Jólapósturinn.

Það ætti svo sem ekki að vera í frásögur færandi að fara á pósthús með jólapóstinn sinn, en stundum beinlínis langar mann til að segja frá hinni eða þessari upplifun þó hún sé ekki á nokkurn hátt merkileg.  Einhverntíman heyrði ég sagt að ef maður væri að spá í það hvort maður ætti að taka mynd eða ekki þá væri það merki þess að um myndefni væri að ræða og maður ætti að taka mynd.

Þar sem ég sat í góðu yfirlæti á pósthúsinu fór ég að hugsa um hvað það væri nú skemmtilegur og góður siður að senda vinum og vandamönnum jólakort og hvað þessi siður vekur margar minningar um þá sem kortin eiga að fá.  Að búa til kortin, að skrifa á þau og skrifa nöfnin utaná. Hvert og eitt handtak við þetta kemur manni til að hugsa um viðkomandi.

Mér datt ekki í hug að það yrði eitthvað sérstaklega afslappandi eða skemmtilegt að fara á pósthús og frímerkja því í minningu áranna var þetta eitt mesta jólastressið.  Reyndar var ég svo forsjál í fyrra að kaupa frímerkin löngu fyrir þennan tíma og límdi svo á hérna heima. En sterkasta minningin um þessa athöfn er sú að bíða í langri biðröð og troðast síðan til að finna einhversstaðar pláss til að athafna sig – auðvitað allt með hraði. 

Í dag hinsvegar reyndist þetta mjög notalegt. Það er svona að búa utan Reykjavíkur – ekkert stress.  Afgreiðslustúlkan benti mér á að það ilmuðu frímerkin. Ég starði á hana og kannaði síðan sjálf, jú mikið rétt, það er kanillykt af frímerkjunum með rauða eplinu. Þessi elskulega afgreiðslustúlka sagði mér síðan að það væri nýlagað kaffi á könnunni og nú væri um að gera að láta bara fara vel um sig og njóta þess að líma frímerkin á jólaumslögin.

Ég verð að játa að þetta er í fyrsta skipti sem ég virkilega naut þess að frímerkja blessaðan jólapóstinn. Það hefur yfirleitt verið algjör færibandavinna og hugsunin sú að vera nógu fljót. Í dag skoðaði ég nöfnin á umslögunum einu sinni enn og leyfði gömlum minningum að flæða um leið og ég límdi ilmandi frímerkin á, að ógleymdum kaffisopanum sem ég dreypti á öðru hvoru.

Þegar upp var staðið hafði þetta tekið ótrúlega stuttan tíma í mínútum séð en mér leið eitthvað svo vel eftir þessa athöfn og nú finnst mér dagurinn svo miklu dýrmætari þakka skal afgreiðslustúlkunni í Pósthúsinu á Selfossi, sem benti mér á að  frímerkin væru með jólalykt, að fá mér kaffisopa og að gera þetta í rólegheitunum.

Þessu bara varð ég að fá að deila með bloggvinum mínum.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Jólapósturinn.

  1. Svanfríður says:

    Mikið vildi ég að svona þjónusta væri hér á pósthúsinu í Cary. En því miður ekki. Þar brosir enginn, heldur er algjör færibandavinna í gangi þar. Ég var einn og hálfan tíma á pósthúsinu um daginn og kom pirruð og hálfdöpur út, sem aldrei er gott.

  2. Linda says:

    Ég er sko alveg sammála með að minningarnar streyma þegar maður skrifar jólakortin..
    þetta er yfirleitt ein af þessum jólaathöfnum þar sem stressið fer með mann af því að maður skrifar kortin á síðustu stundu.. en einhvern veginn myndi ég ekki vilja hafa það öðruvísi.. þrátt fyrir allt.. Ætli það sé ekki stressið sem komi manni pínulítið á minningarbrautina því þetta gerist ár eftir ár.. alla vega á mínu heimili..
    Ég gerðist nú skynsöm í ár og sendi kortin yfir hafið fyrir nokkrum dögum síðan en kortin sem eiga að dreifast um Ameríku liggja ennþá á eldhúsborðinu.. óskrifuð og ennþá í pakkningunni..
    Svona er ég nú skrítin..

  3. Þórunn says:

    Frímerki
    Það er svo notaleg að lesa hugleiðingar þínar um það sem þú gerir fyrir jólin. Þessi um frímekrin er líka góð. Ég hef ekki fyrr heyrt um ilmandi frímerki, en það er frábær hugmynd. Ég hef einmitt haft dálitlar áhyggjur af því undanfarið hvað það er orðið lítið um frímerki. Kuldalegir stimplar eru að taka yfir. Ég sakna fallegur jólafrímerkjanna. Og hérna í Portúgal kaupir maður umslög með áprentuðum greiðslustimpli, sem er ekki lengur jólalegur, hann sem var svo fallegur í fyrra. Gæti verið að ég ætti von á ilmandi frímerki? Ég bíð spennt.

  4. afi says:

    Jólaskap
    Það er ekki sökum að spyrja, afi kemst bara í jólaskap við að lesa pistlana þína. Svo heyrir afi af fólki sem finnst það vera kvöð frekar en ánægja að senda jólakveðjur til ættingja og vina. En stundum fannst afa það þess virði að bíða í klukkutíma á pósthúsinu án kaffis að koma kortunum frá sér. Það er þó liðin tíð löngu búinn að kaupa öll frímerki.

Skildu eftir svar