Jólasveinar og fleiri góðir.

Nú var fyrsti morguninn sem örlátu jólasveinarnir komu og gáfu börnunum í skóinn. Karlotta fékk eitthvað fínt en Oddur sagðist hafa bara hafa fengið mandarínu af því hann hafi verið eitthvað óþægur í gærkvöldi. Amma hughreysti hann og sagði að hann hafi nú verið heppinn að hafa fengið mandarínuna því sumir krakkar fengju kartöflu í skóinn. Hvað hann hefði þá gert? 

Það stóð ekki á svarinu: "Jú, ég hefði bara farið með hana í skólann og beðið konurnar í eldhúsinu að sjóða hana fyrir mig og borðað hana svo í hádeginu."  Já það stendur ekki á svari hjá ömmustubbnum.

Á leiðinni að sækja börnin í skólann í dag kom ég við í ritfangabúðinni og keypti pappír því Sigurrós var með svo fínt snið af jólastjörnu sem mér datt í hug að við gætum búið til. 

Þegar ég var komin með þau hérna heim og við vorum búin að fá okkur hressingu fór ég að taka fram pappírinn og lím og fleira til stjörnugerðarinnar. Þá horfði Karlotta á mig og spurði hvað ég væri að gera, hvort ég væri virkilega búin að gleyma því að við hefðum ætlað að pússa silfrið og koparinn í dag hún væri búin að hlakka svo til þess að hún vildi ekkert fara að búa til einhverja stjörnu.

Amma pakkaði því öllu föndrinu saman  og dró fram fægilög og tuskur og auðvitað einnota hanska á hendurnar og svo var pússað og pússað þar til mamma kom að sækja unga fólkið.

Það er aldeilis fínt að fá nýja áhugamanneskju til að pússa silfrið því þetta var alla tíð verk mömmu hennar Karlottu á meðan hún var heima. Það mátti enginn koma nálægt þessu nema hún.

Nú ætlar amman hinsvegar að fara að koma sér í rúmið og hvíla sín gömlu lúnu bein eftir amstur helgarinnar og dagsins í dag.  

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Jólasveinar og fleiri góðir.

  1. Svanfríður says:

    Siðir
    Ég fór að hugsa þegar ég las pistilinn þinn að í hverri fjölskyldu hljóta að vera vissir siðir, þú með silfrið til dæmis. Heima hjá mér þá pússaði ég alltaf borðstofustólsfæturna, alltaf fyrir hver jól og pabbi skúraði og gerir að vísu enn, alltaf eldhúsgólfið að morgni aðfangadags og veistu, ég sakna þess!

  2. Sigurrós says:

    Já, stóra systir sá alltaf um silfrið á mínu heimili eins og dóttir hennar gerir nú. Ég, strumpurinn á heimilinu, sá hins vegar um að þurrka af stigahandriðinu. Dundaði mér svo við þetta í óheyrilega langan tíma eins og mér einni er lagið 😉

  3. Ragna says:

    Já stigahandriðið!Já það var gott að hafa hjálpara í það starf. Ég er þakklát fyrir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af þeirri smíðajárnsflækju lengur.

  4. Þórunn says:

    Hefðir
    Það eru meðal annars svona hefðir sem byggja upp stemminguna fyrir jólin. Börnunum finnst alveg ómissandi að hafa þetta svona. Það hefur verið gaman hjá ykkur að horfa á silfrið verða glampandi fínt eftir alla vinnuna.

  5. unnsteinn says:

    Takk fyrir kertið sem þú kveiktir fyrir mig 😉 Falleg gjöf í anda jólanna 😉
    Vona að ég heyri nú í ykkur fyrir aðfangadag…
    Bið að heilsa öllum

Skildu eftir svar