Bíltúr með stelpunum.

Sigurrós gisti hjá Guðbjörgu í nótt og síðan komu þær til mín í morgun í kaffi og nýbakaðar skonsur. Við skruppum svo eftir hádegið í bíltúr og fórum m.a. í Álnavörubúðina í Hveragerði og svo auðvitað í Eden. Nú er aftur orðið hljótt um gömlu konuna í Sóltúninu því Sigurrós er farin í bæinn og Guðbjörg farin heim að taka á móti Karlottu og Oddi, en þau voru hjá pabba sínum um helgina. Edda leit aðeins inn seinni partinn og Loftur hringdi og spjallaði við mig, nánar um það seinna.


(Hér er linkur á myndir sem Sigurrós tók í dag  afslappelsisdagur)


 Rétt fyrir klukkan sjö birtist svo sendill frá blómabúðinni hérna með stóran og fallegan blómvönd. Þegar að var gáð var sendandinn auðvitað Haukur, hver annar. Hann sendi þetta í tilefni af því að við höfum verið saman í 13 ár um þessa helgi. Það hefur aldrei komið fyrir að hann geri ekki eitthvað í tilefni þessa dags og alltaf fæ ég blóm. Nú er hann hinsvegar í hitanum í Straumsvík en ég fæ að njóta fallegu blómanna sem hann sendi mér hér. Ég verð að elda eitthvað gott handa honum þegar hann kemur austur aftur eftir þessa fyrstu vinnusyrpu eftir sumarfrí. 


Ætli ég fari ekki bara að koma mér í rúmið með bókina sem ég er að lesa núna “ Daring to Dream“ eftir Noru Roberts og svífi síðan inn í draumalöndin.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Bíltúr með stelpunum.

  1. Kristbjörg Erla Hreinsdóttir says:

    Álnavörubúðin
    Sæl Ragna

    Ég er starfsmaður Álnavörubúðarinnar í Hveragerði og las að Sigurrós hefði tekið myndir. Ég er að leita að myndum til að setja í myndaalbúm handa eigendunum. Myndir sem eru teknar með augum viðskiptavinarins.

    Með von um að þú takir vel í þessa hugmynd.
    Bestu kveðjur,
    Kristbjörg Erla Hreinsdóttir

Skildu eftir svar