Hugsað til baka í jólaamstrinu.

Ætli það fylgi aldrinum að vera alltaf að rifja upp eitthvað gamalt. Ég er a.m.k. alltaf að fá einhverjar gamlar minningar í hugann og ætla bara að leyfa mér að pára þær hérna niður í dagbókina mína.

Mér er svo minnisstætt í pínulitla húsinu okkar (59fermetrar) í Kleppsholtinu, að uppi á loftinu hafði pabbi smá vinnupláss. Húsið var með valmaþaki og því  pláss í miðjunni þar sem hann var með vinnuborð. Það var reyndar alveg ófrágengið háaloftið og óeinangrað en þarna töfraði hann pabbi minn fram marga jólagjöfina.  Það var stigi úr eldhúsinu upp á loftið og þar sem ég var svo mikil pabbastelpa þá voru ferðirnar upp á loftið tíðar, allan ársins hring. 
Þegar hinsvegar fór að nálgast jólin var stundum kippt í hnátuna þegar hún ætlaði að gá hvað pabbi væri að gera og sagt: "Það má alls ekki fara upp á loft núna því pabbi er í jólapukrinu"  Þá vissi sú stutta að pabbi væri jafnvel að búa til jólagjöfina handa henni og erfitt var að sleppa ekki upp til að kíkja – bara aðeins.

Hann var snillingur hann pabbi enda ekki að ástæðulausu að hann var með Tómstundaþátt fyrir börn og unglinga í útvarpinu í mörg ár.  Mér er minnisstæð ein jólagjöfin sem hann gerði en það er dúkkuhús sem hann bjó til handa mér, alveg listilega vel gert og teiknaðar myndir á veggfóðruðum veggjunum og  mottur á gólfum. Það var lítið og hægt að leggja það saman.

Til þess að geyma það í þegar ekki var verið að leika með það, þá bjó hann til úr leðri tösku (veski) sem því var rennt inní.  Þetta er ennþá til og í góðu lagi nema hvað það er farið að láta á sjá eftir að ég og síðan öll systkinabörnin mín og svo stelpurnar mínar hafa leikið sér með það. Ég kalla það góða endingu.

Annað verð ég að nefna. Mamma fékk einu sinni frá honum kort og þegar kortið opnaðist kom í ljós stúlka í víðu pilsi og pilsið var úr peningaseðlum sem voru felldir saman. Fyrir þetta átti mamma sjálf að kaupa sér eitthvað fallegt sem hana langaði í.

Mér finnst svona minningar svo dýrmætar og ekkert jafnast á við bernskujólin. Það var ekki til mikið af peningum á mínu heimili en það var mikið til af ást.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Hugsað til baka í jólaamstrinu.

  1. Æ, bara falleg saga.
    Viltu ættleiða mig??
    Knús á kallinn.
    Fer að koma í kaffi!!

  2. Sigurrós says:

    Af hverju tekurðu ekki eina stafræna mynd af dúkkuhúsinu til að leyfa lesendum að sjá? Ég man hvað mér fannst þetta alltaf sniðugt hús og Playmo-karlarnir mínir bjuggu meira að segja í því á einhverjum tímapunkti 🙂

  3. Ragna says:

    Seinna.
    Sigurrós mín, mér var nú líka búið að detta í hug að taka mynd af húsinu. Húsgögnin hans Hauks standa hinsvegar fyrir framan hillurnar í skúrnum svo ég kemst ekki að til að finna það. Það verður bara að koma seinna.

  4. afi says:

    Góður þáttur
    afi man svo sannarlega eftir þessum þætti og einnig kynningarlaginu. Góð og falleg minning. Margar fjölskyldur bjuggu afar þröngt á þessum árum og þótti ekki tiltökumál.

  5. Þórunn says:

    Minningar
    Takk fyrir að lofa okkur að heyra þínar ljúfu bernsku-minningar. Já ég man vel eftir Tómstundaþættinum, ég var límd við útvarpið og fékk margar frábærar hugmyndir þar. Mig skal ekki furða að pabbi þinn hafi gert sniðugar gjafir handa fjölskyldunni. Kveðja úr litla Kotinu í Portúgal.

  6. Ragna says:

    Um miðja síðustu öld.
    Já, það er svona með okkur sem fædd erum í kringum miðja síðustu öld, við munum svo vel þennan gamla góða tíma þegar allir tóku þátt í öllu. Ein útvarpsstöð sem allir hlustuðu á og fólk heimsótti hvert annað án þess að vera boðið sérstaklega. En, það er líka gaman að lifa í dag í allri þeirri fjölbreytni sem við búum við núna. Mér finnst við bara svo sérstaklega heppin að hafa samanburðinn við gamla og nýja tímann. Að ég tali nú ekki um okkur bloggvinina sem nú erum á kafi í tækninni. Heyr!!! fyrir okkur sem höfum þróast svona vel inn í framtíðina.

  7. Linda says:

    Þetta er svakalega falleg minning Ragna..
    Og ég tek undir með Sigurrósu að setja mynd af húsinu á vefinn þinn.. Þó það verði seinna..

  8. afi says:

    Flöskutappar
    Eitt man afi úr þessum þáttum, það var að nýta ýmsa hluti. Gefa þeim nýtt líf. Eitt af því var að nota flöskutappa sem rist við úti dyr. Eða á að kalla það fótaþurrku? Þetta sá afi nokkuð víða eftir þáttinn.

  9. Ragna says:

    Svar til Hullu.
    Hulla mín þú varst fyrst að leggja orð í belginn og það gleymdist bara að svara þér því það komu svo margar færslur í framhaldinu.
    Þetta með ættleiðinguna. Þarf ég nú ekki að halda að kannske sé ég vonda stjúpan?
    Búin að smella kossi á kallinn.
    Koma í kaffi. Þetta hélt ég að væri jók en var að fá það staðfest áðan að líklega væri það reyndin að þú værir að skreppa yfir hafið. Það er sko alveg öruggt að þú færð kaffi og kannski smákökur líka. Þessi á öðrum fætinum verður himinlifandi að fá þig í heimsókn og ég líka.

Skildu eftir svar