Stöðumælar í Reykjavík

Við Haukur skruppum í bæinn í dag. Það var orðið langt síðan Haukur hafði komið við á sínu lögheimili og var m.a. að athuga póstinn sinn og ýmislegt fleira sem hann þurfti að stússa. Ég hinsvegar notaði tímann til að hitta Sigurrós og við skruppum aðeins niður á Laugaveg í góða veðrinu. þegar til átti að taka þá var hvorug með smáaura í stöðumæli og þrátt fyrir tilraunir að fá smáaura í næstu búðum var það ekki hægt. Það gekk reyndar svo langt að við fórum í Bónus og keyptum Bruður og ég bað um að láta taka upp að næsta þúsundi á kortinu mínu en þá var svarið að ekki væri hægt að taka út nema fyrir vörunni. Þá gáfumst við upp og síðan gleymdi ég bruðunum í bílnum hjá Sigurrós. Við drifum okkur þá bara inn í Kringlu og röltum aðeins um þar og fengum okkur ís eins og hinir túristarnir. Haukur hitti mig svo í Kringlunni en þá var Sigurrós nýfarin heim. Við Haukur skruppum síðan aðeins í heimsókn til Bjarna og Margrétar. Það var gaman að skoða hjá henni bútasaumsteppin sem hún var með en hún var að koma af sýningu austur á landi með fullt að bútasaumi með sér. Hún er formaður íslenska bútasaumsfélagsins.


Haukur var búinn að tala um að bjóða mér út að borða í Reykjavík en þegar við vorum búin að heimsækja Bjarna og Margréti rétt fyrir klukkan sex og innbyrða þar fullt af skonsum og kleinum  þá vorum við ekki beint spennt fyrir því að fara og fá okkur að borða. Við ákváðum því að láta það bíða betri tíma. Á leiðinni heim hringdi svo Guðbjörg og sagðist hafa verið að elda svo mikið af grænmetislasagna  að við mættum til að koma og borða hjá henni. Það varð því úr að við fórum í Urðartjörnina og borðuðum þar. Mikið svakalega var þetta gott sem við fengum.


Kvöldið hefur verið rólegt. Við vorum að hlusta á gamla þætti með „saumastofudansleikjunum“ hans Hermanns Ragnars og síðan hlustuðum við á nýja diskinn með Magga Eiríks og KK. sem er rosalega góður. Ég mæli með honum.


 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar