Smáfuglarnir og snjórinn.

Það er óhætt að segja að fljótt skipast veður í lofti. Það hefur ekki séð út úr augum hér í dag.


Ég vorkenndi svo smáfuglunum að fá ekkert korn í dag svo ég fór inní bílskúr og fann þar gamlan snjógalla sem Sigurrós átti þegar hún var unglingur. Ég tróð mér í hann og stakk mér í stígvél. Ég náði svo að ýta snjónum fyrir utan þvottahúsdyrnar aðeins frá með hurðinni. Síðan þurfti ég að draga mjög djúpt andann og halda jólamaganum nægilega inni til þess að geta troðið mér út um þessa litlu rifu.  Það er ekkert ofsögum sagt að pallurinn er svo fullur af snjó að það nær langt upp á glugga. Haukur var búinn að moka göng út að rennunum sem við gefum fuglunum í en þau göng voru orðin alveg full af snjó aftur og  meira en það.
Það bjargaði mér hinsvegar að þetta er svo mikill púðursnjór að það var tiltölulega létt að ýta honum. Það merkilega er að það var ekki mikill snjór í rennunum svo ég gat hreinsað þær aðeins og setti svo fullt af korni í báðar rennurnar svo sópaði ég aðeins af glugga svo ég gæti séð hvort fuglarnir kæmu. Jú, viti menn það voru aðeins örfáar mínútur liðnar þegar rennurnar voru yfirfullar af smáfuglum sem stóðu oft hver á bakinu á öðrum því atgangurinn var svo mikill.
Mikið var ég nú fegin að vita að gæludýrin mín fengu matarskammtinn sinn þrátt fyrir vonda veðrið. Það er ótrúlegt hvað maður er orðinn háður því að sjá þessa litlu vini sína við eldhúsgluggann.


Af ófærðinni að öðru leyti er það að segja að ég sé út um svefnherbergisgluggann að það er stærðar skafl þvert yfir innkeyrsluna hjá mér. En ég þarf ekkert að fara út og er einskis vant og þessvegna þoli ég við þó ég komist ekki í burtu fyrr en eftir nokkra daga. Það væsir sko ekki um mann í notalegheitunum innandyra.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Smáfuglarnir og snjórinn.

  1. afi says:

    Oft er þörf en nú er nauðsin að muna eftir blessuðum smáfuglunum.

  2. Ragna says:

    Já afi sæll, það eru orð að sönnu.

  3. afi says:

    Það fyrsta sem afastrákarnir gera þegar þeir koma í ömmubæ er að gefa fuglunum. Svo er beðið við stofugluggann.

Skildu eftir svar