Komin aftur.

Mikið er nú gott að vera komin með dagbókina sína aftur. Það er líka mikil heppni í óheppninni að engin gögn skyldu tapast þegar tölvudiskurinn hjá vefþjónustunni hrundi. Takk Jói minn fyrir að koma okkur hjá betra.is aftur á réttan kjöl.

Nú á ég bara eftir að fá og læra á nýtt forrit til þess að geta fært myndirnar mínar úr geymsluskránum inn í nýja myndaalbúmið. Ég bið bara róleg og vona að aðrir geri það líka, því þetta kemur einn góðan veðurdag.

Ég er búin að vera að brasa núna í lengri tíma við að koma einni mynd hérna inn í bloggið en það bara gengur ekki. Myndin virðist ekki vilja verða öðrum sýnileg, en ég á nú eftir að þjarma meira að og get kannski sýnt ykkur hana á morgun. Það er stundum betra að reyna aftur næsta dag.

Myndin sem ég ætlaði að sýna ykkur er af frábæra útsýninu úr nýju íbúðinni hans Hauks á 11.hæð á Austurbrún. Já Haukur er sem sagt fluttur úr Hafnarfirðinum í gamla góða hverfið mitt í 104 Reykjavík. Það er góður staður að vera á þegar maður er í kaupstaðnum.

Ætli þetta dugi ekki í bili. Það tekur mann alltaf svolítinn tíma að komast aftur í blogggírinn eftir, þó ekki sé nema nokkurra daga bloggleysi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Komin aftur.

  1. Þórunn says:

    VELKOMIN
    Velkomin kæra Ragna, mikið saknaði ég þín og ég er viss um að ég veit alveg hvernig þér leið því ég er búin að lenda svo oft í því að vera útilokuð frá netinu.

  2. Anna Sigga says:

    Velkomin aftur!
    Góða helgi!

Skildu eftir svar