Dansinn dunar.

Sigurrós kom í gær og þær systur fóru síðan á ball með Sálinni. Það er verst að vera komin svona á efri ár annars hefði verið gaman að fara með þeim. Það er helst að hérna séu böll fyrir unga fólkið þá meina ég UNGA FÓLKIÐ en fyrir okkur sem erum eldri en 50 er nánast ekki neitt. Einstaka sinnum (svona 2 – 3 á ári) eru þó gömludansaböll annaðhvort á Borg í Grímsnesi eða í Básum og viti menn þeir sem mæta þar eru yfirleitt úr gömludansagenginu í Reykjavík. Það er eins og fólk hér sem komið er yfir miðjan aldur sé bara hætt að fara og dansa. Ég hinsvegar man þá gömlu og góðu daga þegar við Oddur vorum að mæta hérna á Selfoss til að fara með Eddu og Jóni á gömludansaböllin, hvílíkt fjör.  Annars má nú svo sem segja Selfyssingum til afsökunar að það gengur víst ekkert allt of vel heldur að halda úti svona böllum í Reykjavík þó mannfjöldinn þar sé meiri. Síðustu árin hafa verið böll þar svona á hálfsmánaðarfresti. Við sem elskum þessa íþrótt erum greinilega að verða eins og síðustu Geirfuglarnir. En eitt er víst, að fyrir mér er fátt skemmtilegra í lífinu en að sveiflast í polkum, rælum og völsun, fyrir utan það hvað það er gott fyrir líkama og sál. Það ætti að gera það að skyldu í grunnskólunum að kenna þessa gömludansa svo þetta deyi ekki út með nýjum kynslóðum.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar