RIGNINGARDAGURINN MIKLI

 Það stendur ekki á því hjá tölvuvædda parinu í Betrabóli að þjónusta „dreifbýlisfólkið“ sem lítið kann á tæknina en vill samt hafa eins og hinir. Gamla konan á bláu síðunni er bara búin að fá myndaalbúm. Það er reyndar ekki tengt við heimasíðuna ennþá en ef að líkum lætur verður ekki langt að bíða þess. Til þess að sjá myndirnar núna er þetta slóðin: http://ragna.betra.is/myndir/


Það er nú kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala um veðrið, en í dag er lækurinn alveg bakkafullur. Ég held ég muni ekki eftir annarri eins rigningu hérna á íslandi. Þetta byrjaði strax í morgun. Í svefnrofunum hélt ég að það væru að koma rútur hérna inní lokuðu götuna okkar því það heyrðist eitthvað svo mikið að utan. Við nánari athugun var þetta bara svo mikil og gróf rigning að það drundi í öllu. Svona dembur eru búnar að koma í allan dag og þess á milli hefur bara rignt eðlilega. Sem sagt rigning frá A – Ö. Við Guðbjörg létum það þó ekki á okkur fá. Þegar hún kom um hádegið fannst okkur eitthvað minni rigning svo við klæddum okkur upp og drifum okkur í göngutúr. Hálftíma seinna komum við heim svo blautar að við urðum að fara inn um bílskúrinn til þess að fylla ekki forstofuna af vatni. En það er geysilega gaman að fara í göngutúr í svona rigningu eins og var í dag þegar hún kemur beint niður í logni en ekki úr öllum áttum eins og við eigum nú helst að venjast. Það má segja að það hafi verið ekta regnhlífaveður í dag. En á því vorum við nú ekkert búnar að átta okkur þegar við fórum í göngutúrinn svo allar regnhlífarnar sem hafa verið keyptar þegar maður hefur óvænt lent í rigningum erlendis (en þá hafa þær alltaf gleymst heima) voru að venju skildar eftir í skápnum í forstofunni.


Þess má geta að Haukur spókar sig nú í sólinni á Borgarfirði eystra. Vonandi verður ennþá svona gott veður þar þegar ég skrepp austur.


Guðbjörg bauð mér í svakalega fína súpu úr „Af hjartans list“ bókinni í kvöld og bláber og rjóma á eftir, nammi, namm.


Nú er það bara að taka úr þvottavélinni og drífa sig í rúmið með bókina góðu.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar