Leitað ráða!

Lumar einhver á góðu ráði, eða hefur heyrt um eitthvað krassandi til að ná úr sér þegjandi hæsi og kvefi með þurrum hósta sem engu hóstar upp???

Það þarf ekki að benda mér á Citromax, Prednisolon og Amoxillin því læknirinn er búinn að dæla því eitri öllu í mig og sumt af því er ég enn að taka, en það hefur bara ekkert að segja.
Þessi flensueftirköst eru bara alveg ferlega leiðinleg. Ég veit ekki hvað þetta kemur til með að taka margar vikur, ég er alla vega á þeirri þriðju og er að verða nokkuð þreytt á þessu.

Vikan sem er að byrja átti að vera mjög viðburðarrík hjá mér en ég er strax byrjuð að afboða í það sem ég átti að vera að gera í Reykjavík á morgun. Á fimmtudaginn þarf ég svo í bæinn í jarðarför um miðjan daginn og um kvöldið ætlaði ég svo út að borða með eiginkonum úr gamla spilaklúbbnum hans Odds heitins en við reynum að hittast einu sinni á ári. Ég býst nú við að vera frekar heima heldur en að vera hóstandi og koma ekki upp orði. Svo er tvennt á döfinni í bænum um helgina, annað á laugardag og hitt á sunnudag.

Ég segi því bara HJÁLP!

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Leitað ráða!

  1. Sigurrós says:

    Mikið vildi ég óska að ég gæti eitthvað hjálpað þér, það er alveg hræðilegt að heyra hvað þú ert rám og hás 🙁

  2. Magnús Már says:

    Lakkrísrót og fleira
    Sæl Ragna mín. Seyði af lakkrísrót gengur frá þurrum hósta dauðum, auk þess að hafa ýmis önnur jákvæð áhrif. Svo er til mixtúrur í apóteki sem er sérhannaðar til að vinna gegn þurrum hósta og heita Dexomet og Benylan. Svo hef ég líka heyrt að það sé gott að setja nokkra dropa af Tee-tree olíu út í sjóðandi vatn og anda að sér gufunni undir handklæði. Óska þér góðs bata.

  3. Magnús Már says:

    Vantar u
    Sé að það vantar u á tveimur stöðum í orðinu er. Bölvað þegar svona kemur fyrir.

  4. Ragna says:

    Þakka góð ráð.
    Þakka þér kærlega fyrir að hugsa vel til tengdó Magnús minn og gefa góð ráð. Best að fara aftur í heimsókn í Apotekið. u-in látum við hinsvegar liggja milli hluta. Ég tók nú ekki meira eftir því en svo að ég hélt að þú værir að benda mér á eitthvað í mínum texta og fór að leita. Kær kveðja,

  5. Þórunn says:

    Ragna mín, það er ljótt að heyra hvernig flensan fer með þig. Gamalt húsráð í Portúgal er að skera gulrætur í mjög þunnar sneiðar, raða þeim í skál og setja smá púðursykur á milli laga. Láta þetta standa yfir nótt og fá sér svo eina og eina teskeið af leginum sem myndast í skálinni. Hef ekki prófað þetta sjálf en Graca sagði mér þetta í dag. Góðan bata.

  6. Ragna says:

    Allt prufað
    Takk fyrir. Loksins kom eitthvað sem
    hljómar girnilega, gulrætur og púðursykur, nammi namm. Ég er búin að vera að drekka te af niðurrifinni engiferrót. Ég get nú ekki sagt að það bragðist sérlega vel en það er allt prufað þessa dagana.

  7. afi says:

    Skelfing er að heyra um þetta hryggðarinnar ástand þitt. Þú ert að verða eitt alsherjar tilraunadýr. Auðvitað ertu búin að prófa hunang.
    Þegar þessum tilraunum þínum er lokið sendirðu frá þér greinargerð. Er það ekki? Góðan og fljótan bata.

Skildu eftir svar