Bernskuminning – fyrirgefningin.

Það var Hvítasunnudagur, árið man ég ekki alveg nákvæmlega, en tel það hafa verið 1954. En ég man þennan dag eins og hann hafi verið í gær. Það var kirkjudagur Langholtsprestakalls, sem þá var tiltölulega nýstofnað og það átti að vera mikil skemmtun á Hálogalandi. Ég var búin að vera full tilhlökkunar í marga daga, að eiga að fá að fara þangað með foreldrum mínum.

Ég var í nýjum hvítum kjól með mjóum silfruðum röndum, sem mamma hafði saumað á mig. Hann var úr nýju efni en ekki eins og oft áður saumaður uppúr kjólum af eldri systrum mínum. Þeir kjólar voru þó  ekkert síður fallegir því móðir mín var snilldarsaumakona og notaði sér oft að spretta upp gömlum flíkum og snúa efninu við þannig að það sýndist sem nýtt.  

Ég man hvað ég var ánægð þar sem ég skokkaði niður Ásveginn í nýja fallega kjólnum mínum, full tilhlökkunar um það sem ég átti að fá að fara eftir hádegið.
Þegar ég var komin nokkuð niður brekkuna mætti ég einum leikfélaga sem alltaf hafði verið góður vinur. Ég kallaði ánægjulega "Halló" Hann svaraði ekki kalli mínu en kom alveg upp að mér og rak mér svo mikið kjaftshögg að blóðið lak samstundis niður á nýja hvíta kjólinn minn og ég fann að varirnar á mér voru bólgnar og rifnar.
Þá sagði hann, sem nú var orðinn ekki-vinur minn:

"Þetta færðu fyrir að vera á hjólinu hans Þóra í gær þegar ég ætlaði að fá það lánað"

Fleiri voru þau orð ekki. Hann hélt leiðar sinnar en ég hljóðaði svo hátt að mamma heyrði það og kom hlaupandi á móti mér til að vita hvað hefði eiginlega komið fyrir. Í fyrstu gat ég bara stunið upp  "Nýýýi kjóóóllinn miinn er óóónýtur. Hann Daddi eyðilagði hann". Síðan þegar ég hafði aðeins jafnað mig gat ég smám saman stunið því upp á milli ekkasoganna hvað hefði komið fyrir mig.  Foreldrar mínir áttu erfitt með að trúa þessu á hann Dadda því þó hann gerði nú ýmis prakkarastrik þá var hann langt í frá vondur drengur og tilefnið fannst þeim fáránlegt. Ég hafði sem sé fengið lánað hjól hjá Þóra í svona hálftíma daginn áður og akkúrat á þeim tíma þurfti Daddi að fá það lánað líka. 

Það var ekkert farið á Hálogalandsskemmtunina. Ég komst upp með það að ég harðneitaði að fara svona útlítandi og lá uppi í rúmi og grenjaði ófarir mínar mest allan daginn.

Eftir kvöldmatinn hringdi dyrabjallan og mamma fór til dyra. Fyrir utan stóð mjög lúpulegur drengur og spurði um mig. Mamma kallaði inn og sagði. "Didda mín komdu, hann Daddi ætlar að biðja þig fyrirgefningar á því sem hann gerði" ég gægðist aðeins fram og sagðist aldrei mundu fyrirgefa honum og ég ætlaði aldrei að  tala við hann aftur.
Nú fór drengstaulinn að skæla og rétti fimm króna seðil í átt til stúlkunnar og sagðist hafa fengið leyfi til að taka hann úr bauknum sínum. Stúlkan sneri þá uppá sig og sagði honum bara að henda fimmkallinum því hún vildi ekki sjá hann og síðan ítrekaði hún að hún ætlaði aldrei, aldrei að tala við hann aftur. Henni var ekki haggað og drengstaulinn varð að fara aftur heim með fimmkallinn  án þess að fá fyrirgefningu.  

Mamma hafði ekki farið inn aftur svo hún fylgdist með þessu og reyndi eftir bestu getu að fá mig til að fyrirgefa en mér var ekki haggað. Þegar við vorum komnar inn aftur þá gat hún skýrt það út fyrir mér hvað það væri mikilvægt að geta fyrirgefið. Hún spurði hvort ég hefði ekki séð hvað honum þótti leiðinlegt að hafa gert þetta. Mamma hans hefði haft samband og sagt að honum væri búið að líða svo illa vegna þessa allan daginn því hann sæi svo eftir þessu. Þá sagði sú stutta " Það er bara gott á hann því kjóllinn minn er ónýtur og ég gat ekki farið á Hálogaland, ég fyrirgef honum ekkert."

Þegar mamma bað síðan með mér bænirnar áður en ég fór að sofa varð allt í einu allt svo gott og ég sofnaði vært sátt við Guð og menn og daginn eftir lékum við krakkarnir okkur saman eins og ekkert hafi í skorist. 

Þetta aldrei, aldrei, kom ekki til framkvæmda og enn í dag tölum við Daddi saman. Ekki vill hann þó viðurkenna að hann muni eftir þessu atviki. En sagan er sönn og við mamma töluðum oft um þetta atvik og hún sagðist hafa vorkennt aumingja stráknum svo mikið og gat ekki skilið hvað ég gat verið harðbrjósta að láta hann fara sneyptan heim þarna um kvöldið án þess að fá fyrirgefningu. 

———–

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Bernskuminning – fyrirgefningin.

  1. Sigurrós says:

    Þessi saga hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, ekki síst af því ég þekki hinn fullorðna Dadda og það er eitthvað svo ótrúlegt og skondið að þessi yndislega ljúfi maður hafi einu sinni kýlt hana mömmu mína næstum kalda 😉 hehe

  2. afi says:

    Góð og falleg saga. Aumur er sá maður sem ekki getur fyrirgefið. En stundum er það erfitt og getur tekið langan tíma. Léttirinn er mikill þegar því er lokið.

  3. Magnús Már says:

    Um fyrirgefninguna
    Margt er hægt að segja um fyrirgegninguna, en mér finnst Guðjón Bergman komast að kjarna málsins þar sem hann segir: „Í hversdagslífinu hugsum við oft þannig að fyrirgefning sé lítið meira en að taka við afsökunarbeiðni. Stundum samþykkjum við slíka beiðni án þess að vilja í raun fyrirgefa, bara til að vera kurteis. Við höldum líka í gremju vegna særinda sem vinir eða vandamenn hafa valdið okkur í þeirri trú að gremjan muni vernda okkur. Í misskilningi okkar á fyrirgefningunni höldum við ekki aðeins í það sem veldur okkur særindum heldur blindum við okkur einnig fyrir því sem getur heilað okkur“

  4. Simmi says:

    Góð saga
    Frábært að lesa þetta, þú ert svo ótrúlega góð í að skrifa. Veit Mogginn af þér? Spurning um að þú farir að skrifa pistla þar? 🙂
    Annars er þessi saga mjög holl lesning fyrir alla.
    Kveðja heim á skerið.

Skildu eftir svar