Ömmuvika og ný gleraugu.

Þá er þessi ágæta vika á enda. Fyrsta vikan sem ég er með ömmubörnunum eftir skóla. Reyndar þurfti ég að byrja vinnuferilinn á því að fá frí í tvo daga til að fara í bæinn, en hér eftir verða allir tímar settir á morgnana svo að ekki komi til vandræða.
Ég var búin að fá lánuð nokkur spil hjá Sigurrós og er núna búin að læra það vel á þau að við ættum að geta spilað saman eftir helgina. Það eina sem ég hef yfir að kvarta er bara að tíminn er í rauninni svo naumur sem við höfum saman. Nú eru fimleikarnir byrjaðir og krakkarnir eru að byrja að læra á fiðlu svo það þarf að fara í tónlistarskólann og svo fer að hefjast kórstarfið í kirkjunni en Karlotta byrjaði í kórnum í fyrra. Það er því nóg að gera og dagurinn mætti alveg vera aðeins lengri.

Eitt af því sem ég gerði í leiðinni, annan daginn sem ég þurfti að fara í bæinn, var að fá mér ný gleraugu.  Gleraugun mín bókstaflega gufuðu upp 20. ágúst og hafa ekki sést síðan.  Ég  man eftir að ég tók þau af mér í bílnum hjá Guðbjörgu og Magnúsi Má þegar við vorum að fara í afmæliskaffi í Reykjaskóg og síðan ekki söguna meir. Þau virðast horfin af yfirborði jarðar alla vega úr Árnessýslunni.  Það er búið að snúa öllu við hér og þar og nánast búið að taka innréttingarnar úr bílnum en ekkert finnst Eftir að hafa ekið um eftir minni síðan 20.ágúst þá sá ég að þetta gengi nú ekki öllu lengur. Ég sá við leit í símaskránni að í Glæsibæ fengi maður tvenn gleraugu fyrir ein svo ég stormaði þangað. Áður en ég fór svo heim um kvöldið þá var ég komin með tvenn gleraugu. Önnur eru venjuleg en hin dökkna þegar birta verður of mikil og ekki spillti fyrir að ég fékk þessi tvennu fínu gleraugu samtals fyrir 30.800 krónur.  Ég mátti til með að segja frá þessu ef einhver er í sömu sporum og ég, að hafa týnt gleraugunum sínum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég týni gleraugum og  ég hef af því nokkrar áhyggjur að kannski séu þetta merki um fyrsta stigs elliglöp. En, ég á þó allavega tvenn núna.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Ömmuvika og ný gleraugu.

  1. Hulla says:

    jammmm
    Já Ragna, maður verður víst að eiga glegaugu. Ég fór út um allt hérna, eftir að ég kom heim frá ykkur, til að leita að nýjum gleraugum. en fann enginn sem mér líkaði. Endaði á að kaupa ein mjög fín á 95 dk. hehehe. leita svo bara rólega að þeim einu sönnu. kveðja frá öllum hérna

Skildu eftir svar