Afmælishelgin.

Það var táknrænt að ég skyldi glaðvakna á slaginu klukkan 6 á 60 ára afmælisdaginn minn. Ég skreið hinsvegar uppí aftur þegar ég var búin að skima í gegnum Moggann og Fréttablaðið og náði svo að kúra til klukkan átta en þá var ég líka of spennt til að geta sofnað aftur, enda stóð mikið til.

Eftir miklar vangaveltur um það hvað ég gerði þennan dag þá varð það úr að við Haukur færum með dætrunum mínum og tengdasonum og yrðum á Grand Hóteli í kvöldverði, gistingu og morgunverði. Þeir voru með svo ómótstæðilegt tilboð sem við féllum fyrir.  

IMG_0492

Hér er að finna myndir fá kvöldverðinum á Grand hóteli en svo eru fleiri myndir sem ég set líklega inn á morgun.

Ég fór í bæinn um hádegið með Guðbjörgu og Magnúsi Má og við Haukur tékkuðum okkur inn á Grand Hótel en þau fóru í útréttingar, svona eins og við sveitafólkið þurfum stundum að gera þegar í borgina er komið.

Um kaffileytið hittumst við svo öll uppi í Perlu og drukkum saman kaffi og borðuðum tertu. Síðan drifum við okkur öll á hótelið og sameinuðumst til að byrja með í okkar herbergi. Það var eins og jólin væru komin hjá mér því það höfðu borist pakkar úr öllum áttum sem ég samviskusamlega geymdi og tók upp á hótelinu.  Eftir matinn voru mér svo færðir pakkar sem höfðu komið á hótelið. Ég sem átti ekki von á neinum pökkum þar sem ég hélt ekki einu sinni upp á afmælið mitt. Það er greinilegt að fólkið mitt, bæði vinir og vandamenn,  er allt svo yndislegt og gott.

Svo var það kvöldverðurinn. Við fengum fyrst borð á svo leiðinlegum stað við gangveginn og barinn svo okkur fannst við vera að fara að borða á járnbrautarstöð og það var nú talsvert skúffelsi. En Sigurrós talaði við þjóninn og  þrátt fyrir að búið væri að raða á öll borðin, þá var þjónninn svo elskulegur að færa okkur og þá var eins og við kæmum í aðra veröld. Hvílík rómantík, logandi arineldur og maturinn var eins góður og hægt var að hugsa sér, allir fjórir réttirnir.

Ég vil leyfa mér að mæla með þessu tilboði Grand Hótels á rómantískum kvöldverði (eins og þeir kalla það réttilega), með fordrykk, fjögurra rétta máltíð og fylgir rauðvínsflaska fyrir hverja tvo og síðan gisting og morgunverður. Svona tilboð kostar varla meira en að fara bara út að borða og kaupa vínflösku með. Ég mæli eindregið með því að fólk kynni sér þetta ef það hefur í huga að gera eitthvað skemmtilegt. Ég held ég tali fyrir munn okkar allra þegar ég segi að þetta hafi verið alveg yndislegt og þjónustan hreint frábær.

Elsku Haukur, Guðbjörg, Magnðus Már, Sigurrós og Jói,  ég þakka ykkur öllum fyrir hvað afmælið mitt var einstaklega ljúft og skemmtilegt.  Aldrei áður hef ég haldið upp á afmælið mitt í heilan sólarhring. Ég hef heldur aldrei orðið svona gömul fyrr en núna 🙂

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Afmælishelgin.

  1. afi says:

    Glæsilegt
    Enn og aftur, innilegar hamingjuóskir með afmælisdaginn þinn. Þetta var næstum því eins glæsilegt og þú áttir skilið.

  2. Þórunn says:

    Afmælishátíð
    Þessi frásög af afmælishátíðinni er svo lifandi að mér finnst næstum að ég hafi verið þarna, þetta hefur greinilega heppnast vel og verið mjög ánægjulegt. Til hamingju með þetta allt saman. Mikið er dragtin þín falleg 😉

  3. Ragna says:

    Samsuða
    Takk fyrir. Þetta með fínu dragtina Þórunn mín er nú bara samsuða sitt úr hverri áttinni, gamall jakki, gamalt en samt nýrra pils í aðeins dekkri lit og toppur sem tengir svona hvorttveggja saman. Það er ótrúlegt hverju er hægt að púsla saman en ég þakka þér fyrir hólið.

  4. Ragna says:

    Að eiga og eiga ekki skilið.
    Þakka þér afi fyrir þín fallegu orð. Ég veit ekkert hvað ég á skilið og hvað ekki en eitt veit ég þó, að ég naut þessa alls hundrað prósent +

Skildu eftir svar