Smáfuglar fagrir og jólabjarminn.

Ég er búin að vera svo löt, með hausverk og illt í hálsinum í nokkra daga án þess að vera með hita. Ég hef alltaf haft það sem mælikvarða á það hvort ég kallast lasin, hvort ég er með hita eða ekki. Svo nú sit ég uppi með svona asnalegt ástand, að vera lasin en samt ekki lasin. 
Jæja ég nenni ekki þessum pælingum. Ég verð örugglega orðin góð á morgun.

Það gladdi mig mikið í dag að vinir mínir smáfuglarnir komu að gæða sér á korninu í rennunum úti á pallinum. Gott að Haukur var búinn að koma þeim fyrir svo nú var hægt að fylla þær af korni.  Fuglarnir voru að matast þar til það var alveg komið myrkur.  Ég tók þessa mynd í ljósaskiptunum, en þeir voru varir um sig og ég komst ekki nær þeim en þetta án þess að þeir flygju allir í burtu.  Veðrið er búið að vera alveg himneskt í dag. 
Ég var að myndast við að baka smákökur þegar ég veitti þessari fallegu birtu athygli og ákvað að taka nokkrar myndir út um gluggann, annars hefði ég stokkið niður að ánni til að ná betri mynd af sólarlaginu en ég geri það bara seinna. Svona birtu í desember kallaði mamma mín alltaf jólabjarmann og mér verður hugsað til þess á þessum fögru desemberdögum.

Fuglarnir voru að matast í rennunum fram í myrkur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Smáfuglar fagrir og jólabjarminn.

  1. Svanfríður says:

    Ég fæ nú bara heimþrá við þessa mynd-jólabjarminn er falleg lýsing. Segðu mér eitt Ragna, ertu Selfyssingur?

  2. Ragna says:

    Selfyssingur?
    Ég ætlaði að fara að svara þér Svanfríður hérna í orðabelgnum en ákvað þá að næsta færsla í dagbókina gæti verið sagan af því þegar ég ákvað að flytja á Selfoss. Nú er því best að hefjast handa við þá færslu.

  3. Anna Sigga says:

    Glæsilegt!
    Þetta er mögnuð mynd. Aðventukveðjur og góða helgi.

  4. Sigurrós says:

    Æ já, mér verður einmitt oft hugsað til ömmu þegar himinninn er svona logandi fallegur. Hún sagði mér stundum að þá væri Guð að skreyta fyrir jólin 🙂

  5. Linda says:

    Bara á Íslandi er hægt að sjá þessi fögru ljósaskipti.. Þetta er stórkostleg mynd..
    Jólabjarminn er gott heiti á þessum tíma.. svo finnst mér gardínurnar þínar mynda svo fallegan ramma utan um myndina..

    Kannski við hæfi að senda bara jólakveðjur.. 😉

  6. Þórunn says:

    DÁSAMLEGT
    Dásamleg mynd af þessari dásamlegu birtu, héðan í frá mun ég kalla þetta jólabjarmann.

  7. afi says:

    Þú ert einkar lagin við að fanga rétt augnablik. Birtan, fuglarnir og fallegur rammi utan um alla dýrðina.

Skildu eftir svar