Komin úr helgarferðinni.

Það er mikið um helgarferðir núna. Sumir fara alla leið til Ameríku, sumir til Evrópu og aðrir fara bara frá Selfossi til Reykjavíkur og njóta sjálfsagt álíka vel.

Á laugardaginn fór ég með rútunni í bæinn því Haukur, sem þá var að klára vinnusyrpu í bænum, var að fara í aðgerð á fæti og það þurfti að koma bílnum hans austur eftir helgina.
Mikið er ég nú fegin að þurfa ekki alltaf að fara með rútunni. Ekki vantaði mig nú plássið því í gamalli 60 manna rútu fóru frá Selfossi auk bílstjórans tveir farþegar og þrír bættust við í Hveragerði. Síðan höktum við í bæinn. Eitthvað fannst mér nú vanta á hagkvæmni að vera með svona stóra rútu fyrir svona fáa farþega.  Rútan beygði inn á Rauðarárstíginn og að Hlemmi, hefur líklega verið að forðast hringavitleysuna á nýju Hringbrautinni. Ég sá mér því leik á borði og stökk út við Hlemm og af því að ég var með fullt af dóti þá ákvað ég að taka mér leigubíl þaðan og upp á Austurbrún. Enginn leigubíll beið við staurinn þegar ég kom en einn ungur maður beið  hinsvegar og kom strax að tala við mig.  Hann vildi vita hvaðan ég kæmi, hvort ég væri að fara til Keflavíkur. Nú, hvert ertu þá að fara?  Mér var alveg hætt að lítast á blikuna því ég heyrði að hann var kominn á þá skoðun að við ættum að taka okkur bíl saman. Ég hringdi hinsvegar í Hreyfil og bað um að sendir yrðu tveir bílar  STRAX og sendi svo strákinn í fyrri bílinn. Mikið var svo gamla konan fegin þegar hún gat sest inn í bil og þurfti ekki að bíða lengur hrædd um að einhver annar rugludallur kæmi til að yfirheyra hana.

Síðan sótti Edda mín Garðars mig á Austurbrúnina og við fórum í saumaklúbb í Vesturbæinn svo kom hún aðeins með mér upp á elleftu hæð að horfa yfir gamla leiksvæðið okkar sem er okkur svo hjartfólgið. Úr gluggunum hjá Hauki sjáum við húsin sem við bjuggum í sem stelpur standa hvort á móti öðru við Kambsveginn. Yndislegt.

Ég ætla nú ekkert að tíunda allt sem ég gerði í borgarferðinni en meðal annars þá litum við inn hjá Sigurrós og Jóa, hjá Jóu hans Hauks, borðuðum á Laugaási og fórum aðeins í Smáralind.

Í gærmorgun, mánudag ók ég Hauki hinsvegar á Jósefsspítalann í Hafnarfirði þar sem hann var svæfður og stóra táin á öðrum fæti hans var svínbeygð til baka svo nú leggst hún ekki yfir þrjár næstu tær þeim til ama.  Ég notaði síðan tímann og heimsótti tengdamömmu og Ingabjörn  og skrapp aðeins inn í Kringlu. Ekki nennti ég nú að eyða miklum tíma þar og kom mér upp á Austurbrún og lét  fara vel um mig þar.

Í morgun sótti ég svo sjúklinginn og nú situr hann hér í Lazyboy og bíður eftir að fá kökuna sem er í ofninum með kaffinu á eftir.  Best að gá hvort kakan er nokkuð orðin brennd á meðan ég er að þessu pári. Ég kveð bara að sinni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Komin úr helgarferðinni.

  1. afi says:

    Dekur
    Það er aldeilis dekrað við þessa tá kappa. Ekki nóg með að ekið sé með þá út og suður, heldur er bakað fyrir þá líka. Þetta er bara sældar líf. (Rændi frá þér uppskirft af helgar matnum.) Takk fyrir það.

  2. Linda says:

    Þú verður að fyrirgefa Ragna..
    En ég nappaði sjálfa mig á að hlægja upphátt af sögunni í miðbænum..
    Er næstum viss um að hjartað í þér hefur slegið aðeins hraðar en venjulega á meðan þessi drengur var í þessum samningsviðræðum við þig..hahhahaha..

  3. Þórunn says:

    Ævintýraferðir
    Þarna sannaðist að það er hægt að lenda í ævintýralegum aðstæðum án þes að fara til útlanda. En Ragna er svo þroskuð kona að hún er tekur enga áhættu. Það eru ekki allir sjúklingar jafn heppnir og hann Haukur að láta stjana svona við sig, hann kann vel að meta kökurnar og á þetta örugglega skilið. Góðan bata Haukur minn, kveðja frá frænda og mér, Þórunn

  4. Gurrý says:

    Halló Ragna
    Uss hvað er langt síðan ég kíkti til þín! Ég var svo hissa annars þegar ég talaði við þig í símann meðan ég hitti Þórunni, ekki átti ég von á að geta talað við tvær netvinkonur á einum degi 🙂 Til hamingju með nýju saumavélina, hef það frá áræðanlegum heimildaraðila (mömmu) að þetta eru langbestu maskínurnar. Bestu kveðjur frá Ammanborg, Gurrý

  5. Ragna says:

    Gaman að fá orð í belginn.
    Já afi sæll, það er svona með dekrið. Mér finnst svo gott að geta endurgoldið það sem dekrað hefur verið við mig. Stundum finnst mér ég vera algjör dekurrófa.
    Linda mín, ég get líka hlegið að þessu svona eftir á, en það er svo mikið af rugludöllum í umferð og maður er alltaf að heyra fréttir af árásum á saklausa vegfarendur. Ég verð að játa að ég var hálfsmeik. Hinsvegar hefur þetta sjálfsagt verið vænsti piltur þó hann væri nokkuð ágengur í spurningum sínum. Alla vega slapp ég vel frá þessu. Það er rétt sem Þórunn netvinkona mín segir, að ég tek enga áhættu.
    Þakka þér fyrir kveðjuna frá Ammanborg Gurrý mín, já það var gaman að geta heyrt í hvor annarri og það var stórkostlegt að hitta Þórunni. Kannski getum við hittst allar einhverntíman seinna.

    Ég er svo þakklát öllum sem nenna að skrifa í orðabelginn minn. Það er svo gaman að sjá að eitthvað hefur bættst við þar. Það er svona eins og þegar bréf hefur komið inn um bréfalúguna.

Skildu eftir svar