Í góðum gír.

Ég átti góða daga í borginni okkar alveg frá fimmtudegi og fram á sunnudag. Það var ýmislegt á dagskránni. Ég fékk tíma hjá honum Jakobi sjúkraþjálfara bæði á fimmtudag og föstudag, sem gerði það að verkum að ég naut helgarinnar margfalt. Þegar ég kom svífandi út frá honum á föstudaginn sótti ég Sigurrós og við kíktum á sal fyrir brúðkaupið í sumar og skoðuðum síðan brúðarkjóla.

Við Haukur höfðum það svo bara huggulegt í Hafnarfirðinum á föstudagskvöldið, en á laugardaginn fór ég um hádegið í saumaklúbb til Fjólu, borðaði góðan mat og hitti vinkonurnar.

Svo var nú hápunkturinn um kvöldið, Þorrablót Borgfirðinga Eystri, Héraðsbúa og Vopnfirðinga. Að venju raðaði maður í sig lundaböggum og hrútspungum að ógleymdum hákarlinum. Hákarl lærði ég að borða hjá bestu vinkonu minni Eddu Garðars þegar ég var níu ára . Ég var svo heppin að pabbi hennar verkaði hákarl og herti þorskhausa og mér var snarlega kennt að borða þetta allt saman. Móðir mín, sem þó var sannur vestfirðingur, var ekkert hrifin af lyktinni sem ég angaði af þegar ég kom heim eftir að við Edda höfðum laumast í kjallarann og fengið okkur hákarl. Ég lærði að þekkja glerhákarl frá skyrhákarli en á þorrablótunum hef ég aldrei séð glerhákarlinn á boðstólum. Mér þótti hann alltaf betri. "En allt er þetta góður íslenskur matur" eins og Guðni Ágústsson myndi segja (af því aðallega er nú þorramaturinn af sauðkindinni).
Eftir borðhald og gamanmál var dunandi dans við undirleik Hauks Ingibergssonar sem spilaði á hljómborð sem heil hljómsveit væri. Hann hafði söngvara sér til aðstoðar og héldu þeir uppi miklu fjöri. Það eru ekki alltaf stærstu hljómsveitirnar sem gefa bestu böllin.

Ég kom heim úr borgarferðinni í gær, á sunnudegi, og beint í bollukaffi til Guðbjargar og Magnúsar Más. Það var gott að ljúka þessum skemmtilegu dögum með góðu bollukaffi.

Ég segi bara við ykkur öll sem hafið borið mig á höndum ykkar síðustu daga. TAKK FYRIR MIG.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar