Lítið skrifað vegna veðurs.

Já, þegar veðrið er svona gott eins og það hefur verið síðustu daga þá sniðgengur maður tölvuna sína. Það má eiginlega segja að við búum pallinum þessa dagana og komum ekki í hús nema til að sinna nauðþurftum og til að sofa. Við vorum að segja það í kvöld þegar við sátum úti að borða kvöldmatinn að það eina sem vantaði væri að geta horft á fréttatímann í sjónvarpinu án þess að fara inn. Ég sá strax fyrir mér hvernig við gætum bjargað því. Færa sjónvarpstækið á eldhúsborðið og láta skjáinn vísa út, sitja svo úti og horfa á fréttirnar inn um gluggann. Þessi tillaga mín var kolfelld og við fórum inn og horfðum á fréttirnar. Við erum nefnilega sammála því að ekki megi sleppa fréttunum þó svo að maður hlusti meira og minna á þær í útvarpinu á klukkustundar fresti allan daginn. Að ég nú tali ekki um veðurfréttatímana í RÚV og auðvitað í sjónvarpinu, því það skal tekið á báðum sjónvarpsstöðvunum á hverju kvöldi. Maður verður nú að vita hvort það verða stuttbuxurnar eða gallabuxurnar sem eiga að liggja tilbúnar til að fara í næsta dag.

Nú er klukkan að ganga eitt og best að fara að brjóta saman stuttbuxurnar og hlýrabolinn til þess að hafa það tilbúið í fyrramálið (þ.e.a.s. ef veðurlýsingin hefur verið rétt) og koma sér í rúmið.

Ég segi því Góða nótt og Góðan næsta dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Lítið skrifað vegna veðurs.

  1. Anna Sigga says:

    Hæ!
    Til hamingju með Sigurrósu um daginn tvöfalt, semsagt bæði v/giftingar og afmæli!!!

    kveðja Anna Sigga

  2. Ragna says:

    Takk fyrir kveðjuna Anna Sigga. Ég verð að fá að vera pínu leiðinleg og segja að þú hefur dottið í sömu gryfju og svo margir aðrir, meira að segja sumir kennarar Sigurrósar, að segja Sigurrósu í staðinn fyrir Sigurrós, en nafnið beygist eins og rós en ekki eins og rósa. En kveðjan þín er jafn falleg og góð fyrir það og ég þakka þér fyrir og óska þér góðrar helgar.

  3. Þórunn says:

    Furðuhlutir á minni dagbók
    Sæl Ragna mín, ég veit ekkert hvað er að gerast í dagbókinni hjá mér en ég get ekki fundið leið til að þurrka þessa tvítekningu út, sem kom frá þér. Þetta gerir ekkert til, þú skrifar hvort sem er aftur og bendir á að þetta er ekki þér að kenna.
    En yndislegt að þið skulið hafa svona gott veður, njótið vel og lengi. Kveðja frá okkur í Portugal

  4. Sigurrós says:

    Þið eruð nú alveg ótrúleg! Bæði hvað varðar útlegðina á pallinum og fréttatímana! Það er sem sagt best að ég hafi með mér flíspeysu næst þegar ég kem ef maður fær ekkert að koma inn í hús, ég er nú yfirleitt svolítið kulvísari en þið þessi heitfengu 😉

Skildu eftir svar