Mæðgnadagur.

Haukur lagðu af stað austur snemma í morgun og var komin á Borgarfjörð eystri seinni partinn í dag. Það var ágætisveður þar og von á sól á morgun.


Sigurrós var hérna í nótt og Guðbjörg kom hjólandi í rigningunni í morgun. Ég bakaði skonsur handa okkur til að hafa með morgunkaffinu síðan skruppum við út í Kjarna og svo var tekið til við dagskrá dagsins sem var að fara yfir ýmsar gamlar og nýjar myndir til þess að Sigurrós gæti skannað inn fyrir okkur það sem við óskuðum að fá á netið. Við fengum nú hláturskrampa yfir hártísku ýmissa tímabila og ég fékk að heyra oftar en einu sinni “ Hvernig eiginlega datt þér í hug að hafa mig svona klædda og sérðu hárið“og svo var veinað. Ég hafði ekki við að afsaka þennan hryllilega klæðnað og reyndi að skýra það út mér til afsökunar að þetta væri ekki bara af því að ég hefði haft svona furðulegan smekk heldur hafi þetta verið tíska hvers tíma. Ég verð nú að viðurkenna að það sem þær klæddust um og eftir 1980 virðist í dag algjört „horror“ og hárið, drottinn minn dýri!!!


Jói kom svo um fimmleytið til að sækja Sigurrós og við borðuðum saman kvöldmat áður en þau fóru í bæinn. Þau áttu að mæta í afmælisveislu hjá vini Jóa í kvöld. Áður en þau fóru þá ákvað Jói að yfirfara  tölvuna mína og nú er nún fljótari að ræsa sig og slökkva á sér.


Guðbjörg var að hjálpa til í Steikhúsinu í kvöld en kom svo aðeins við þegar hún var búin þar. Nú hinsvegar er ég orðin ein í kotinu og ætla að fá mér kvöldteið mitt og koma mér svo í rúmið með bókina sem ég er að lesa. Ég gæti nú alveg trúað því að það yrði sól á morgun, það er orðinn eitthvað svo léttur himininn eftir allt úrhellið í dag.


Kærar þakkir Sigurrós og Jói fyrir heimsóknina. (Er ekki flott hjá mér að setja inn tenglana eins og þið kennduð mér í dag?)  🙂


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Mæðgnadagur.

  1. Jói says:

    Glæsilegt
    Mjög glæsilegt! Sigurrós gleymdi að nefna það að hefð er fyrir því að tengja í fyrsta sinn sem nafn er nefnt. Eftir það þarf ekki að tengja aftur á sama aðila (en er auðvitað guðvelkomið!). Hefðir eru svo sem til að brjóta þær líka 🙂

Skildu eftir svar