Fjallganga – Lazyboy.

Ég var búin að koma mér svo vel fyrir og lá í mestu makindum í sólbaði hérna eftir hádegið í gær þegar Haukur ákvað að við yrðum að hreyfa okkur eitthvað og best væri að fara í smá fjallgöngu. Ég var fyrst að hugsa um að vera bara heima en dreif mig svo með grautfúl. En þetta var alveg stórkostlega fínt. Við ókum að Búrfelli hérna í Grímsnesinu og gengum upp á næstefsta hjallann. Við hefðum nú farið alla leið ef ekki hefðu verið að hrúgst inn svört ský sem við áttum von á að opnuðust yfir höfðum okkar þá og þegar (góð afsökun er það ekki). Ég var nú alveg hissa hvað ég komst því ég var að uppgötva það að síðan ég flutti á Selfoss þá geng ég aldrei upp brekkur því hér er allt slétt en þegar ég átti heima á Kambsveginum þá fór ég alltaf ákveðinn hring niður í Laugardal og á heimleiðinni þá gekk ég alltaf annaðhvort upp brekkuna hjá Áskirkju eða upp Brúnaveginn. Ég var hinsvegar svo þreytt þegar ég kom heim að ég bara lak hálfsofandi niður í Lazyboy stólinn minn. Drattaðist svo upp til þess að borða þegar Haukur var búinn að elda, lak svo aftur niður í stólinn og svaf allan fréttatímann en reif mig svo upp úr vesaldómnum og við skruppum aðeins yfir til Eddu og Jóns og sátum með þeim úti og horfðum á sólarlagið. Það er greinilegt að það þarf að setja svona fjallgöngur aftur á dagskrá til þess að auka úthaldið. Við vorum svo svakalega dugleg við þetta hérna áður.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Fjallganga – Lazyboy.

  1. Edda Garðars says:

    dugnaðarforkur
    Didda mín,
    Gaman var að lesa fjallgöngusöguna þína.
    Ég held að 10 trylltir hestar hefðu ekki fengið hana vinkonu þína upp úr lazy-boy stólnum til að ganga á fjall. Ég hefði kanski verið til í að spássera um láglendið á Selfossi. Ég hef það mér til afsökunar að ég er svo skrambi lofthrædd. (ágæt afsökun. Annars allt gott. Langaði bara aðeins til að leggja orð í belg.
    kær kveðja til Hauks
    þín eddagg

Skildu eftir svar