Netvinirnir. Er afi afi, eða …

Ég hef orðið vör við þann misskilning að afi, sem kemur reglulega í heimsókn á síðuna mína og er svo elskulegur að kvitta yfirleitt fyrir sig í orðabelgnum, sé sami afinn og á aðsetur í vaktafríunum sínum hjá ömmunni í Sóltúninu. Þetta er nú ekki reyndin og afinn í Sóltúnsbæ kemur helst ekki nálægt tölvunni nema það nauðsynlegasta í vinnunni. Hans elskulegheit koma fram á annan hátt.

Afinn, sem ég er hins vegar svo heppin að skuli koma reglulega í heimsókn á síðuna mína, er góður og tryggur netvinur minn sem kallar sig afa.  Ég veit ekki önnur deili á honum en þau, að hann er afi í ömmubæ og þaðan skrifar hann frábæra pistla á síðuna sína. Ég heimsæki hann daglega og hef gaman af að lesa um afastrákana hans, bernskuminningarnar og allt hitt sem hann skrifar svo skemmtilega um.

Þó maður sé oft einn heima, þá er maður aldrei einn þegar maður er svo heppinn að vera í sambandi við eins gott fólk á netinu og ég hef fengið að kynnast.  Ekki spillir svo fyrir þegar fólk, eins og t.d. afi, skrifar smá kveðju í orðabelginn því þá er komin vissa fyrir því að maður hafi fengið heimsókn og það er svo skemmtilegt.

Svo er auðvitað toppurinn þegar maður hittir þessa netvini sína augliti til auglitis eins og ég upplifði í fyrsta skipti um daginn þegar Þórunn netvinkonan mín kom í heimsókn til okkar alla leið frá Portúgal..

Ég segi bara:  "Lengi lifi netið til góðra hluta".

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

15 Responses to Netvinirnir. Er afi afi, eða …

  1. Linda says:

    Afi
    Það er rétt Ragna, að Afi er yndislegur og skrifar góðar og skemmtilegar sögur.. Maður finnur hlýju og finnst maður vera velkomin í heimsóknunum til hans.. Þannig á það líka að vera hjá öfum..
    Þú sjálf skrifar nú skemmtilega pistla líka.. úpps.. þarna kjaftaði ég af mér.. hef semsagt komið í „heimsókn“ til þín líka en ekki þorað að kvitta.. er eins og hinn ruddalegasti gluggagægir.. Maður ætti að skammast sín..En hvað um það, nú hef ég kvittað og hætti hér með dónaskapnum að liggja á glugganum..

    Svo finnst mér svo einkennilegt að fólk sem maður þekkir engin deili á og skrifar athugasemdir/komment á síðuna hjá manni, að það er eins og maður þekkir það fólk samt.. finnur hvernig persóna viðkomandi er.. Ótrúlegt..
    Þessi veraldarvefur er alveg frábær..

    Kærar þakkir fyrir mig,
    Fyrrverandi gluggagægir.. 😉

  2. Ragna says:

    Takk fyrir Linda. Ég vona að fleiri fari að dæmi þínu og hætti að gægjast og geri heldur vart við sig. Þessi samskipti eru svo frábær,

  3. Tek undir þetta…
    …hjá ykkur báðum, allt saman! 🙂

  4. afi says:

    afi er alveg orðlaus. afi er bara afi fjögurra skemmtilegra peyja og pabbi fjögurra stráka. Það var algjör tilviljun að gamli fór að blogga, einnig að hann notaði nafnið afi. Sökum feimni og hlédrægni hefði það aldrei gengið að skrifa undir nafni. Oft hefur afi verið kominn á fremsta hlunn að bjalla í bloggvinkonu sína á Selfossi þar sem hann á frændgarð. En er það ekki full mikið af því góða. Er ekki nóg að angra fólk með sífeldum kommentum?

  5. afi says:

    Til að fyrirbyggja allan misskilning er ömmubær í Fossvoginum. Þangað fluttum við úr Kópavogi.

  6. Ragna says:

    Láta verða af hlutunum.
    Afi á bara að hrista af sér feimni og hlédrægni og láta verða af því að koma í kaffisopa. Kannski hægt að hittast öll ef Þórunn kemur aftur á Selfoss eins og hún var að spá í að gera. Henni þætti örugglega líka gaman að hitta afa. Við gætum haft svona netkaffi.

  7. afi says:

    Netkaffi? mmm hljómar nokkuð lokkandi.

  8. Sigurrós says:

    Amman í Sóltúninu (sem í mínu tilfelli er reyndar mamman í Sóltúninu…) elskar að fá gesti í kaffi og í Sóltúnið er alltaf gott að koma. Þannig að ég hvet Afa eindregið til að bregða sér austur fyrir fjall og kíkja í heimsókn.

  9. Gurrý says:

    Góðan daginn
    Mikið var gaman að heyra frá heimsókn Þórunnar til þín og ég þakka heimboðið líka, það væri nú ekki amalegt að hitta ykkur yfir molasopa og spjalla. Já, það er gaman að hitta gott fólk á netinu og ég er líka mjög ánægð með heimsóknirnar í dagbókina mína, það límist á mann skælbros sem virkar eins og vítamín þann daginn. Bestu kveðjur, Gurrý

  10. Þórunn says:

    Netkaffi
    Góðan dag, þetta er sannarlega að verða spennandi já mér líst vel á þessa hugmynd með að við mætum öll í „netkaffi“ til þín Ragna mín. Við áttum saman ógleymanlega kvöldstund um daginn og það er alveg á hreinu að við komum aftur á Selfoss síðustu vikuna í október. Nú erum við ákveðin í að leggja af stað til Akureyrar á laugardaginn og verðum líklega viku í ferðinni. Sjáumst, kveðja til ykkar allra frá mér og Palla frænda.

  11. Ragna says:

    Spennandi
    Já, mikið er þetta að verða spennandi. Nú þurfum við bara að setja niður dag og biðja um gott veður. Það er annaðhvort t.d sunnudagurinn 23. svo Þórunn verði komin til baka að norðan, eða helgin á eftir. Eitt er allavega víst netkaffi verður það.

  12. Hulla says:

    Þetta er frábært hjá ykkur. Þú skrifar svo og lætur vita hversu meiriháttar þetta hefur verið.
    Góða skemmtun. ;o)

  13. Ragna says:

    23. október.
    Þórunn var að hringja og þar sem hún fer aftur heim til Portúgal um mánaðamótin þá er sunnudagurinn 23. okt. ákveðinn fyrir netkaffið. Ég mun sjá til þess að heitt verður á könnunni og afinn í Sóltúninu bakar örugglega pönnukökur í tilefni dagsins.

  14. talandi um ad kikja og ekki kvitta
    Vist ad tad eru allir ad tala um ad kikja og ekki kvitta fyrir sig ta held eg ad tad se kominn timi til ad eg kvitti fyrir mig reglulega… eg er nu alltaf ad fylgjast med ollum hvad er ad gerast heim. Og eg vaeri nu alveg til i ad koma i heimsokn fyrir jol ef tad verdur kaffi a konnunni. Vid komum eflaust 13 des og verdum til byrjun jan. tad vaeri nu alveg aedislegt ad hitta ykkur oll. Hafid tad gott og takk fyrir ad leyfa manni ad vera med i tvi sem er ad gerast heima. Love Hulda og fjolsk. I oxford

  15. Ragna says:

    Ég hlakka til.
    Mikið þakka ég ykkur vel fyrir alla umræðuna. Mig langar til að biðja ykkur sem viljið koma í netkaffið sunnudaginn 23.okt., að láta mig vita á E-mail ragna@betra.is hvort þið getið komið. Nú bara leggjumst við á bæn og biðjum um gott veður og góða færð.

    Hulda mín, það er gaman að heyra að þið skulið koma um jólin. Láttu bara heyra í þér þegar nær dregur og við skipuleggjum einhvern hitting, alla vega veistu að þú ert velkomin í Sóltúnið hvenær sem er.

Skildu eftir svar