Verzlunarmannahelgin afstaðin.

Jæja þá er verzlunarmannahelgin þetta árið á enda. Enn einu sinni höfum við notið þess að vera að mestu heima um þessa helgi.  Sem betur fer virðist helgin hafa verið sæmilega slysalaus ef frá er skilið þetta hræðilega rútuslys. Hvernig ætli jeppamanninum líði eftir að hafa haldið áfram för sinni án þess að kanna aðstæður? Hann hefur kannski ekið svo hratt að hann hefur ekki einu sinni mátt vera að því að líta í spegilinn til að athuga hvernig rútunni reiddi af. Maður á kannski ekki að setja sig í dómarasæti en það er alveg hræðilegt hvernig gáleysi eins manns getur breytt lífi svo margra annarra í martröð.


Talandi um verzlunarmannahelgina og dómara þá get ég nú ekki orða bundist yfir tilstandinu og bréfinu frá Árna Johnsen. Hvað heldur maðurinn að hann sé?  Hann segir  „En við höfum þurft að glíma við menn sem fyrirlíta fólk og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að gera lífið leiðinlegt“. Er það ekki maður sem er að afplána dóm sem segir þetta? Við hefðum kannski átt að leyfa öllum sem sitja inni að fara til eyja að skemmta sér. Það er líka ótrúlegt að það sé fyrrverandi alþingismaður sem lætur svona frá sér fara. Það er jú Alþingi sem setur lögin sem okkur (þ.e. öðrum en Árna Johnsen) er ætlað að fara eftir. Það er greinilegt að hann sýnir ekki mikla iðrun þar sem hann afplánar sinn dóm og talar um að þeir sem eigi að halda uppi lögum og rétti séu „menn sem fyrirlíta fólk og …….“.  Það er eins og hann telji sig yfir alla aðra hafinn og ótrúlegt að Vestmannaeyingar skuli leggja í allan þennan kostnað við leigu á þyrlu og annað til þess eins að hampa Árna Johnsen. Voru þeir ekki fyrir helgina að kvarta yfir því að eiga að taka á sig aukinn kostnað við löggæslu???. Ég held ég tjái mig ekki um þetta frekar. Ég bara kemst á flug yfir svona dellu.


Sigurrós og Jói komu hingað á laugardagsmorguninn og gistu í eina nótt. Guðbjörg var hérna með krakkana á laugardaginn og við drukkum öll kaffi úti og grilluðum um kvöldið. Síðan fór Guðbjörg og krakkarnir upp í bústað til Eddu og þau drifu sig með þeim á varðeld og fleira sem var samkvæmt venju í Vaðneslandi fyrir sumarbústaðafólkið. Þegar við hin vorum búin að ganga frá eftir matinn þá bara lákum við  niður og nenntum ekki að hreyfa okkur fyrr en seinna um kvöldið þegar við  fórum í göngutúr um bæinn í kvöldkyrrðinni.  Ég leyfi mér að setja hérna link á myndirnar  fjölskyldudagar sem Sigurrós og Jói tóku á nýju stafrænu myndavélina sína.  Á sunnudagsmorgninum drifum við Haukur okkur út að hjóla og heilsuðum aðeins upp á Selmu og Jóa þegar við sáum að þau voru úti á pallinum sínum. Seinna um daginn fréttum við svo að þegar við vorum nýfarin frá þeim hafði Selma fengið svo hastarlegar kvalir í bakið að hún var flutt upp á spítala þar sem hún er ennþá sárkvalin. Vonandi að þeir finni nákvæmlega hvað er að svo hægt verði að gera eitthvað raunhæft annað en dæla í hana verkja og svefnlyfjum til að deyfa kvalirnar. Við fréttum þetta þegar við fórum upp í sumarbústað til Eddu og Jóns þar sem fjölskylda þeirra var um helgina. Þegar við komum voru reyndar bara konurnar og börnin heima því karlmennirnir og elstu strákarnir höfðu farið í fjallaferð á sérútbúnum jeppa sem þeir höfðu í láni yfir helgina. Sigurrós og Jói fóru svo í bæinn og við fórum svo í smá bíltúr um Grímsnesið áður en við fórum heim.


Í dag fórum við Haukur svo með Odd og Karlottu í fjöruferð. Við náðum í nokkra hraunmola til þess að klára að ganga frá gömlu myllunni hérna fyrir framan húsið.  Við dunduðum okkur svo við að klára þetta dæmi með mylluna.


Jóa og Haukur komu svo í heimsókn en Jóa var að keyra Hauk austur að Sólheimum þar sem hann vinnur í sumar í gróðrarstöðinni.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar