Mismæli – mistök og meiri snjór.

Ég heyrði alveg frábær mismæli hjá þul ríkisútvarpsins í gærmorgun. Það sem ég heyrði var svona:


“ PALLÍETTU-JAKKARNIR KOMNIR, VERKF….., NEI HÉR URÐU ÞUL Á MISMÆLI


PALLET-TJAKKARNIR KOMNIR. VERKFÆRALAGERINN SKEIFUNNI.“


Ég vorkenndi konunni því hún varð að halda niðri í sér hlátrinum á meðan hún þurfti að komast í gegnum næstu auglýsingar.


——–


Svo er annar brandari, sem reyndar er nú enginn brandari heldur lítil saga af honum Oddi mínum Vilberg.


Þegar Guðbjörg sótti hann í leikskólann í fyrradag þá brá henni heldur betur þegar hún sá litla prinsinn sinn koma á móti sér með vægast sagt furðulega klippingu. Hann var hinsvegar hinn ánægðasti og sagði að Dagur Snær hefði klippt sig, sig langaði  nefnilega svo til að eiga hár í poka. Hann hefði því beðið  besta vin sinn á leikskólanum hann Dag Snæ um að klippa af sér hár til að setja í pokann.  Þeir hafa greinilega haft nógan tíma í ró og næði við þessa iðju því það eru eyður á mörgun stöðum í hárinu á honum. Ég spurði Guðbjörgu hvar í ósköpunum fóstrurnar hefðu eiginlega verið að taka ekki eftir því sem þeir voru að gera.  ???
Mamma hans Dags Snæs hringdi hinsvegar alveg miður sín yfir þessu. En þetta er auðvitað ekkert frekar Degi Snæ að kenna því Oddur bað hann um þetta og hvað gerir maður ekki fyrir besta vin sinn. Já það er fjör þegar maður er fimm ára.


Veðurofsi:


Ég veit ekki hvernig veðrið var í Reykjavík í nótt en ég vaknaði um klukkan sex í morgun við hvílík læti í veðrinu. Ég skreiddist framúr og kíkti út og sá þá að það var alveg blindbylur. Ég var að vorkenna þeim sem áttu að mæta í skóla og vinnu eftir tæpa tvo tíma. Veðrið leit ekki beint árennilega út til útivistar.
Ég var með gluggana á svefnherberginu læsta í ytri stöðu svona til að hafa á þeim aðeins rifu. Þessi rifa var nóg til þess að gluggakistan var full af snjó og það sem meira var, það hafði myndast klaki í þessari litlu rifu.
Nú voru góð ráð dýr. Annarsvegar beið heitt rúmið og hinsvegar fannst mér að ég yrði að þurrka upp og bræða klakann úr glugganum svo hann eyðilegðist ekki. Samviskusemin varð ofaná og ég sótti sjóðandi heitt vatn í fat og með heitri tusku þá tókst mér að bræða klakann en það tók þó nokkurn tíma og stöðugt snjóaði á mig við þessa iðju. Svo þurfti ég auðvitað að þurrka upp allan snjóinn og bleytuna. Ég var fegin að hafa vaknað við veðrið því að það var aðeins komin bleyta inn á gólf.
Það sem mér finnst skrýtnast er hvað það kom mikill snjór inn um þessa rifu sem er svo lítil að það varla sést að það sé rifa á glugganum í þessari stillingu. Einnig fannst mér skrýtið að það hafi myndast klaki þarna í gluggafalsinu. En hvað um það ég náði að hreinsa þetta allt upp og horfði svo á Ísland í býtið á stöð tvö. Ég veit ekki hvort ég á að segja ykkur hvað ég gerði svo. Jú einmitt- skreið aftur upp í rúm og svaf í klukkutíma, eða þar til fór að birta af degi.


Það virðast ganga svona snjólægðir yfir okkur hérna á hverri nóttu. því í fyrrinótt (þegar ég var í Reykjavík) þá snjóaði heil ósköp hér fyrir austan. Ég á ekki von á að koma bílnum mínum út á götu því þó ég sé með snjóbræðslu í innkeyrslunni þá hefur hún ekki haft við og svo er búið að ryðja götuna og hár kantur fyrir innkeyrslunni hjá mér sem ég legg bara alls ekki í að moka burtu. Já svona er nú lífið í dýrðarríkinu þessa stundina, maður er nánast veðurtepptur heima hjá sér.  En, allt hefur sína ljósu punkta. Ég sit t.d. hér og blogga og svo er ég með jólakortin við hliðina á mér og er á leiðinni að fara í gegnum þau og breyta heimilisföngum á listanum mínum svo hann verði klár fyrir næstu jól.  Og sólin skín þessa stundina og sendir fallegu geislana sína inn um alla íbúð hjá mér.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Mismæli – mistök og meiri snjór.

  1. Ja, þessi börn!
    Mig minnir að ég hafi prófað skærin einhvern tímann á Helgu systur og klippt nokkra lokka af fína hárinu hennar.

  2. Þórunn says:

    Það er gaman að heyra svona brandara úr daglega lífinu, ég get ekki sagt brandara héðan nema hrakfallasögur af tölvumálum. Erum þessa stundina í hálfu sambandi en þetta stendur allt til bóta. Bestu kveðjur úr góða veðrinu í Portúgal.

Skildu eftir svar