Afsal – Rigning – Kleinur.

Í morgun var ég boðuð á fasteignasöluna til þess að ganga frá afsalinu fyrir Sóltúninu. þetta er búið að dragast af því það kom í ljós að baðkarið hjá mér var gallað svo það þurfti að skipta um það. Það þýddi auðvitað að það þurfti að brjóta upp flísar o. þ.h. En sem sagt þá er það yfirstaðið núna og allt komið sem koma skal og afsalið frágengið. Ég er mjög ánægð með samskipti mín við Eðalhús. Þeir hafa gert allt til þess að gera mig ánægða og það hefur svo sannarlega tekist. Ef ég hefði getað sett flottan broskall þá hefði ég sett hann hér.


Ég er búin að vera á leiðinni að baka kleinur nokkuð lengi en hef haft það sem afsökun að veðrið væri svo gott að ekki væri hægt að hanga inni og baka kleinur. Í dag hafði ég enga afsökun og er því búin að vera í kleinubakstri í mestallan dag. Ég ætlaði nú að baka eitthvað meira en lak svo bara niður hérna fyrir framan tölvuna og nenni ekki meiru í bili. Ég ætla að athuga í hvaða stuði ég verð seinna í kvöld.


Ég var að tala við Sigurrós og hún sagðist hafa verið að fá mjög gott ráð til að verjast geitungum. Ráðið er  SÍTRÓNA MEÐ NEGULNÖGLUM. Geitungar og bara flugur almennt ku forðast það sem er með sítrónu. Sigurrós var t.d. ráðlagt að hafa jurtina Sitronmelisse í herberginu sínu úti í Frakklandi í sama tilgangi. Ég er nú svo heppin að geitungar hafa ekki sest að hérna í Sóltúninu ennþá. Þeir hafa nóg að gera í eldri hluta Selfoss þar sem öll trén og gróðurinn er. Ég hef bara engann séð ennþá í sumar. Vonandi verð ég ekki búin að gleyma þessu góða ráði þegar trén mín eru vaxin úr grasi og geitungarnir búnir að finna okkur hérna.


Alveg er ótrúlegt hvað maður verður latur þegar það er ausandi rigning og dimmt inni. Ég var svo löt eftir kleinubaksturinn í dag að það er sko ekki möguleiki að ég nenni að gera meira í kvöld. Ég skrapp á bókasafnið þegar ég fór á fasteignasöluna í morgun og tók tvær „pocket“bækur. Ég er að hugsa um að fara snemma í rúmið og sjá hvort þetta er ekki eitthvað spennandi sem ég tók. Bækurnar eru báðar eftir Noru Roberts, önnur heitir Daring to Dream og hin heitir Hidden Riches. Þetta hlýtur að vera fínt. Allavega ætla ég að láta hér staðar numið í skrifum mínum og fara að gera mig klára í lesturinn. Sjónvarpið er hvort sem er alveg glatað svo ég missi ekki af neinu þar. Ég segi bara góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Afsal – Rigning – Kleinur.

  1. Anna says:

    Mér finnst þú hafa verið mjög dugleg!!! 🙂
    Sæl Ragna mín, og takk fyrir kveðjuna á blogginu mínu. Það kemur ekki fram í textanum hjá þér hversu margar kleinur þú steiktir en ég hef það nú á tilfinningunni að það hafi verið meira en nóg dagsverk. Maður verður jú, líka að hafa tíma fyrir sjálfan sig. Bestu kveðjur, Anna Sigga

Skildu eftir svar