Sunnudagur.

Þegar ég var svona sæmilega komin á kreik í morgun ákvað ég með stuttum fyrirvara að skella mér í messu til séra Gunnars. Ég gekk inn í kirkjuna á slaginu ellefu.
Ég sá mikið eftir að hafa ekki vitað að presturinn var veikur og að Djákninn var með svona barna/fjöllskyldumessu. Ég hefði þá alla vega getað tekið börnin með mér. Ég er ekkert sérlega heppin með það þegar ég fer hér í messu. Tvisvar hefur gestaprestur verið, í dag var enginn prestur og í eitt skiptið varð slík uppákoma kirkjugests (sem kom reyndar hempuklæddur), að ég var miður mín lengi á eftir.


Þrátt fyrir þessa byrjun varð þetta reglulega góður dagur. Guðbjörg hringdi til mín og bauð mér að koma til þeirra því foreldrar Magnúsar Más, þau Magnús og nafna mín Ragna voru hér sunnan heiða frá Akureyri og komu ásamt syninum Birki í heimsókn í Grundartjörnina.


Krakkarnir voru heima þessa helgi og það var pabbahelgi hjá Bjarka hans Magnúsar Más svo krakkarnir voru öll heima. Um tíma var Bjarki að spila á rafmagnsgítar inni í bílskúr og Oddur dansaði með af hvílíkri innlifun. Minnti mig talsvert á Einar frænda hans þegar hann tekur sig til við dansinn.  Það var mjög gott að það var hægt að loka tveimur dyrum á meðan tónleikarnir stóðu yfir en þeir strákarnir skemmtu sér konunglega.


Svo var auðvitað fylgst með „strákunum okkar“ í handboltanum. Spennan var hvílík að sumir gátu ekki horft á og gengu um gólf á meðan mesta spennan gekk yfir.  En, þetta var glæsilegt hjá þeim boltamönnum og vonandi verður gangur þeirra í keppninni góður.


Já, ég var sem sagt í mjög góðum og skemmtilegum félagsskap í allan dag, og ekki vantaði að raða í sig kaloríunum, fyrst í miðdagskaffinu og síðan í kvöldmatnum.  Þakka ykkur öllum fyrir frábæra samveru.


Svo dólaði ég mér nú heim í Sóltúnið aftur, horfði aðeins á sjónvarpið og dútlaði svo smávegis í myndaalbúminu mínu.


Nú styttist í að Haukur klári vinnusyrpuna og komi austur enn á ný.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Sunnudagur.

  1. afi says:

    Ekki alltaf messufært þótt messufært sé. Gott að það rættist úr deginum.

Skildu eftir svar