að Geysi og segir það kannski nokkuð til um hvernig færðin var, en Magnús ók svo örugglega að ég fann ekki til hræðslu.


Við gæddum okkur svo á öllum krásunum sem þarna voru. Það er mikið stílað inn á börnin og var t.d. sér hlaðborð fyrir þau í þeirra hæð, þar sem þau gátu fengið ýmsa rétti við sitt hæfi. Síðan komu jólasveinar og skemmtu og sungu með börnum og fullorðin og gáfu  börnunum nammipoka. Þeir sáu líklega hvað við hin vorum búin að raða miklu í okkur því við fengum ekkert nammi 🙁
Leiðin heim var miklu greiðfærari og hálkan nánast horfin nema svona á smáköflum svo það tók bara eðlilegan tíma að komast heim aftur.


Nú er klukkan að verða níu og ég er bara að hugsa um að slá botninn í þetta og fara í kertaljósa-freyðibað. Kannski að ég hafi með mér staup af Sherrýi úr jóladagatalsflöskunni sem ekkert gengur að lækka í og piparköku. Síðan ætla ég í rúmið að lesa svoldið í bókinni sem ég fékk í afmælisgjöf. Er hægt að hugsa sér rómantískari slökun á aðventukvöldi.


Ummmmmmm


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Frænkur og jólahlaðborð.

  1. afi says:

    afi kemst bara í jólaskap að lesa svona aðventupistil. Það má nú segja að gestir þínir komi víða að.

Skildu eftir svar